Viðskipti

Bónstöð með hágæða bílageymslu í Sandgerði
Frændurnir Vilmundur Vilhjálmsson og Gunnar Borgþór Sigfússon í bónstöð Airpark í Sandgerði.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 28. september 2024 kl. 06:15

Bónstöð með hágæða bílageymslu í Sandgerði

„Við fórum upphaflega í þetta með þá hugmynd að vera bílageymsla sem býður upp á þrif. Þegar við vorum að bíða eftir því að geymslusalurinn fyrir bílana yrði tilbúinn fórum við í að þrífa bíla fyrir fólk í Sandgerði til að hafa eitthvað að gera. Það vatt þannig upp á sig að það varð alveg hellingur að gera í því. Fljótlega snérum við verkefninu við og erum í dag bónstöð sem býður upp á hágæða geymslu á bílum þeirra sem kaupa af okkur þrif,“ segir Gunnar Borgþór Sigfússon, ungur Sandgerðingur, sem rekur fyrirtækið Airpark í Suðurnesjabæ.

Fyrir rúmu ári síðan var hafist handa við að umbreyta húsnæði fyrirtækisins við Strandgötu í Sandgerði. Þar hafði um árabil verið rekin sandblástursstarfsemi. Gunnar segir að það hafi verið tækifæri á markaðnum og það hafi vantað traust í þá þjónustu að taka bíla til geymslu fyrir fólk.

Húsnæði fyrirtækisins við Strandgötu í Sandgerði.

Fjölskyldufyrirtæki

Gunnar Sigfús rekur fyrirtækið og þeir eru tveir frændur sem starfa þar öllu jöfnu við þrif á bílum og að sækja og sendast með bíla. Þá eru foreldrar Gunnars einnig innan handar þegar álagið er mikið. „Við erum eiginlega bara stórt fjölskyldufyrirtæki.“

Þeir frændur leggja mikið upp úr vönduðum vinnubrögðum og taka að hámarki sex bíla á dag í alþirf og bón. Þá er einnig boðið upp á svokallaða keramikhúðun (Coat) og hún tekur t.a.m. allan daginn og er mikil vinna.

Í bílageymslunni geta verið fimmtán bílar hverju sinni og rúmgott fyrir bílana. „Við erum að bjóða upp á örugga vaktaða geymslu,“ segir Gunnar Borgþór. Viðskiptavinirnir eru helst fólk sem er að fara í langar helgarferðir til Evrópu eða í sólina á Tenerife. „Fólk vill láta passa vel upp á bílinn sinn og fá hann tandurhreinann að flugstöðinni að loknu ferðalagi.“ Þeir frændur taka við bílum hjá fólki við flugstöðina þegar fólk fer til útlanda og taka á móti fólki og afhenda því bílinn við komuna aftur til landsins.

Glæsileg aðstaða Airpark við Strandgötu í Sandgerði.

Lítið traust til bílageymslu

Gunnar Borgþór segir að nú sé lítið traust til fyrirtækja sem býður upp á bílageymslu. Airpark hafi verið að byrja starfsemi þegar fjölmiðlaumfjöllun var mikil um aðila á markaði sem voru ekki að standast væntingar.

„Ég trúi því að það byggist upp traust með tímanum þegar fólk sér að allt sem við erum að bjóða stenst,“ segir Gunnar Borgþór.

Þrif á bílum hafa tekið miklum breytingum á síðustu árum. Þau eru ekki lengur sjoppubón og kústur. Mikil þróun hefur orðið í efnum til bílaþrifa og áherslan mikil á að varðveita lakkið á bílnum. „Mín tilfinning er að fólk hugsi betur um bílana sína í dag og er meðvitaðra um hvað er að fara að rispa bílinn. Með keramikhúðun er líka hægt að hafa bílinn glansandi flottan miklu lengur.“

Fyrirtækið er með heimasíðuna airpark.is og Gunnar Borgþór hvetur fólk til að bóka í gegnum þá síðu, hvort sem það vill bílaþrif eða geymslu á ökutæki á meðan ferðast er til útlanda. Þeir sem eru af gamla skólanum geta einnig hringt og bókað.

