Íþróttir

Barnastarf í Vogum líður fyrir leka í íþróttahúsi
Svona var staðan í íþróttamiðstöð Voga þegar ljósmyndara Víkurfrétta bar að garði í byrjun febrúar. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 13. febrúar 2025 kl. 10:05

Barnastarf í Vogum líður fyrir leka í íþróttahúsi

Íþróttahúsið í Vogum hefur verið ónothæft síðustu vikur vegna leka og er það í annað sinn frá því í desember sem það gerist. Í samtali sem Víkurfréttir áttu við formann Þróttar í Vogum, Petru Rún Rúnarsdóttur, í byrjun febrúar kom fram að þetta ekki í fyrsta sinn sem leki kemur upp í íþróttamiðstöðinni og hefur áhrif á æfingar.

„Þetta er í fjórða sinn sem lekur og er misjafnt hversu lengi salurinn hefur verið úti en það hefur verið frá nokkrum vikum niður í nokkra daga,“ segir Petra. „Þetta hefur gífurleg áhrif á barnastarfið hjá okkur þar sem fella þarf niður æfingar eða finna lausnir til að halda úti æfingum með öðru móti. hvort sem það er með því að nýta júdósal, sparkvöll eða félagsmiðstöð. Sú aðstaða bíður hins vegar ekki upp á að hægt sé að hafa hefðbundna æfingu og þurfa þjálfarar að hugsa í lausnum.“

Petra segir einnig að þetta sé alltaf að gerast yfir vetrartíman og þá starfsemin háð veðri og vindum þegar kemur að því hvort hægt sé að vera utandyra. „Það er ekki gott að börn missi úr hefðbundnum æfingum til lengri tíma og allar svona ófyrirsjáanlegar breytingar ýta undir brottfall og lélegri æfingasókn iðkenda. Treystum við mjög á að þessi aðstaða sé í lagi svo hægt sé að veita viðeigandi þjónustu og halda úti góðu íþróttastarfi fyrir börn og íbúa sveitarfélagsins og finnst okkur mjög bagalegt að þetta sé sífellt að endurtaka sig og sé ekki séu búið að finna lausn á þessum leka,“ bætti Petra við í lokin.

Í svari við fyrirspurn Víkurfrétta þann 3. febrúar sagði Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga: „Sveitarfélagið á og rekur húsið. Unnið er að úrbótum til að þetta gerist ekki aftur.“

Málið var tekið fyrir á 419. fundi bæjarráðs þar sem sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs lagði fram minnisblað um lekamál og fyrirbyggjandi aðgerðir og í afgreiðslu bæjarráðs segir: „Bæjarráð harmar að ítrekað skuli vera lekamál í Íþróttamiðstöð og samþykkir að farið verði í frekari fyrirbyggjandi aðgerðir eins fljótt og auðið er.“

Bæjarráð hefur falið sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs að koma með tillögur að úrbótum fyrir næsta fund bæjarráðs en í færslu á Facebook-síðu Þróttar í dag er eftirfarandi skilaboðum komið á framfæri við forráðamenn og iðkendur:

„Knattspyrnuæfingar í barnastarfinu hafa að mestu legið niðri síðustu tvær vikurnar. Það gengur illa finna lausn á þessu og þykir okkur það afar leitt.
Æfingar hafa þó farið fram en ekki með þeim hætti sem til er ætlast. Þjálfarar og aðrir innan UMFÞ eru að gera sitt besta í því að halda öllum við efnið við afar krefjandi aðstæður.
Við látum ykkur vita um leið og einhverjar fréttir berast.
Þakklæti til ykkar allra fyrir að sýna þessu skilning.“