Góðar viðtökur við Marion á nýjum stað
Herrafataverslunin Marion er flutt í glerhúsið í við Njarðarbraut í Innri-Njarðvík
„Búðin stækkar nánast um helming, það hefur verið mikill erill síðan við fluttum fyrir mánuði og ég á von á mikilli traffík fram að jólum,“ segir María Ósk Guðmundsdóttir, annar eigenda herrafataverslunarinnar Marion en nýverið flutti búðin í stærra húsnæði á Njarðarbraut í Innri-Njarðvík.
María er alsæl með vistaskiptin en mjög mikið hefur verið að gera á nýja staðnum, þar var áður bílasala en búið er að taka húsnæðið í gegn og hentar það fullkomlega fyrir fataverslun og aðra sambærilega þjónustu.
„Við erum búin að vera hér í u.þ.b. mánuð og það hefur verið mun meiri traffík en á gamla staðnum og byrjunin lofar mjög góðu. Það er búið að vera mjög mikið að gera og ekki mun það minnka núna fyrir jólavertíðina. Við erum mjög sátt hér á nýja staðnum, erum að stækka um tæplega helming og allt er mjög bjart og opið. Það skemmir heldur ekki fyrir að Linda í Palómu sé komin hingað líka og fljótlega opnar partý- og gjafavörubúð. Það mun allt iða hér af lífi og það er bara frábært. Gömlu kúnnunum okkar fannst gott að hafa okkur þar sem við vorum en þeir hafa fylgt okkur hingað og mun fleiri hafa uppgötvað okkur eftir að við fluttum okkur. Það er mun meiri traffík hér og okkur á eftir að líða vel.“
Sinnir herranum
Marion opnaði í Hólmgarði árið 2022 og hefur vaxið fiskur um hrygg allar götur síðan en búðin sinnir eingöngu herrunum. Hægt er að fá allan fatnað en hvað er vinsælast fyrir jólin?
„Við erum með allan fatnað fyrir allan aldur má segja, allt frá fermingarstrákum upp í heldri menn, hægt að versla allt frá nærfatnaði og sokkum, upp í jólajakkafötin. Það sem er vinsælt núna er stakir jakkar, t.d. ullarfrakkar en ég hef selt mikið af þeim og svo er alltaf vinsælt að setja föt í jólapakkann. Við bjóðum upp á náttföt, kósýföt og bara allt milli himins og jarðar þegar kemur að herrafatnaði. Við tökum mest af fötunum frá Danmörku, Daninn er mjög framarlega í hönnun og við erum líka farin að bjóða upp á þýsk merki. Ég er auðvitað alltaf með augun opin fyrir nýjum merkjum og vil búa mér til okkar stíl og það hefur gefist vel. Við bjóðum líka upp á að stytta buxur og jakka, erum með frábæra saumakonu í Garðinum, við reddum öllu fyrir kúnnann, við leggjum mikið upp úr að veita góða þjónustu.
Við erum mjög ánægð með að taka þátt í Jólalukku Víkurfrétta, við vorum með fyrstu jólin sem fyrirtækið var starfrækt árið 2022 og vildum endilega vera með núna. Allir svona leikir stuðla að meiri umferð og það viljum við sjá. Þeim mun fleiri sem koma í búðina, því betra. Við hlökkum til að taka á móti Suðurnesjafólki og dressa herrana upp fyrir jólin. Við lítum framtíðina mjög björtum augum á þessum nýja stað hér á Njarðarbrautinni,“ sagði María Ósk að lokum