Íþróttir

Gögn benda til brottfalls þegar komið er upp í meistaraflokk
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 13. febrúar 2025 kl. 20:00

Gögn benda til brottfalls þegar komið er upp í meistaraflokk

Of margir útlendingar í körfunni eða fullkomin staða? Annar hluti.

Fjöldi útlendinga í íslenskum körfuknattleik hafa verið til umfjöllunar í Víkurfréttum og í dag er komið að næsta viðmælanda. Njarðvíkingurinn Jón Ragnar Magnússon, vann rannsókn þegar hann var í námi við Háskóla Íslands, sem fjallaði um áhrif aukins fjölda útlendinga, á spilaðar mínútur og framlag íslenskra leikmanna.
„Tölurnar voru sláandi þegar við gerðum rannsóknina árið 2021 og staðan er ekki betri í dag, það vitum við. Við tókum saman spilaðar mínútur og framlag íslenskra leikmanna og þessi gögn sýna svart á hvítu að hinn svokallaði rulluspilari er nánast horfinn af sviðinu. Einu íslensku leikmennirnir sem létu að sér kveða voru landsliðsmenn, allir hinir voru í raun hættir og þannig er staðan líka í dag, já eða hún er verri. Meira að segja er fróðlegt að sjá stöðu íslensks landsliðsmanns í dag, Bjarna Guðmanns sem leikur með Stjörnunni. Hann var að spila tæpar tuttugu mínútur að meðaltali í leik, Stjarnan á frábærri siglingu en ákváðu svo að bæta við þriðja útlendingnum, Bjarni spilaði tæpar átta mínútur í síðasta leik á meðan nýi útlendingurinn spilaði rúmar 21 mínútur. Hugsa sér, hér er landsliðsmaður látinn víkja fyrir útlendingi, hvað eiga þá hinir íslensku strákarnir að hugsa sem eru ekki í landsliðsklassa? Er skrýtið að menn missi áhugann og snúi sér að einhverju öðru og er það virkilega það sem við viljum sjá gerast? Strákar eru til í að vera í búningi aftarlega á bekknum upp að tvítugsaldri, eftir það er þetta bara búið, alla vega benda öll gögn til þess.
Meiri gæði?

Þeir sem eru fylgjandi því að hafa þetta óheft eins og er í dag, beita meiri gæðum fyrir sig sem rökum, vilja sem sagt hafa sem flesta gæðaleikmenn inni á vellinum. Mér finnst ansi gott dæmi um þetta, leikur nágrannaliðanna, Njarðvíkur og Keflavíkur, um daginn. Þessir svokölluðu rulluspilarar, leikmenn sem byrja á bekknum en koma inn á, Njarðvíkurmegin voru það Snjólfur, Brynjar og Coddon en sá hefur búið lengi hér á Íslandi. Þessir rulluspilarar voru margfalt betri en erlendir varamenn Keflavíkur. Hvar voru öll þessi gæði þá hjá Keflvíkingum? Alla vega voru þau meiri hjá Njarðvík í þessum leik enda unnu þeir öruggan sig.

Það hafa fleiri aðilar skrifað greinar og ritgerðir um málefnið og vísa í gögn sem blasa við fyrir allra augum, þess vegna er sorglegt í hvaða stöðu við erum komin í í dag, þar sem algert stjórnleysi ríkir varðandi þessi mál. Ég átti von á að síðasta ársþing KKÍ myndi breyta þessu og hafði talsverð umræða farið fram vikurnar og mánuðina á undan. Á þessum fundum forsvarsfólks KKÍ með forsvarsfólki félaganna, kom skýrt fram að enginn vildi hafa þetta eins óbeislað og þetta var þá. Þarna átti að setja á reglu sem sagði til um að tveir uppaldnir leikmenn þyrftu að vera inni á vellinum, sem þýddi að liðin gátu verið með þrjá útlendinga. Það var ekki annað vitað en þetta yrði samþykkt en allt í einu kom svo fram breytingartillaga á þinginu og við enduðum í þeirri stöðu sem við erum í í dag, með engar hömlur! Mér finnst mjög varhugavert ef svona mikilvæg málefni eru ákveðin af stjórnarliðum félaganna því við vitum mýmörg dæmi þess að félögin hugsa bara um hvað hentar þeim á þeim tímapunkti. Það er ekkert hugsað út í afleiðingarnar eða hvað sé best fyrir heildarhagsmuni íslensks körfuknattleiks, bara hugsað um að geta keypt nógu marga útlendinga á næsta tímabili til að freista þess að vinna titilinn strax. Mér finnst algerlega galið að KKÍ setji ekki í gang einhverja stefnumótandi umræðu um framtíð íslensks körfuknattleiks og hvað sé honum fyrir bestu. Ef einhver telur virkilega að það besta fyrir íslenskan körfuknattleik, sé að hafa tíu útlendinga í hverju liði, þá væri ég til í að setjast niður með þeim aðila og rökræða þau mál. Það er KKÍ-þing  framundan, nýr formaður mun taka við og ég bind vonir við að það fari að kveða við nýjan tón hjá sambandinu. Við verðum að fara snúa þessari óheillaþróun við, áður en illa fer fyrir íþróttinni hér á landi,“ segir Jón Ragnar.

Viðtal við Guðjón Skúlason.