Aðsent

Sókn fyrir Suðurnes
Miðvikudagur 13. maí 2020 kl. 11:04

Sókn fyrir Suðurnes

Frost í ferðaþjónustu um allan heim kemur hart niður á okkur sem búum á þessari fallegu eyju í miðju Atlantshafinu. Við höfum á síðasta áratug upplifað ótrúlega uppgangstíma í ferðaþjónustu á Íslandi. Suðurnesin hafa notið góðs af því enda liggur lífæð samgangna til landsins í gegnum svæðið. Suðurnesjamenn hafa nýtt sér stöðu sína og hafa sveitarfélögin sem mörg hver þurftu að takast á við miklar áskoranir eftir bankahrunið 2008 unnið þrekvirki í því að bæta stöðu sveitarsjóðanna. Áfallið í ferðaþjónustunni er alvarlegt bakslag í þeirri vinnu en ekki óyfirstíganlegt.

Seint á síðasta ári hófst vinna starfshóps sem ég skipaði í kjölfar þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi vorið 2019. Suðurnesin höfðu þá verið mesta vaxtarsvæði á Íslandi um nokkurt skeið og þrátt fyrir að vöxtur sé jafnan jákvæður þá fylgja örum vexti sveitarfélaga miklar áskoranir því uppbygging og þjónusta þarf að vaxa hratt svo sveitarfélögin geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart íbúum.

Skýrsla starfshópsins liggur brátt fyrir en sú óvenjulega staða sem er uppi vegna kórónuveirufaraldursins hefur valdið því að aðgerðaáætlun starfshópsins er grundvöllur fyrir fjárveitingum sem samþykktar hafa verið á þinginu. Þessi fjárveiting kemur til viðbótar almennum aðgerðum sem stjórnvöld hafa kynnt og nýtist auðvitað fjölskyldum og fyrirtækjum á Suðurnesjum eins og annars staðar.

Tillögurnar starfshópsins eru fjölbreyttar en miða að því að stuðla að auknum samskiptum ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum, hlúa að viðkvæmari hópum á svæðinu, styðja við fjölbreyttari atvinnutækifæri og síðast en ekki síst setja aukinn kraft í menntun á svæðinu. Í mínum huga er mikilvægast að skjóta fleiri og sterkari stoðum undir atvinnuþróun og menntun á svæðinu. Þau verkefni sem eru framundan er mikilvæg til að byrja þá uppbyggingu.

Það kemur fleira til en þær 250 milljónir sem fara í fyrrnefnd verkefni. Ríkisstjórnin hefur aukið fjórum milljörðum króna við hlutafé í Isavia til að vernda og skapa störf á Suðurnesjum. Samkvæmt áætlunum má búast við því að aðgerðirnar tryggi allt að 120 ársstörf. Í vegamálum er unnið að tvöföldun Reykjanesbrautar af fullum krafti frá Kaldárselsvegi til Krýsuvíkurvegar. Í framhaldi þarf að klára tvöföldun frá Krísuvíkurafleggjara til Hvassahrauns. Ég hef áður sagt að ekkert væri í veginum að byrja á tvöföldunni um leið og Hafnarfjarðarbær hefur lokið sinni breytingu á aðalskipulagi. Ef engar mótbárur verða við umhverfismatinu þá bind ég vonir við að hægt verði að bjóða út í september 2021. Síðan vinnum við að því að hægt verði að klára tvöföldunina alla leið að flugstöðinni innan fárra ára.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ávinningurinn með tvöföldun Reykjanesbrautar er gríðarlegur. Þar ber hæst fækkun slysa, áætluð er að 240 milljónir sparist á ári eftir að tvöföldun lýkur. Undirbúningsvinna og framkvæmdin sjálf skapar hátt í 90 ársverk, bæði hátæknistörf og hjá verktökum.

Þá eru ótaldar framkvæmdir við hafnir en strax á þessu ári hefjast viðgerðir á Reykjaneshöfn eftir óveðrið í febrúar sem olli miklum skemmdum á sjóvörnum. Í samgönguáætlun eru einnig áform um endurbætur, lengingu á görðum og dýpkun í Njarðvík og Sandgerði og lenging stálþils í Helguvík svo eitthvað sé nefnt.

Veturinn og vorið hefur verið okkur leiðinlegt og þungt. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og trúi því að við hefjum okkur sem samfélag til flugs á ný áður en langt um líður. Það er í eðli manneskjunnar að vilja ferðast, skoða nýja staði, ókunn samfélög. Landið okkar og menningin eru einstök og munu draga hingað gesti frá víðri veröld, hér eftir sem hingað til.

Sigurður Ingi Jóhannsson, 

formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.