Palóma opnar í Njarðvík
„Ánægð að vera búin að opna á nýjum stað,“ segir Linda Gunnarsdóttir
„Þessi staðsetning hentar fullkomlega en hvort ég opni aftur í Grindavík verður bara að koma í ljós,“ segir verslunarkonan Linda Gunnarsdóttir, kennd við Palóma. Linda hefur rekið Palóma í rúm fimmtán ár og fram að rýmingu í fyrra var hún með búðina í verslunarmiðstöðinni svokölluðu í Grindavík. Hún var ekki lengi að opna eftir að hafa þurft að rýma Grindavík, Palóma settist að á Ásbrú en á dögunum flutti hún inn í stærra húsnæði á Njarðarbraut sem hentar óaðfinnanlega. Linda, sem er frá Njarðvík, saknar Grindavíkur en hvort hún muni aftur opna Palómu þar kemur bara í ljós en það er nokkuð ljóst að hún mun ekki hætta með búðina á Njarðarbrautinni.
Það var mikill erill á opnunardeginum en dagarnir á undan fóru í að tæma 40 feta gám sem var stútfullur af vörum.
„Það fór vel um mig upp á Ásbrú en ég gat ekki hafnað þessu tækifæri og mjög skemmtilegt að vera með Maríu í Marion hinum megin í húsnæðinu. Byrjunin lofar svo sannarlega góðu, það er búið að vera mikið að gera að undanförnu, við fylltum 40 feta gám þar sem við vorum í Ásbrú og það voru hæg heimantökin að fá flutning á gámnum, Gunnar sonur minn vinnur hjá pabba sínum hjá Jóni & Margeir.
Þetta húsnæði hentar frábærlega, þetta er mjög bjart og opið og hér er góður andi. Við höfum keyrt heimasíðuna okkar grimmt síðan í covid og ég gæti trúað að þriðjungur sölunnar fari fram í gegnum hana, vefsíðan er sífellt að verða stærri sneið í kökunni og það er bara jákvætt. Búðin er komin til að vera á þessum stað og hvort ég opni aftur í Grindavík verður bara að koma í ljós, þetta er auðvitað hentugri staðsetning hér og þegar ég flyt aftur heim er maður ekki lengi að skjótast hingað. Þetta kemur bara í ljós en ég er mjög ánægð með að vera búin að opna hér, hlakka mikið til að taka á móti viðskiptavinum hér í þessu bjarta og opna rými.“
Pallíettur
Það eru oft sömu hlutir sem eru vinsælir hjá dömunum fyrir jólin og Linda er alsæl með að taka þátt í Jólalukku Víkurfrétta.
„Ég er að taka þátt í Jólalukkunni í fyrsta sinn, betra er seint en aldrei á svo sannarlega við. Svona leikur mun bara auka á umferðina í búðina, um það snýst þetta og ég hlakka til að taka á móti viðskiptavinum.
Það er frábært að geta tekið á móti viðskiptavinum á þessum stað í aðdraganda jólanna, ég man varla hvernig síðustu jól voru, þau eru eiginlega bara í móðu. Það er eins núna fyrir þessi jól eins og venjulega, pallíettur eru mjög vinsælar í jóladressi skvísunnar. Glimmer og pallíettur verður þemað fyrir þessi jól og ég hlakka mikið til að dressa skvísur Suðurnesja upp fyrir jólin.
Ég er dugleg að fara út á sýningar og reyni að vera með fjölbreytt fataúrval. Ég á mína föstu viðskiptavini og legg mig mikið fram við að veita þeim persónulega og góða þjónustu. Mjög margar konur versla reglulega í gegnum heimasíðuna okkar og ég held að Palóma eigi bara eftir að vaxa og dafna enn betur á þessum nýja stað, ég hlakka mikið til að taka á móti viðskiptavinum. Ég verð á fullu fram að jólum en svo verður gott að skella sér með fjölskyldunni út til Tenerife yfir jólin,“ sagði Linda að lokum.