Aðsent

Matthildur Ingvarsdóttir frá Bjargi í Garði – minning
Frá útför Matthildar Ingvarssdóttur frá Útskálakirkju fimmtudaginn 6. maí. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Föstudagur 7. maí 2021 kl. 16:04

Matthildur Ingvarsdóttir frá Bjargi í Garði – minning

Matta á Bjargi

Ég hitti Möttu á Bjargi í fyrsta skipti á Flösinni þegar hún rak veitingastaðinn sem var í eigu sveitarfélagsins í Garði. Ég, nýlega ráðinn bæjarstjóri, kom til að kynna mér starfsemina. Mjúk en svo hressileg röddin sem gat líka verið hryssingsleg eins og norðanáttin sem tók á móti mér. Sagan segir að Lýðveldisvitinn skýli lágreistri byggðinni við ysta nes Skagans fyrir kaldri norðanáttinni sem kemur askvaðandi yfir Flóann. Þar skellur hún á land þar sem fyrirstaðan er engin og þá þarf konan sem skýlir mörgum fyrir norðannepjunni að vera það bjarg sem aldrei bifast. Hún tók ekki sérstaklega hátíðlega á móti nýjum bæjarstjóra. Sagði honum að hún hefði nóg annað að gera að sitja á rassgatinu í einhverju óþarfa spjalli þegar nóg væri að gera í vinnunni. Bæjarstjórinn gæti bara komið þegar róaðist um og viðskiptavinirnir farnir.

Það er svona fólk sem allir vilja hafa í vinnunni hjá sér. Starfsfólk sem tekur starfið fram yfir spjall við bæjarstjóra sem kemur á röngum tíma og nóg að gera. Matta var líka þeirrar gerðar að horfa beint í augun á bæjarstjóranum og þeim sem hún talaði við og sagði alltaf sína meiningu. Kona með bjargfasta meiningu og trú. Það er kostur við starfsmann sem vinnur sér inn traust með slíkum hætti.

Samstarf okkar Möttu varð gott og þróaðist í vináttu og virðingu í garð hvors annars. Tíminn var ekki nýttur í meiningarlaus samtöl en við áttum góðar stundir þegar við hittumst. Í veikindum hennar fylgdist ég vel með en Covid-fjandinn kom í veg fyrir heimsóknir til hennar. Við heyrðumst reglulega í síma og í þeim samtölum upplifði ég þessa sterku konu sem var óbifanlegt bjarg í veikindum sínum sem öðru. Þar upplifði ég þennan sterka grunn og arfleið sem hún reisti líf sitt á.

Matta sagði mér í hispursleysi frá veikindum sínum. Gerði ekki mikið úr stöðunni en ég vissi betur. Matta endaði alltaf stutta yfirferð af veikindum sínum með því að segja á sinn einlæga hátt: „Það eru nú margir Ási minn sem hafa það verr en ég.“ Þannig stóð hún sjálf af sér norðanáttina í sínu lífi, það voru nefnilega alltaf einhverjir sem höfðu það verr en hún.

Líknandi meðferðin gaf henni gleðistund daginn fyrir andlátið. Helga Tryggvadóttir, nágranni hennar frá Laufási, sat hjá henni. Það var kærleiksstund fyrir vinkonurnar frá Laufási og Bjargi að hittast eftir allt Covid-farganið. Þær sátu í sólhúsinu og vissu báðar að þetta gat verið síðasti sólardagurinn þeirra á æskuslóðum. Maggi bakaði vöfflur og kom með rjóma og sultu. Þær sátu saman og spjölluðu en Guð hlustaði. Þær eru báðar í hans liði og að handan biðu margir sem þær söknuðu.

Matta dó innan sólarhrings og tók með sér kveðjuna til Eyjólfs og hún mun kasta kveðjum á fleiri gamla vini í Garðinum við sjónarrönd. Bjargið sem skýldi svo mörgum fyrir napri norðanáttinni hafði gengið frá öllu á lokadegi. Talað við prestinn, valið sálmana í útförina og gert sjóklárt fyrir síðustu siglinguna gegn norðanáttinni þegar Matta sigldi út Flóann á ný mið.

Votta Magnúsi og fjölskyldunni hjartans samúð.

Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.



Matthildur Ingvarsdóttir – minning

Þegar einhver fellur frá

fyllist hjartað tómi

en margur síðan mikið á

í minninganna hljómi.

Á meðan hjörtun mild og góð

minning örmum vefur

þá fær að hljóma lífsins ljóð

og lag sem tilgang hefur.

Ef minning geymir ást og yl

hún yfir sorgum gnæfir

því alltaf verða tónar til

sem tíminn ekki svæfir.

(Kristján Hreinsson)

Látin er kær vinkona Matta á Bjargi. Matta hefur verið mér afar kær allt mitt líf í leik og ráðleggingum.

Við skautuðum á síkinu, renndum okkur á skíðasleðum, sippuðum um allan Garð svo fínu hvítu sportsokkarnir urðu allir í slettum. Við gerðum líka smá prakkarastrik stundum en gleymdum þeim mjög fljótt, fórum þann sama dag að sníkja servettur og vorum þá teknar og skammaðar.

En Matta var fljót að svara fyrir okkur.

Hún var ráðgjafi minn er ég eignaðist frumburðinn, hafði hún eignast sinn fjórum árum áður.

Gat ég endalaust hlustað á hennar góðu ráð og frásagnir.

Minning þín sem stjarna skær

skín í huga mér svo kær.

Ég sendi út í húmið hljótt

hundrað kossa-góða nótt.

(Íris Dungal)

Blessuð sé minning þín elsku vinkona.

Guðveig Sigurðardóttir
(Veiga í Brautarholti)