Eldey opnar á nýjum stað á Ásbrú
Eldey frumkvöðlasetur opnar á ný í glæsilegu skrifstofuhóteli sem opnað hefur verið að Keilisbraut 773 á Ásbrú. Þar gefst frumkvöðlum á Suðurnesjum kostur á að vinna að viðskiptahugmyndum sínum og þróa þær áfram í raunveruleg viðskiptatækifæri.
![](/media/1/eldey03.jpg)
Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS, skrifaði undir samning um leigu fyrir setrið við Mygroup ehf. á dögunum og má á myndinni sjá fulltrúa þeirra, þá Hreiðar Hreiðasson og Kristján Pétur Kristjánsson.
„Það er afar ánægjulegt að geta aftur boðið upp á aðstöðu fyrir frumkvöðla sem eru að vinna að nýsköpunarverkefnum á Suðurnesjum. Kovin setrið mun hýsa Eldey að minnsta kosti til tveggja ára. Við bindum vonir við að verkefni þetta, sem er hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja, verði til þess að styðja frekar við stoðkerfi nýsköpunar á Suðurnesjum og hvetja til frekari samstarfs hagsmunaaðila á svæðinu,“ segir Berglind.
Í húsnæðinu er boðið upp á skrifborð í opnu vinnurými með aðgangi að kaffistofu, fundarsölum, setustofu og þráðlausu neti en aðgangur er allan sólarhringinn. Verkefnastjóri atvinnuþróunar og nýsköpunar verður með fasta viðveru í setrinu einu sinni í viku og geta frumkvöðlar nýtt sér ráðgjöf hans.