BM Vallá byggir nýja steypustöð á Ásbrú
„Spennt að koma inn á þennan markað og höfum mikla trú á framtíðaruppbyggingu í Reykjanesbæ og nágrenni,“ segir Þorsteinn Víglundsson.
BM Vallá hyggst taka í gagnið nýja og glæsilega steypustöð í Reykjanesbæ í maí á þessu ári. „Við erum spennt að koma sterk inn á þennan markað og höfum mikla trú á framtíðaruppbyggingu í Reykjanesbæ og nágrenni,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
![](/media/1/thorsteinnv.jpg)
Þorsteinn segir að svæðið hafi vaxið hratt í vaxandi íbúðabyggð og mikil uppbygging fyrirhuguð í tengslum við flugvöllinn. Auk þess hafi færst aukinn kraftur í uppbyggingu Nato á flugvallarsvæðinu á undanförnum árum.
„Við gerum ráð fyrir að þjóna öllu Reykjanesinu og Hafnarfirði frá stöðinni á Ásbrú. Því höfum við valið afkastamikla og öfluga stöð sem mun auka umtalsvert þjónustustigið við byggingariðnað á Reykjanesinu.
![](/media/1/1yfirlitsmyndlodreykjanesbae.jpg)
BM Vallá, sem er eini gæðavottaði steinsteypuframleiðandinn hér á landi, hefur lagt mikla áherslu á að draga úr kolefnisspori framleiðslu sinnar og er með lægsta kolefnisspor íslenskra steinsteypuframleiðenda í dag.
„Sjálfbærni og umhverfisáherslur eru lykilþættir í starfsemi BM Vallár og með nýju stöðinni verður sérstök áhersla lögð á að lágmarka umhverfisáhrif frá framleiðslunni. Það verður gert með háþróaðri endurvinnslustöð sem endurvinnur afgangssteypu og allt skolvatn sem fellur til frá steypustöðinni, steypubílum og dælum. Þessi búnaður og tækni gerir að verkum að mögulegt verður að endurnýta hráefnin að fullu í framleiðsluferlinu ásamt því að tryggja að engin óæskileg úrgangsefni fari í fráveitukerfi Reykjanesbæjar. BM Vallá býður upp á Berglindi, vistvænni steypu, sem er með minnsta kolefnisspor steypugerða á markaði. Fyrirtækið vinnur stöðugt að því að hámarka nýtingu hráefna með sjálfbærari framleiðslu og betri nýtingu auðlinda.“
Þorsteinn segir mikinn spenning vera vegna opnunarinnar í Reykjanesbæ.
„Við erum full tilhlökkunar að hefja starfsemina í Reykjanesbæ nú í vor. Það hefur einnig verið mjög ánægjulegt að eiga samstarf við Reykjanesbæ í tengslum við uppsetningu þessarar starfsemi. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu mættu gjarnan taka sér vinnubrögð í Reykjanesbæ sér til fyrirmyndar. Úthlutun lóðar, vinnsla deiliskipulags og öll stjórnsýsla bæjarins hefur verið einstaklega skilvirk og vönduð í alla staði,“ segir Þorsteinn.