Málarinn málar sig ekki út í horn
Málarameistarinn Brynjar Hólm Sigurðsson fer hægt og hljótt af stað í tippleik Víkurfrétta. Hann hefur unnið báðar viðureignir sínar með minnsta mun eftir jafntefli, í þriðja liðnum með fleiri leiki rétta á fyrstu sex leikjum seðilsins. Aftur skyldu leikar jafnir, 7-7 og þ.a.l. hefur síðasti áskorandi, Friðrik Bergmannsson, lokið leik og er þökkuð þátttakan. Næsti áskorandi telur ástæðuna fyrir vali sínu og bræðra sinna á liði í enska boltanum, koma til vegna ástar á dýrum, það var auðveldara að muna nöfnin.
Halldór Rúnar Þorkelsson var ellefu ára gamall þegar fjölskylda hans flutti til Keflavíkur. Foreldrarnir voru áhugasamari um barneignir heldur en enska boltann, börnin urðu tíu talsins og þar sem pabbinn sýndi skíðamennsku meiri áhuga en fótbolta, þurfu Rúnar og bræður hans að velja sér sjálfir lið í enska boltanum.
„Kannski erum við svona vitgrannir bræðurnir en við völdum okkur allir lið sem voru með skírskotun til dýra. Ég held með Derby County út af hrútnum, Annel bróðir heldur með Wolves út af úlfinum og Jón Ásgeir heldur með WBA vegna þrastarins. Við höfðum ekki föður eða neinn í kringum okkur til að benda okkur á hvert besta liðið væri og þ.a.l. höfum við okkur ekki mikið í frammi þegar kemur að rökræðum um besta liðið í enska boltanum, höfum alltaf haldið með þeim sem minna mega sín, það gildir um liðin okkar.
Áhugi minn á íþróttum hefur alltaf verið mikill en ég æfði ekkert að ráði. Var aðeins í fótbolta og tók þátt í leikjum HF (Keflavík Hf fiskvinnslufyrirtæki) en Knattspyrnufélagið HAFNIR var stofnað í kringum HF félagið. Ég var fyrsti þjálfari Hafna, við bræðurnir þrír komum að þessu liði, Annel og Jón sem leikmenn. Það fór meira fyrir hörkunni en tækninni í mínum leikstíl og þess vegna valdist ég frekar í vörnina, þegar boltinn var annars vegar en annars einbeitti ég mér bara að þjálfuninni.
Golfíþróttin hefur átt hug og hjarta Rúnars og á hann nokkur eftirminnileg höggin í gegnum tíðina, á þó eftir að ná draumahögginu en hann dreymir um að koma góðu höggi á Binna, andstæðing sinn í tippleiknum.
„Ég styð Keflavík í öllum íþróttum. Það var svekkjandi að komast ekki upp í Bestu deildina á síðasta tímabili en við förum bara upp í sumar. Mér líst vel á að fá Sigga Ingimundar til að taka við karlaliðinu okkar í körfunni. Við snúum taflinu við og siglum í úrslitakeppnina, þar sem ekkert lið mun vilja mæta okkur. Siggi og Jonni stýra svo kvennaliðinu til Íslandsmeistaratitils, Áfram KEFLAVÍK,“ sagði Rúnar að lokum.
Varnarsinnaður hestamaður
„Ég skal ekki segja, ég æfði hvorki fótbolta né körfubolta svo ég get ekki sagt til um hvort ég sé varnarsinnaður tippari, það er ekki hægt að tala um sóknar- eða varnarleik í hestamennskunni svo ég verð bara að játa mig sigraðan gagnvart þessari pælingu.
Ég hef ekki lagt upp með varnarleik í þessum tveimur tippleikjum en það er spurning hvort ég eigi að vera sóknarsinnaðri í næstu umferð. Reyndar á maður ekki að skipta um hest í miðri á, maður breytir ekki sigurliði. Ég mun leggjast undir feld á næstunni,“ sagði Brynjar.