Króatískur sigur í Njarðvík
„Minn maður var ánægður en ég ekki. Þetta var aldrei spennandi, því miður,“ segir Aníta Ágústsdóttir eftir slæmt tap Íslands gegn Króatíu á HM í handbolta. Maður Anítu, Davor Lucic, er frá Króatíu og hann fagnaði sigri sinna manna.
Aníta og Davor eru hjón, hún íslensk og hann frá Króatíu. Þau búa í Njarðvík og starfa bæði hjá Kölku. „Við kynntumst í gegnum vini árið 2001 og erum búin að vera saman í 24 ár og giftum okkur árið 2017.“
Aníta er einnig einn af leiðbeinendum hjá Þitt Form í Sporthúsinu og er líka með námskeiðið Bætt Heilsa.
VF bað um spá frá hjónakornunum fyrir leikinn og þar var eiginmaðurinn frá Króatíu meiri spekingur því hann spáði sínum mönnum sigri 27-23 en Aníta spáði Íslandi sigri 19-23.
Aníta gerði vel við sinn mann á Bóndadaginn og bauð honum, tveimur börnum sínu af þremur, föður sínum og bróður upp á heimagerða pítsu í kvöldmat rétt fyrir handboltaleikinn og Davor fékk bóndadagsköku í eftirrétt og brosti breitt að leik loknum.
Hvernig tók fólkið svo úrslitunum?
„Börnin og Davor voru mjög sátt og glöð,“ sagði Aníta.
Ha?…héldu þau með Króatíu?
„Treystu mér, ég hef reynt en það er sterkt þetta balkanska blóð.“