Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Íþróttir

Stormsveipurinn Petra Rós
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 28. febrúar 2025 kl. 06:50

Stormsveipurinn Petra Rós

Grindvíkingurinn Petra Rós Ólafsdóttir kom eins og stormsveipur inn í tippleik Víkurfrétta og ekki nóg með að hún hafi unnið þann sem var á stallinum, Brynjar Hólm Sigurðsson, 11-10, heldur bætti hún inn á bankareikninginn sinn. Ellefu réttir gáfu heilar 1.100 krónur og hún var auk þess með nokkrar tíur, heildarvinningsupphæð 2.990 og ef reiknikunnátta blaðamanns er ekki að klikka, þá átti hún 2.054 krónur í vasanum eftir að búið var að gera upp kostnaðinn við sjálfan seðilinn en tipparar í tippleik Víkurfrétta, þurfa að kaupa seðil sem kostar 936 krónur. Petra Rós er því ný á stalli og hennar fyrsti áskorandi er gamla knattspyrnukempan úr Garðinum, Björn Vilhelmsson.

Björn Vilhelmsson gerði garðinn frægan með heimaliði sínu, Víði í Garði. Blaðamanni er til efs að afrek Víðismanna verði leikið eftir, þeir léku á meðal hinna bestu og náðu alla leið í bikarúrslitaleikinn á Laugardalsvelli, og liðið nánast eingöngu skipað Garðbúum og það bjuggu ekki nema rúmlega þúsund manns í bænum þá!

„Það var mjög gaman að taka þátt í þessu ævintýri á sínum tíma og kannski er það rétt hjá þér, þetta afrek verður kannski ekki leikið eftir. Ég er búinn að vera bíða eftir að Víðismenn myndu ná að endurtaka þennan leik en nú fer hver að verða síðastur, það eru líkur á að liðið sameinist Reynismönnum í Sandgerði. Ég er ekki búinn að mynda mér skoðun á því en ætla að gera það þegar ég er búinn að hlusta á fagaðila tala um alla kosti og alla galla. Þannig eiga allir að nálgast þetta viðfangsefni að mínu mati, að taka upplýsta ákvörðun.

Íþróttir, og knattspyrna þá helst, hafa alltaf verið ofarlega á baugi hjá mér. Ég hef aldrei hætt að spila knattspyrnu, ég byrjaði strax í hinum svokallaða „old boys“ bolta og hef orðið Íslandsmeistari með sameinuðu liði okkar Víðismanna og Keflvíkinga. Þetta er ofboðslega gaman finnst mér, félagsskapurinn til fyrirmyndar. Golfið er síðan ofarlega á baugi hjá mér, ég er með rétt rúma tólf í forgjöf í dag, náði lægst í 10,1 ef ég man rétt, hundfúlt að hafa ekki komist niður í eins stafa tölu og eigum við ekki að setja okkur markmið um það.

Ég hef ekki verið mikill tippari í gegnum tíðina og kominn tími til að mæta til leiks. Ég er gallharður stuðningsmaður -Manchester United og verður að segjast eins og er að það eru erfiðir dagar, vikur, mánuðir og í raun ár, sem eru núna í gangi. Maður spyr sig í hvert skipti þegar maður sest niður spenntur að horfa á sína menn, hvort botninum sé náð. Það er eitthvað ofsalega mikið að hjá okkur sem sést kannski best á því að leikmenn sem gátu ekkert í rauðu United-treyjunni, blómstra þegar þeir komast í ný lið. Antony á Spáni, Rashford með Aston Villa, maður bara skilur þetta ekki. Auðvitað vill maður trúa að nýi stjórinn viti hvað hann syngur en að geta ekki leikið nema eitt leikkerfi, með mannskap sem hentar engan veginn til að leika það leikkerfi, ég set spurningamerki við það. Ég ætla samt að vera bjartsýnn, við siglum vonandi í gegnum næstu umferð bikarsins sem er um helgina, eftir það er leiðin stutt á Wembley og allt getur gerst þá eins og United sýndi í síðasta úrslitaleik FA cup. Eigum við ekki að segja að ég stefni á að mæta þangað í vor sem sigurvegari tippleiks Víkurfrétta, og sé mína menn lyfta bikarnum aftur,“ sagði Björn.

Partý með fjöllunni

Petra Rós var himinlifandi yfir sigrinum og ekki skemmdi verðlaunaféið frá Getraunum fyrir.

„Ég var algerlega í sjöunda himni þegar ég áttaði mig hvað hafði gerst þennan laugardag. Ég hef verið dugleg að taka þátt í alls kyns leikjum á Facebook og víðar og hef verið dugleg að sanka að mér alls kyns vinningum en að ná þessum árangri í tippleiknum tekur því öllu fram. Þegar ég var búin að gera upp kostnaðinn við seðilinn þá ákváðum við fjölskyldan að gera vel við okkur fyrir afganginn og áttum saman frábæra kvöldstund. Eigum við ekki að segja að ég stefni á tólf rétta í næstu umferð, alla vega er ljóst að andstæðingur minn þarf að hitta á sinn dag ef hann ætlar að vinna mig,“ sigurreif Petra Rós að lokum.