Hornsteinn í héraði í hálfa öld
Stiklað á stóru í sögu HS Orku
Í árslok verða 50 ár liðin frá stofnun Hitaveitu Suðurnesja, forvera HS Orku. Af því tilefni býður HS Orka íbúum Reykjanesbæjar og öllum gestum Ljósanætur til afmælissögusýningar í Gryfjunni í Duus safnahúsum. Sýningin er framlag HS Orku til hátíðarinnar í ár. Á sýningunni, sem hönnuð er í samstarfi við íslenska sýningarhönnunarfyrirtækið Gagarín, er dregin upp mynd af einstakri frumkvöðlahugsun og framsýni, sem fylgt hafa fyrirtækinu í hálfa öld.
Vakandi fyrir tækifærum
Jarðhitanýting Íslendinga á sér langa sögu og hafa Íslendingar ætíð verið vakandi fyrir mögulegum tækifærum tengdum henni. Á sjötta og sjöunda áraugnum tók framsýnt fólk eftir því að snjór bráðnaði ætíð á tilteknum stöðum við Svartsengi á Reykjanesskaga. Á bæjarstjórnarfundi í Keflavík 26. maí 1959 var kosin nefnd til að rannsaka möguleika á Hitaveitu í Keflavík. Síðar það ár var einnig kjörin hitaveitunefnd í Njarðvík. Árið 1969 ákvað sveitarstjórn Grindavíkur að láta rannsaka Svartsengissvæðið með tilliti til jarðhita sem átti að beisla til húshitunar í Grindavík.
Jarðeðlisfræðimælingar og tvær grunnar háhitavinnsluholur við Grindavíkurveg leiddu í ljós vinnanlegan og gjöfulan jarðvarmaforða á svæðinu. Um var að ræða háhitasvæði þar sem hiti var yfir 200°C undir 1.000 m dýpi, en vatnið sem kom upp úr holunum var salt eða um 2/3 af seltu sjávar. Vegna seltunnar, hitastigsins og uppleystra steinefna var ljóst að ekki yrði unnt að nýta vatnið beint eins og gert var í Reykjavík og víðast annars staðar, heldur varð að þróa varmaskiptaaðferðir til að nýta jarðhitann.
Hitaveita Suðurnesja verður til
Sveitarfélögin á Suðurnesjum tóku höndum saman í félagi við íslenska ríkið og 31. desember árið 1974 var Hitaveita Suðurnesja stofnuð með lögum frá Alþingi. Ríkið lagði til rannsóknarborholur á svæðinu og ýmsar jarðhitarannsóknir en Suðurnesjamenn lögðu fram fjármagn og öflugan mannskap. Vísindamenn Orkustofnunar settu fram hugmyndir að vinnslutækni og var tilraunastöð sett upp til að sannreyna hugmyndirnar og leggja grunn að hönnunarforsendum fyrir jarðvarmavirkjun. Engar fyrirmyndir var að sækja út í heim.
Árið 1975 var fyrst borað eftir fersku grunnvatni og varmaskiptastöð var reist í Svartsengi. Sama ár var Ingólfur Aðalsteinsson, veðurfræðingur, ráðinn sem fyrsti starfsmaður fyrirtækisins og tók hann fljótt við sem forstjóri þess. Ingólfur gegndi starfinu til ársins 1992 þegar Júlíus Jónsson, fjármálastjóri, tók við keflinu. Hann var forstjóri Hitaveitu Suðurnesja og síðar bæði HS Orku og HS Veitna til ársins 2014. Ásgeir Margeirsson, verkfræðingur, var þá ráðinn forstjóri HS Orku og gegndi starfinu til 2019, en Júlíus stýrði áfram HS Veitum til ársins 2022. Finnur Beck, lögfræðingur, sat í stól forstjóra HS Orku um skamma hríð árið 2019 þar til Tómas Már Sigurðsson, umhverfisverkfræðingur, tók við forstjórastólnum sama ár.
Vel heppnuð frumgerð
Árið 1976 var bráðabirgðastöð sett upp en stöðin hitaði ferskt, hreint grunnvatn með jarðhitavatni og gufu úr háhitaborholum. Hún reyndist vel heppnuð frumgerð sem skilaði upphituðu vatni í þokkalegum gæðum. Félagsheimilið Festi í Grindavík fékk fyrsta hitaveituvatnið. Sama ár var ráðist í fyrsta áfanga jarðvarmaversins í Svartsengi. Áfanginn samanstóð af tveimur gufuhverflum, sem framleiddu raforku, og fjórum varmaskipta- og afloftunarrásum fyrir heitavatnsframleiðslu. Tenging þessara tveggja ólíku vinnsluferla við raforku- og heitavatnsframleiðslu reyndist vonum framar og bætti til muna orkunýtinguna í jarðvarmaauðlindinni.
