Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Íþróttir

Embla ósátt
Embla Kristínardóttir hefur verið efst í framlagi leikmanna fyrstu deildarinnar í vetur.
Mánudagur 4. desember 2017 kl. 10:07

Embla ósátt

„Ég var orðin þreytt á að hafa í rauninni engan þjálfara. Við mættum stundum á æfingu og ég tók að mér að þjálfa því hún var ekki komin til landsins,“ segir Embla Kristínardóttir í samtali við Víkurfréttir, en hún er nú farin frá 1. deildar liði Grindavíkur í körfuknattleik. Ástæðuna segir hún vera að sér og spilandi þjálfara liðsins, Angelu Rodriguez, hafi ekki komið saman.

Þá segir hún einnig að Angela hafi nánast ekkert æft sjálf með liðinu, en hún hafi samt sem áður gefið sér tíma til að fara heim til Bandaríkjanna í viku frí. „Hún þarf bara að átta sig á því að hún er þjálfari liðsins og atvinnumaður og þarf að fara haga sér þannig sem fyrst ef framfarir eiga að verða á liðinu.“

Þegar Embla er spurð hvað hún muni gera í framhaldinu segir hún ekkert staðfest í þeim efnum. „Þetta er ungt og skemmtilegt lið sem er fullt af gullmolum sem Angela nýtir ekki á réttan hátt. Hún var fengin til að gera stelpurnar betri þar sem hún er frábær karakter, en hefur ekki náð að láta ljós sitt skína sem þjálfari ennþá.“

Embla hefur verið sterk með liðinu í vetur og hefur meðaltal hennar í leikjum verið 21 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar. Hún er einnig efst í framlagi leikmanna fyrstu deildarinnar með 27,2 stig í leik.