Grindvíkingar semja við kanadíska landsliðskonu
Grindavík hefur samið við kanadíska framherjann Christabel Oduro sem mun leika með félaginu í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu í sumar. Christabel er 28 ára gömul og á að baki fimm landsleiki með Kanada.
Christabel er væntanleg til Íslands á næstu vikum og verður vonandi góður liðsstyrkur fyrir ungt lið Grindavíkur sem vann sig upp í Lengjudeildina á síðasta tímabili eftir að hafa fagnað deildarmeistaratitli í 2. deild kvenna.
Auk þess að hafa leikið í heimalandi sínu Kanada þá hefur Christabel einnig leikið í sterkum deildum í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Ísrael og Svíþjóð. Nú síðast lék hún með félaginu Birkirkara á Möltu.
Christabel er reynslumikill framherji, snögg og kröftug.