Max 1
Max 1

Pistlar

Þetta er undir okkur komið
Föstudagur 25. október 2024 kl. 06:16

Þetta er undir okkur komið

Símanotkun getur verið stóralvarlegt mál. Símanotkun á miðjum nóttum er oftast enn alvarlegri. Það hefur sagan sýnt okkur. Ráðherra sem mátti ekki hringja í ríkislögreglustjóra hringdi samt í hann um miðja nótt og allt varð vitlaust. Raðmóðgunarferli hófst innan ríkisstjórnarinnar og menn og konur yfirmóðguðu hvert annað. Þetta endaði með því að stjórn sem okkur hafði verið talin trú um að stæði sterkt steinlá út af einu símtali. Þing var rofið og boðað til kosninga. Það ætlar að reynast okkur Suðurnesjamönnum dýrt sé litið til áhrifa okkar í þinginu.

Það er ljóst að Suðurnesin eru langfjölmennsta byggðasvæði Suðurkjördæmis og miklar áskoranir sem bíða okkar næstu árin. Við þurfum að hafa þingmenn sem hafa áhrif og njóta trausts. Því miður þá virðast fréttir helgarinnar benda í þá átt að velflestir stjórnmálaflokkarnir hafi ákveðið að snúa við okkur baki. Hugsa meira um frægu nöfnin þegar kemur að vali á lista en hagsmuni heildarinnar – og þá sérstaklega hér á Suðurnesjum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Framsókn fór leið Don Kíkóta og leggur til atlögu við vindmyllurnar, í viðleitni sinni til að halda formanni sínum inni á þingi. Suðurnesjamaður er settur til málamynda í þriðja sæti, þó ljóst sé að samkvæmt skoðanakönnunum eigi sá litla möguleika á þingsetu að loknum kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn valdi að henda tveimur núverandi þingmönnum af Suðurnesjunum út af lista sínum. Það var þeirra lýðræðislegi vilji að hafa þetta svona. Skilaboðin skýr, því færri Suðurnesjamenn, því betra.

Samfylkingin, sem átt hefur Suðurnesjamann í oddvitasæti um áraraðir, taldi rétt í kjölfar brottfarar oddvita síns að nú væri aftur rétt að við hlýddum Víði. Samt er ekki um neitt almannavarnarástand að ræða þar sem tala þarf í boðhætti, heldur bara venjulegar kosningar sem fram fara með reglulegu millibili.

Svo virðist vera sem aðeins tveir flokkar velji að stilla upp oddvitum héðan af Suðurnesjum. Vinstri græn, sem aldrei hafa náð inn manni í Suðurkjördæmi og ólíklegt að það gerist nú. Hinn flokkurinn er Viðreisn þar sem Suðurnesjamaðurinn Guðbrandur Einarsson er oddviti og verður væntanlega áfram.

Það skiptir máli fyrir okkur Suðurnesjamenn að við eigum sterkar raddir á þingi. Velflestir flokkarnir hafa nú skýrt sýn sína. Við þurfum ekki þingmenn af Suðurnesjum. Það eru döpur skilaboð. Við getum sent skilaboð til baka. Sé ekki Suðurnesjamaður í mögulegu þingsæti viðkomandi flokks kjósum við þá ekki. Þetta er undir okkur komið.