Palóma
Palóma

Aðsent

Rekstur knattspyrnudeildarinnar aldrei verið betri
Þorsteinn Magnússon formaður og framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar er hér á mynd með Guðjóni Á. Antóníussyni sem kom aftur til síns gamla félags sl. haust.
Miðvikudagur 28. janúar 2015 kl. 13:52

Rekstur knattspyrnudeildarinnar aldrei verið betri

Árið 2008 var nýr formaður sem tók við keflinu hjá Knattspyrnudeildinni í Keflavík. Hafði þá verið leitað að nýjum formanni um nokkurt skeið en verkefnið var gríðarlega krefjandi. Eftir að hafa setið sem formaður unglingaráðs og varaformaður knattspyrnudeildarinnar nokkrum árum áður, var undirritaður beðinn um að taka að sér þetta krefjandi verkefni. Hlutirnir litu því miður ekki vel út og skuldastaða félagsins gríðarleg, eða um 70 milljónir króna en af ást sinni við félagið þá ákvað undirritaður að taka þessari áskorun.

Rekstur knattspyrnudeildarinnar er stærsti einstaki íþróttareksturinn á Suðurnesjum. Velta félagsins er yfir 140 milljón krónur og þar innan eru margir launþegar og hlutaðilar sem treysta á reksturinn. Það var því unnið hörðum höndum að koma saman sterkri stjórn fyrir þetta stóra verkefni sem beið. Stjórn var mynduð af mismunandi einstaklingum, sem voru tilbúnir til að gera allt til að aðstoða og um leið höfðu margt fram að færa á þessum vettvangi.  Stjórn knattspyrnudeildarinnar státar sig af því að innan hennar ríkir hvorki meira né minna en 97 ára reynsla af stjórnarsetu og því gríðarleg viska og reynsla sem því fylgir og væri engu félagi gott að fara á mis við. Á síðustu árum hafa þó ný andlit komið inn en ávallt hafa dyrnar verið opnar fyrir nýjum mönnum með skemmtilegar áherslur.

Mikið átak var gert hjá kvennaliðinu á síðustu árum og hefur mikið af nýju fólki komið inn. Öflugt kvennaráð var sett á laggirnar sem hefur verið gríðarleg innspýting fyrir kvennaliðið og þá var ráðinn nýr þjálfari sem almenn ánægja hefur verið með. Hefur starfið verið endurbyggt og er framtíðin björt hjá stelpunum okkar.
Íþróttastarfsemi á Suðurnesjum hefur almennt verið þungur rekstur síðustu ár og er knattspyrnudeildin engin undantekning á því. Miðað við stöðu félagsins var tekin sú ákvörðun að hér skyldi ekki vera keyptur árangur heldur unnið að uppbyggingu liðsins innan frá. Nú skyldu ungir leikmenn fá tækifæri og sótt yrði í að fá heimamenn aftur til baka og byggja upp lið á sönnum Keflavíkingum. Með því einu að líta til leikmannahópsins síðasta sumar og árið fyrir það, þar sem við Keflvíkingar vorum með eitt hæsta hlutfall heimamanna, má með sanni segja að þetta hafi gengið upp. Með þessari stefnu höfum við einnig átt í tvígang efnilegasta leikmann úrvalsdeildarinnar og svo árangursrík var hún að félaginu hefur tekist að láta drauma ungra leikmanna rætast á síðustu árum, með sölu þeirra út í atvinnumennsku.

Þessi stefna deildarinnar hefur skilað liðinu í Evrópukeppni, það hefur náð sínum besta árangri til fljölda áraí efstu deild og spilað til úrslita og undanúrslita í bikarnum. Á þessum sjö árum hefur deildin verið rekin með hagnaði og að ári verður félagið skuldlaust. Er það staðreynd, ekki óskhyggja.Stærsti sigur þessarar stjórnar er hinsvegar sá að félagið hefur ávallt átt sinn stað meðal þeirra bestu á Íslandi, þrátt fyrir þennan mikla öldudal sem gengið hefur yfir. Það er kannski þessi staðreynd sem gerir það að verkum að starf formanns verður eftirsótt í fyrsta sinn. Þá má nefna að hér hefur verið byggt nýtt og glæsilegt vallarhús, einn besti knattspyrnuvöllur landsins og nýtt æfingasvæði við Reykjaneshöll. Ekkert af þessu hefði verið mögulegt ef ekki væri fyrir gríðarlega samstöðu innan stjórnarinnar,góðu og sterku sambandi við leikmenn og þjálfara ásamt frábæru og stöðugu samstarfi við Reykjanesbæ að ógleymdum þeim ótal styrktaraðilum sem ávallt hafa stutt við okkur.

Frá því að ný stjórn hóf störf árið 2008 hefur markmiðið verið einfalt, að ná stöðugleika. Starf formanns og framkvæmdastjóra hafði verið aðskilið fram að þessu og erfitt reynst að manna stöðu framkvæmdastjóra. Höfðu þeir stoppað stutt við og árangur því miður ekki verið viðunandi. Ákveðið var að sameina þessi störf og hefur aldrei verið litið til baka. Árangurinn hefur ekki staðið á sér og sú umræða að skipta þessum stöðum upp á sér engar stoðir. Stöðugleiki innan deildarinnar hefur aldrei verið meiri.
Núverandi stjórn mun leggja af störfum einn daginn, en sá dagur er ekki runninn upp. Undirritaður hefur  mikinn hug á að hefja sitt 20. stjórnarár hjá knattspyrnudeildinni og hef ég og mín fjölskylda lagt mikið á okkur fyrir Keflavík. Starf okkar síðustu ár hefur verið til fyrirmyndar. Rekstur og öll umgjörð er eins og best verður á kosið eftir þrotlausa vinnu. Sjáum við nú fram á bjarta framtíð og nú þegar það eru  3 mánuðir í mót, biðlar núverandi stjórn til sannra stuðningsmanna knattspyrnunnar í Keflavík að mæta á aðalfund deildarinnar og tryggja það að stöðugleiki haldi áfram og traustur grundvöllur fyrir knattspyrnuiðkun verði tryggður.
Aðalfundur verður haldinn á fimmtudaginn 29. janúar. Klukkan 20:00. Vonumst við til þess að sem flestir sjái sér fært að mæta og styðja okkur við áframhaldandi störf.

Fyrir hönd knattspyrnudeildar Keflavíkur;
Þorsteinn Magnússon, formaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024