Aðspurður um vinnudaginn segir Gunnar Borgþór að hann geti verið langur. Þeir frændur séu oft mættir í flugstöðina eldsnemma að morgni til að taka á móti bílum og séu að skila af sér bílum fram undir miðnætti suma daga. Þá er verið að veita þjónustu alla daga vikunnar. „Þetta er átak á meðan við erum að byggja upp fyrirtækið og þá er þetta kannski ekki fjölskylduvænt. Ég er með fjögurra mánaða barn heima en ég var í vinnunni bæði laugardag og sunnudag og reyndar alla daga síðustu viku,“ segir hann og hlær.

Vildu leigja grasflötina undir bíla

Gunnar Borgþór er lærður flugvirki og var alltaf að þrífa bíla til að eiga pening með skólanum á námsárunum. Þannig hefur hann talsverða reynslu af bílaþrifum. Þá var hann að vinna hjá föður sínum í húsnæði fyrirtækisins við Strandgötu þegar starfsemi sandblástursfyrirtækisins var að mestu komin austur á Reyðarfjörð.

„Ég sat hérna einn daginn og spurði sjálfan mig hvað ég gæti gert hérna til að geta orðið minn eigin herra. Þá var bankað á hurðina og aðili spurðist fyrir um hvort hann gæti fengið leigða grasflötina við húsið til að geyma þar bíla. Ég neitaði því en hugsaði í framhaldinu að það væri örugglega mikið að gera í þessu fyrst þeir væru farnir að banka hjá fólki til að fá leigða lóðina fyrir bílageymslu. Ég hugsaði þetta aðeins lengra og velti fyrir mér að ef ég vildi láta geyma bílinn minn, vildi ég þá að hann væri bara einhverstaðar eftirlitslaus á einhverri lóð. Ég fór því á rúntinn og sá að það var bilað að gera í þessu og sá að það væri örugglega pláss á markaðnum. Svo byrjaði þessi neikvæða umræða. Ég hugsaði að það væri örugglega hægt að gera þetta heiðarlega og bjó því til alvöru kynningu og seldi pabba þetta að setja húsið í þessa starfsemi. Það var enginn að bjóða upp á alvöru innigeymslu.“

Vilmundur Vilhjálmsson vinnur við þrif á bifreið.

Boltinn fór að rúlla hratt

Gunnar Borgþór segir að húsnæðið hafi verið tilbúið á undan heimasíðunni og hann hafi verið búinn að sópa sama gólfið mjög oft og vantað eitthvað að gera á meðan heimasíða fyrirtækisins væri kláruð. Hann hafi því farið í skólann og á helstu samkomustaði í Sandgerði og látið vita af því að hann tæki bíla í þrif. Boltinn fór þá að rúlla hratt og það varð hellingur að gera í bílaþrifum. Þetta hafi líka verið gaman, því hann kunni þetta. „Svo hef ég verið að bæta við mig þekkingu í mössun og keramikhúðun og við höfum farið á námskeið í því. Svo erum við á Youtube öll kvöld að læra nýjustu tækni.“ Hann segir líka að það hafi verið leiðinlegt að sækja skítugan bíl í flugstöðina og skila honum aftur skítugum. Það sé miklu skemmtilegri upplifun að skila tandurhreinum bíl og finna gleðina frá fólki við að taka á móti glansandi bíll. „Við ákváðum því að breyta verkefninu þannig að við erum bara að geyma fyrir þá sem bóka þrif, þannig að Airpark er í dag bónstöð fyrir fólk sem vill láta þrífa bílinn og geyma.“

Þá er í boði að láta sækja bíla í þrif í Suðurnesjabæ og Reykjanesbæ. Hægt er að skrá bíla í áskrift og þeir eru þá sóttir á ákveðnum tíma og skilað aftur glansandi fínum. Margir nýta sér þetta og láta sækja bílinn að morgni í vinnuna til sín og taka við honum áður en farið er heim í lok dags.

Bjartur og rúmgóður salur fyrirtækisins þar sem hægt er að koma fyrir fimmtán bílum með góðu móti. Húsnæðið er vaktað allan sólarhringinn með öflugu eftirlitskerfi. Þá er  bílasalurinn tengdur bónstöðinni, þannig að gott auga er haft með öllum mannaferðum.

Nánar má kynna sér þjónustu Airpark á heimasíðu fyrirtækisins, airpark.is.