Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Aðsent

Takk fyrir mig
Miðvikudagur 18. mars 2009 kl. 17:07

Takk fyrir mig

eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, alþingismann

Að lokinni stuttri og snarpri prófkjörsbaráttu vil ég koma á framfæri innilegum þökkum til allra þeirra sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi sem lögðu framboði mínu lið, sem og til kjósenda sem veittu mér brautargengi í prófkjörinu.  Þessi dyggi stuðningur leiddi til öruggs sigurs í baráttunni um 1. sætið á listanum og fyrir það verð ég endalaust þakklát.

Þá hefur sá mikli hugur, sem býr í stuðningsmönnum mínum, verið hvetjandi, uppbyggilegur og skemmtilegur. Kosningabaráttan var  drengileg og lærdómsrík – áherslan lögð á gildi, sannfæringu og trúverðugleika þess fólks sem var í framboði sem og málefnin sem það stóð fyrir. Ég vil sérstaklega þakka öllum meðframbjóðendum mínum fyrir gott samstarf og skemmtilega baráttu – ég ber mikla virðingu fyrir þeim öllum og eru þau öflugir málsvarar Sjálfstæðisflokksins.

Nú liggur niðurstaðan fyrir – sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa kosið sér sterkan lista og dugmikið fólk til forystu í næstu kosningum. Ég hef þann heiður að fara fyrir listanum og mun leggja mig alla fram um að vinna af öllu alefli að hagsmunum kjördæmisins alls. Ég mun leggja mig fram um að við sem skipum efstu sæti listans vinnum saman sem ein heild, sem eitt sigurstranglegt sóknarlið.

Baráttan er rétt að byrja. Sjálfstæðisflokkurinn stendur á tímamótum og það er mikil vinna framundan. Við þurfum að endurvinna traust kjósenda, fara vel yfir fortíðina og marka skýra stefnu til framtíðar um leið og við endurvekjum þau gömlu gildi sem mótað hafa grunninn að sjálfstæðisstefnunni. Umfram allt þurfum við að hlusta á grasrótina og standa saman, nú sem aldrei fyrr.

Ég mun stolt taka þátt í þeirri baráttu sem framundan er og hvergi draga af mér í þeirri vinnu.

Takk fyrir mig.