Aðsent

Öryggisvistun fyrir ósakhæfa í miðri íbúðabyggð
Föstudagur 3. september 2021 kl. 14:31

Öryggisvistun fyrir ósakhæfa í miðri íbúðabyggð

Félagsmálaráðuneytið hefur óskað eftir því að í Reykjanesbæ verði sett á laggirnar öryggisvistun fyrir ósakhæfa einstaklinga. Byggja þarf húsnæði og breyta skipulagsmálum vegna þess. Málið hefur verið inn á borði umhverfis- og skipulagssviðs. Þann 1. júlí samþykkti bæjarráð að vísa því til endurskoðunar á aðalskipulagi. Stefnt er að því af hálfu meirihluta bæjarstjórnar að aðstaða fyrir öryggisvistun verði í miðri íbúðabyggð. Ég tel það mikið óráð. Vegna eðli þessa reksturs á hann að mínum dómi að vera í útjaðri bæjarins. Málið hefur ekkert verið kynnt fyrir íbúum Dalshverfis þar sem fyrirhugað er að húsnæði fyrir öryggisvistun verði staðsett. Vinnubrögð meirihluta bæjarstjórnar; Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar eru afleit í þessu máli. Í þetta verkefni á ekki að ráðast nema fullt samþykki íbúa á svæðinu liggi fyrir.

Margrét þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins.