Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Blómaskreytingar og gjafavara í Blómaskúr Villu
Villa hlakkar til að mæta í vinnuna alla morgna.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 11. desember 2024 kl. 07:05

Blómaskreytingar og gjafavara í Blómaskúr Villu

„Draumastarfið mitt,“ segir Vilborg Einarsdóttir

„Ég hef haft gaman af föndri síðan ég man eftir mér og því er ég að vinna draumastarfið,“ segir Vilborg Einarsdóttir, eigandi Blómaskúrs Villu en hún ákvað að láta á draum sinn reyna um það leyti sem covid var skollið á, og opnaði verslun á Hafnargötunni eftir að hafa verið í bílskúrnum sínum að gera blómaskreytingar fyrir vini og vandamenn. Reksturinn hefur vaxið og þurfti hún að stækka við húsnæðið og unir hag sínum vel á Hafnargötu 54.

Villa var búin að vera vinna hjá Blómavali við blómaskreytingar en vildi verða sinn eigin herra, já eða frú og sér ekki eftir að hafa farið út í sjálfstæðan rekstur.

„Ég var búin að vinna við sitt lítið af hverju og var svo farin að vinna í Blómavali og þá kviknaði áhuginn á blómaskreytingum og ég vissi að þetta langaði mig til að gera og þá fór að blunda í mér að fara sjálfstætt. Ég var aðeins byrjuð heima í skúrnum að gera blómaskreytingar, þess vegna heitir búðin mín Blómaskúr Villu, mér fannst ekki ástæða til að breyta um nafn þótt ég hafi fært mig hingað á Hafnargötuna. Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf haft gaman að alls kyns föndri og ég hlakka alla daga til að mæta í vinnuna, þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, áhuginn verður að vera til staðar, annars hefur maður ekkert að gera í þessum bransa að mínu mati.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Maðurinn minn spurði mig hvort ég væri viss þegar ég vildi opna hér á Hafnargötunni í miðju covid og ég var fullviss, sagði honum að það versta sem myndi gerast væri að við myndum loka. Þegar ég byrjaði var ég bara öðru megin í húsnæðinu, leigði svo hinn hlutann og braut á milli og þar með stækkaði búðin til muna, það veitti heldur betur ekki af. Ég gat ekki annað en hlegið um daginn þegar ég var að skoða myndir af búðinni eins og hún var, þá var ég kannski með fimmtán vörur í hillunum, í dag eru þær talsvert fleiri. Það hefur gengið mjög vel allan tímann, þess vegna stækkaði ég við mig.“

Það veitti ekki af að stækka húsnæðið.
Lifir ekki á blómunum einum

Villa segir að nánast sé ógerningur að lifa bara af blómasölu og -skreytingum og þess vegna er Blómaskúr Villu líka gjafavöruverslun.

„Það er alltaf talsvert að gera í alls kyns blómaskreytingum og að selja blóm en ég held að erfitt yrði að lifa bara af því. Það er alltaf vinsælt að gefa konunni eða kærustunni rós eða flottan blómvönd en svo eru alltaf blómaskreytingar við hin og þessi tilefni, brúðkaup og jarðarfarir t.d. Ætli blómasalan og -skreytingarnar og gjafavörurnar séu ekki bara svipað stórar sneiðar í kökunni, blómin og -skreytingarnar hafa alltaf verið svipað stór en svo bætist gjafavaran við sem er auðvitað bara jákvætt fyrir mig.

Gjafavöruna tek ég alla frá Hollandi, það er eitthvað við landið sem hefur alltaf heillað mig og þeir eru með fallega gjafavöru. Þeir eru með öðruvísi vöru sem mig langaði að taka inn og gat komið mér í samband við góðar heildsölur. Ég er aldrei lengi með sömu vöruna, um leið og eitthvað klárast þá kaupi ég ekki meira af henni heldur finn nýjar vöru, þannig hefur þetta alltaf verið hjá mér. Tíminn fyrir jólin er alltaf stærstur hjá mér og þá er ég auðvitað með jólavörur og svo eru árstíðabundnir fastir punktar eins og vorin, þá er ég með meira úrval af blómum en hina hluta ársins er ég bara með fjölbreyttar gjafavörur sem eiga við öll tilefni. Það eru tískubylgjur í þessu eins og öðru, jólavörurnar eru oft svipaðar ár frá ári en þó alltaf eitthvað nýtt sem gerir starf mitt ennþá skemmtilegra. Gjafa-vara er alltaf góð í jólapakkann og að sjálfsögðu býð ég upp á innpökkun, það er ekki auðvelt fyrir alla að pakka inn gjöfum en ég vil trúa að ég sé orðin ansi góð í þeirri listgrein. Fólk getur komið með aðra gjafavöru en þá sem ég sel og fengið hana innpakkaða en ég dreg línu við önnur blóm, ef viðkomandi blómasali getur ekki boðið upp á að pakka blóminu vel inn, ætla ég ekki að hlaupa undir bagga. Ég tek öllum fagnandi og hlakka til að hitta Suðurnesjafólk og aðra í aðdraganda jólanna,“ sagði Villa að lokum.

Það er alltaf hægt að finna flotta gjafavöru í Blómaskúr Villu.