Raforkuframleiðsla hefst í Svartsengi
Árin um og fyrir 1980 olli vatnsskortur á hálendinu slíkum vandræðum í raforkuframleiðslu Landsvirkjunar að keyra þurfti flestar varaaflsdísilvélar í landinu til að svara orkuþörf íbúa og fyrirtækja. Staðan varð til þess að Hitaveita Suðurnesja hóf framleiðslu á raforku beint inn á landsnetið og þar með var Svartsengi orðið að „óformlegu“ orkubúi.
Tæplega áratug síðar voru settar upp í Svartsengi sjö 1,2 MW Ormatvélar til raforkuframleiðslu. Vélarnar nota afgangsgufu frá öðrum vélum versins og bæta þannig nýtingu auðlindarinnar til muna. Fyrirkomulagið á þeim tíma var hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum.
Hitaveitan færir út kvíarnar
Upphafsár Hitaveitu Suðurnesja einkenndust öðru fremur af því að fyrirtækið var fáliðað. Ásamt verktökum sá starfsfólk um viðhald hitaveitu og jarðvarmavera en margvíslegar áskoranir og misalvarlegir hönnunargallar vegna reynsluleysis komu upp.
Árið 1982 festi Hitaveita Suðurnesja kaup á öllum eignum RARIK á Reykjanesskaganum. Fyrirtækið tók yfir rekstur á dreifi- og háspennukerfi svæðisins auk riðbreytistöðvar sem sá varnarliðinu og flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli fyrir raforku. Straumhvörf urðu í afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Jarðstrengir tóku við af lélegum loftlínum, nýir háspennustrengir voru lagðir neðanjarðar og nýjar aðveitustöðvar reistar.
Auðlindagarðurinn verður til
Eftir því sem umsvif fyrirtækisins jukust tók Auðlindagarður Hitaveitu Suðurnesja að taka á sig mynd og árið 1992 var Bláa lónið stofnað, en það er eitt elsta dæmið um fyrirtæki í Auðlindagarðinum sem nýta ólíka auðlindastrauma frá jarðvarmavinnslunni í Svartsengi. Auðlindagarðurinn er byggður á hugmyndafræði Alberts Albertssonar, verkfræðings, hugsuðar og fyrrverandi aðstoðarforstjóra HS Orku, sem ungur lærði að bera virðingu fyrir náttúrunni og nýta alla hluti til hins ýtrasta.
Reykjanesvirkjun reist
Hitaveita Suðurnesja varð hlutafélag fyrst íslenskra orkufyrirtækja árið 2000. Árið 2003 tók fyrirtækið yfir Vatnsveitu Suðurnesja og þar með var það orðið allt í senn; Hitaveita, vatnsveita, rafveita, raforkuframleiðandi og raforkusali. Fyrirtækið hélt ótrautt áfram þróun jarðvarmavinnslunnar og varð leiðandi á sínu sviði í heiminum.
Framkvæmdir hófust við byggingu Reykjanesvirkjunar og vorið 2006 var virkjunin gangsett með tveimur 50 MW gufuhverflum. Þar með voru raforkuverin á Suðurnesjum orðin tvö. Ólíkt jarðvarmaverinu í Svartsengi er Reykjanesvirkjun eingöngu raforkuver, sem samanstendur af tvístreymishverflum með sjókældum eimsvölum, en slíkt kerfi var nýjung á Íslandi á þeim tíma þegar virkjunin var reist.
HS Orka verður til
Árið 2008 var Hitaveita Suðurnesja lögð niður í þeirri mynd sem hún hafði starfað, nafni fyrirtækisins var breytt í HS Orku og nýtt félag, HS Veitur, stofnað. Uppskiptin voru gerð í kjölfar breytinga á raforkulögum árið 2003 sem kváðu á um uppskiptingu framleiðslu og dreifingar raforku. Skyldi HS Orka sjá um framleiðslu og sölu á raforku en HS Veitur um dreifingu á raforku og sölu og dreifingu á heitu vatni og köldu vatni. Fyrirtækin deildu þó áfram skrifstofuhúsnæði að Brekkustíg í Reykjanesbæ til ársins 2016 þegar HS Orka flutti höfuðstöðvar sínar í Eldborg í Svartsengi.
