Fréttir

Stærsta eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni
Við eldstöðvarnar sunnudaginn 25. ágúst. VF/Ísak Finnbogason
Mánudagur 26. ágúst 2024 kl. 15:47

Stærsta eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni

Allar mælingar sýna að þetta eldgos sé það stærsta á svæðinu frá því að jarðhræringarnar hófust haustið 2023. Það eru mælingar sem hafa verið gerðar á hraunbreiðunni hingað til og líkanreikningar sem áætla magn kviku sem fór úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina þegar eldgos hófst. Þetta kemur fram í ítarlegri samantekt Veðurstofu Íslands.

Áfram gýs á svæðinu norðaustan við Stóra-Skógfell. Síðasta sólahring hefur virknin einangrað sig nokkuð á einu svæði norðarlega á gossprungunni sem opnaðist að kvöldi 22. ágúst.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hraunið flæðir nú að mestu til norðvesturs í tveimur megin straumum og hefur hægt verulega á framrás þess.

Hraunflaedi_26082024

Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu hraunsins eins og hún var kl. 22:31 í gærkvöldi 25. ágúst. Þá var flatarmál hraunsins orðið 15,1 km2. Kortið er byggt á gögnum frá Iceye gervitunglinu.

Gera má ráð fyrir því að nú sé hraunflæði frá eldgosinu nokkrir tugir rúmmetra á sekúndu. Nákvæmar mælingar hafa ekki enn verið gerðar á því en matið er byggt á samanburði við fyrri eldgos á svæðinu og sjónrænt mat á virkni í gígunum. Í upphafi eldgossins er áætlað að hraunflæði hafi verið um 1.500 - 2000 m3/s, því er virknin í dag einungis brot af því sem hún var í upphafi.  

Þegar kvika hljóp úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina á fimmtudagskvöld seig land þar mest um 40 cm. Það er næstum tvöfalt meira en sigið sem mældist 29. maí í síðasta eldgosi sem passar vel við að þetta sé stærsti atburðurinn. Sigið heldur áfram en fer minnkandi dag frá degi. Ef gert er ráð fyrir því að kvikuflæði á laugardag hafi verið komið niður í 100 m3/s þá bendir minnkandi hraði á siginu til að nú sé flæðið komið niður í u.þ.b ¼ af því sem það var þá. Líkanreikningar benda til að 17-27 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu í Svartsengi frá því að eldgosið hófst.

GPS__26082024

Færslur á GPS stöðinni HS02 við Svartsengi síðan í lok júní 2024 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu eldgosa, sem hófust 28. maí og 22. ágúst.

Ekki verður hægt að fullyrða um áframhaldandi kvikuflæði inn í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi fyrr en landris fer að sjást aftur. Það gæti byrjað að sjást eftir að hraunflæði í eldgosinu verður komið niður fyrir 4 m3/s sem er sambærilegt við innflæðið undir Svartsengi eins og það hefur verið áætlað til þessa.

Jarðskjálftavirkni er áfram lítil á svæðinu og þá aðallega við nyrstu sprunguna síðasta sólahring, en einn skjálfti M 3,4 að stærð varð nærri Kleifarvatni rétt fyrir miðnætti í nótt.

Samkvæmt veðurspá er hæg austlæg eða breytileg átt á gosstöðvunum í dag. Mengun frá gosinu og gróðureldum dreifist væntanlega um Reykjanesskaga, hennar gæti orðið vart um tíma m.a. í Svartsengi, Reykjanesbæ og Vogum. Í nótt verður suðaustan og austan 5-13 m/s og mun gasið þá berast til norðvesturs og vesturs, yfir Reykjanesbæ. Hægari norðlæg eða breytileg átt eftir hádegi á morgun og þá gæti gasmengunar orðið vart í Grindavík.

Hættumat uppfært

Veðurstofa Íslandshefur gefið út uppfært hættumat sem gildir til 29. ágúst, að öllu óbreyttu. Miðað við þróun gossins undanfarna daga og gasspá hefur hættumatið tekið nokkrum breytingum. Helsta breytingin er á Svæði 1 (Svartsengi) sem færist úr mikilli hættu (rauð) í töluverða hættu (appelsínugul). Talið er að minni hætta sé vegna hraunflæðis en meiri líkur á gasmengun og gjóskufalli. Svæði 7 færist úr talsverði hættu (appelsínugul) í nokkra hættu (gul), það er vegna þess að minni líkur eru á hraunrennsli og gasmengunar á svæðinu. Hin svæðin eru óbreytt, hins vegar er metin meiri hætta vegna hugsanlegs gjóskufalls á Svæði 5.

Haettusvaedi_VI_26agust_2024_2

(Smellið á kortið til að stækka)