Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Viðskipti

55 fyrirtæki framúrskarandi á Suðurnesjum
Systurnar Guðlaug og Jóna Sigurðardætur frá SI raflögnum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 8. nóvember 2024 kl. 10:54

55 fyrirtæki framúrskarandi á Suðurnesjum

Fimmtíu og fimm fyrirtæki á Suðurnesjum eða 5% af heildarfjöldanum eru á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki.  Fyrirtækin koma úr öllum helstu greinum atvinnulífsins, sjávarútvegi, framleiðslu og verslun, verktakar úr iðnaðargeiranum og hugbúnaðargeiranum. Framúrskarandi fyrirtækjum á Suðurnesjum fjölgaði um tíu frá því á síðasta ári eða rúmlega 20%.

Aðeins eitt fyrirtæki á Suðurnesjum hefur verið á listanum á hverju ári síðan hann kom fyrst út árið 2010 en það er Verkfræðistofa Suðurnesja sem er á honum í fimmtánda sinn. Suðurnesin eru í 3. sæti yfir landshluta utan höfuðborgarsvæðisins hvað varðar fjölda fyrirtækja sem eru framúrskarandi.

SSS
SSS

Nánar um Framúrskarandi fyrirtæki:

Þetta er í fimmtánda sinn sem Credit-info veitir framúrskarandi fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi vottun fyrir góðan og traustan rekstur en listinn í ár var gerður opinber á viðburði í Hörpu í síðustu viku. Alls hafa rúmlega tvö þúsund fyrirtæki einhvern tímann komist á listann. Þegar Creditinfo metur hvort fyrirtæki teljist framúrskarandi er m.a. horft til þess hvort ársreikningi hafi verið skilað á réttum tíma, og þegar litið sé til síðustu þriggja ára sé rekstrarhagnaður, ársniðurstaðan jákvæð, rekstrartekjur að lágmarki 50 millj. kr. og eiginfjárhlutfall a.m.k. 20%. Um 39 þúsund fyrirtæki skila ársreikningi en þegar litið er til allra annarra skilyrða sem fyrirtæki þurfa að uppfylla, þá teljast aðeins um 2% fyrirtækja framúrskarandi.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá afhendingunni í síðustu viku.

Sigurður Guðmundsson og Haukur Hauksson frá Bílrúðuþjónustunni.

Alda A. Gylfadóttir frá Einhamar Seafood í Grindavík.

Geirný og Hjalti reka myndarlegt fyrirtæki í Reykjanesbæ.

Feðgarnir Brynjar og Óskar í Íslandshúsum með eiginkonum sínum.