Ný verkefni í vatnsafli
Auk jarðvarmavinnslunnar tók HS Orka að leita tækifæra í vatnsafli. Árið 2014 gerðist fyrirtækið hluthafi í VesturVerki á Ísafirði, sem vinnur að undirbúningi 55 MW virkjunar í Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum ásamt fleiri virkjunarkostum í vatnsafli á Vestfjörðum. Framkvæmdir hófust við fyrstu vatnsaflsvirkjun fyrirtækisins að Brú í Biskupstungum og var Brúarvirkjun formlega tekin í notkun árið 2021. Árið 2023 keypti fyrirtækið einnig Fjarðarárvirkjanir á Seyðisfirði. Brúarvirkjun og Fjarðarárvirkjanir framleiða samtals tæplega 20 MW.
Reykjanesvirkjun stækkuð
Ráðist var í 30 MW stækkun Reykjanesvirkjunar og í lok árs 2022 var stækkunin tekin í gagnið. Verkefnið er einstakt á heimsvísu þar sem nýsköpun starfsfólks og innlendra sérfræðinga er beitt til að áframnýta auðlindina. Segja má að umhverfisáhrif af stækkuninni séu lítil sem engin en hugmyndafræðin er sú að fullnýta orku og vökva sem tekin eru úr jörðu. Í stað nýrra borholna var þróuð leið til að áframnýta auðlindina með því að fanga affallsvarmann frá virkjuninni.
Áskoranir í sambýli við náttúruna
Í marsmánuði árið 2021 brutust jarðeldar upp á yfirborð Reykjanesskagans við Fagradalsfjall. HS Orka teiknaði upp ýmsar sviðsmyndir og gerði fjölþættar viðbragðsáætlanir til að virkja ef umbrot færðust nær jarðvarmaverunum. Sú varð raunin þann 10. nóvember 2023 þegar atburðarrás hófst við Sundhnúksgígaröðina, skammt frá Grindavík og Svartsengi, sem ekki sér fyrir endann á.
Alls hefur gosið níu sinnum á Reykjanesskaga frá því í mars 2021 og hafa atburðirnir haft margvísleg áhrif á samfélagið á Suðurnesjum og innviði þess, mismikil í hvert sinn. Í janúar 2024 rann hraun yfir Grindavíkurveg, sleit raflínur og brenndi jarðstrengi í grennd. Mánuði síðar rauf hraun hitaveitustofnlögnina frá Svartsengi til Fitja (Njarðvíkuræðin) og olli það heitavatnsleysi á öllum Suðurnesjum. Í báðum tilfellum tókst með einstökum samtakamætti fjölmargra aðila að tengja lagnir og strengi á undravert skömmum tíma við erfiðar aðstæður og í miklum kulda.
Áskoranirnar hafa einnig leitt af sér nýsköpun. Með margvíslegum þrýstingsmælingum í borholum fyrirtækisins hafa vísindamenn HS Orku þróað einstakt viðvörunarkerfi til að spá fyrir um eldgos. Áratugalöng frumkvöðlahugsun innan HS Orku hefur þannig nýst vel við lausn ýmissa erfiðra verkefna sem skapast hafa vegna eldsumbrotanna.
Stækkun og endurbætur í Svartsengi
Framkvæmdir við stækkun og endurbætur á jarðvarmavirkjuninni í Svartsengi standa nú yfir, þrátt fyrir jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesskaganum síðustu misseri, og miðar verkinu vel.
Í framkvæmdinni felst að eldri framleiðslueiningar verða teknar úr notkun og ný framleiðslueining sett upp í staðinn. Hún mun bæta nýtingu auðlindarinnar og auka framleiðslugetu versins upp í 85 MW en uppsett afl í Svartsengi er um 66 MW. Einnig mun framleiðslugetan á heitu vatni aukast og þannig verður betur komið til móts við vaxandi íbúafjölda á svæðinu.
Verkefnið er svipað að stærð og stækkun Reykjanesvirkjunar, sem tekin var í notkun í árslok 2022, og er heildarkostnaður áætlaður um tólf milljarðar króna. Stefnt er að því að framkvæmdum verði lokið fyrir árslok 2025.
Breytingar á eignarhaldi
HS Orka byggir í dag á traustum grunni Hitaveitu Suðurnesja. Félagið hefur frá upphafi verið leiðandi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku hér á landi og er þriðji stærsti raforkuframleiðandi á Íslandi. Árið 2007 seldi ríkið hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og í kjölfarið urðu umfangsmiklar breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins. Sveitarfélögin seldu um síðir alla hluti sína í fyrirtækinu. Frá árinu 2019 hafa eigendur verið til helminga Jarðvarmi, félag í eigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða, og breski innviðasjóðurinn Ancala Partners, sem sérhæfir sig í innviðafjárfestingum víða um heim.
Ítarlegar má lesa um sögu Hitaveitu Suðurnesja, forvera HS Orku, í söguágripi sem haldið hefur verið til haga af HS Veitum.