Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Aðsent

Sögur af Vellinum – Ævintýrið á Miðnesheiði
Föstudagur 17. janúar 2025 kl. 06:22

Sögur af Vellinum – Ævintýrið á Miðnesheiði

Á undanförnum árum hef ég haft þá tómstundaiðju að skrifa og gefa út bækur. Það gefur mér mjög mikið að sitja við skriftir og ræða við fólk. Í allt hef ég gefið út fimm bækur og þar af þrjár bækur á síðustu þremur árum, eða fimm bindi.

Nú er ég enn kominn af stað og stefni á útgáfu bókar sem hefur vinnuheitið „Sögur af Vellinum”. Bókin mun fjalla um störf og starfsaðstæður íslenskra starfsmanna sem unnu hjá hernum og fyrirtækjum sem þjónustuðu herinn. Þá verður fjallað um fjölskyldutengsl, sambýli við óbreytta ameríska borgara sem þjónustuðu herinn og leigðu húsnæði niður í bæ og bjuggu innan um íbúa á Suðurnesjum.

Verkefnið er mjög áhugavert og er til þess stofnað að það varpi skýru og áhugaverðu ljósi á þær samfélagslegu aðstæður og breytingar sem nálægðin við herinn hafði á daglegt líf íbúa hér á svæðinu. Ljósmyndir eru mikilvægar til að segja söguna, enda segja ljósmyndir meira en orð um stund og stað.

Ég er að leita að viðmælendum sem geta varpað skýru ljósi á þessa sögu og eru tilbúnir að segja mér sína reynslu og þekkingu af starfseminni, störfum og öðrum tengslum við herinn. Ég mun kappkosta að bókin verði skemmtileg og geymi fyrst og fremst  það jákvæða sem vera herliðsins hafði á íbúa. Það verður ekki skylda að koma fram undir nafni, en sannleikurinn er mikilvægur, en góð saga þarf líka að geta notið sín. Það þarf því að vera fótur fyrir því sem sagt verður frá.

Eðlilega hefur ekki allt gengið fyrir sig eins og í sögu en ég er ekki sérstaklega að leita eftir neikvæðum sögum, en allt er þetta mat og það er sjálfsagt misjafnt á milli manna.

Ég bið þá sem lesa þessa grein og hafa áhuga að segja mér frá reynslu sinni, foreldra eða annarra nákominna að hafa samband við mig og við sjáum hvort það hjálpi mér ekki til að gera áhugaverða og skemmtilega bók um samstarf tveggja og jafnvel fleiri ólíkra menningarheima.

Ég er með netfangið [email protected] og er á fésbókinni og síðan er ég með síma 8943900, endilega hafið samband.

Með fyrirfram þakklæti.
Ásmundur Friðriksson
fv. alþingismaður og rithöfundur.