Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Netin kjaftfull af fiski – 124 tonn í tíu trossur
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 22. mars 2024 kl. 06:02

Netin kjaftfull af fiski – 124 tonn í tíu trossur

Já móðir náttúra heldur betur lætur vita af sér með enn einu eldgosinu, mikið sjónarspil að sjá himininn verða ansi fallega appelsínugulan. Fiskurinn í sjónum hérna við Suðurnesin lætur nokkur eldgos ekki á sig fá því mokveiðin sem er búin að vera hér frá áramótum virðist engan endi ætla að taka. Í raun má segja að það skipti ekki máli hvaða veiðarfæri bátarnir nota, það kemur fiskur á svo til allt. Reyndar er þetta svo til allt þorskur og færabátarnir sem hafa verið að eltast við ufsann við Reykjanesið og Eldey hafa lítið fengið af ufsanum núna í mars – en þó eitthvað.

Reyndar hefur færabátunum fjölgað mjög mikið og er orðinn ansi stór og mikill færabátafloti sem er að landa í Sandgerði og þeir bátar sem eru í þorskinum hafa komið með fullfermi í land. T.d. er Huld SH komin með 20,1 tonn og mest 3,3 tonn í róðri sem er fullur bátur, Fagravík GK 16,1 tonn í sjö róðrum og mest 3,1 tonn í róðri, Líf NS 7,9 tonn í níu róðrum og mest 1,7 tonn í róðri, Þórdís GK 7,5 tonn í fimm róðrum og mest 2,4 tonn í róðri, Skarphéðinn SU 8,1 tonn í fimm róðrum og mest 2 tonn í róðri og Sigurey ÍS 7,5 tonn í þremur róðrum og mest 3,5 tonn í róðri, allt eru þetta færabátar sem að mestu eru að veiða þorsk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir fáu netabátar sem eru að veiða núna hafa veitt vel enda er marsmánuður yfirleitt langstærsti netamánuður ársins og aflatölur mínar, sem ég á til 1944 varðandi vetrarvertíðir, sýna það. Erling KE er kominn með 243 tonn í þrettán róðrum og mest 28 tonn og Friðrik Sigurðsson ÁR 127 tonn í fjórtán róðrum og mest 16 tonn í róðri. Reyndar hefur Jökull ÞH líka verið á veiðum við Suðurnes en hann landar í Keflavík.

Reyndar hefur einn stór bátur verið á netaveiðum núna fyrir utan Suðurnesin og er það Þórsnes SH frá Stykkishólmi. Þar um borð eru tveir skipstjórar sem skipta með sér verkum; Margeir Jóhannsson sem hefur verið nokkuð lengi skipstjóri á Þórsnesi SH og síðan er Hafþór Örn Þórðarson kominn á móti honum en Hafþór var meðal annars var skipstjóri á Erling KE og gerði einnig út Bergvík GK.

Hafþór og áhöfn hans á Þórsnesi lentu heldur betur í moki núna á Selvogsbanka fyrir rúmri viku síðan. Þeir lögðu þar tíu trossur af netum og voru samtals með 150 net, fóru síðan inn til Þorlákshafnar og biðu þar. Eftir að netin höfðu verið í sjó í átján klukkustundir var byrjað að draga og óhætt er að segja að netin hafi verið kjaftfull af fiski því öll kör sem voru í bátnum fylltust af fiski og þurfti meira segja að setja fisk í stíur enda kom á daginn að upp úr Þórsnesi SH var landað um 124 tonnum sem er rosalegur afli í aðeins tíu trossur. En er þetta Íslandsmet? Það hef ég ekki kannað nákvæmlega því að ég veit að netabátar hafa náð yfir 100 tonnum í einni löndun í netin, mun ég kanna þetta nánar og birta frétt um það inn á Aflafrettir.is.

Stóru línubátarnir hafa líka veitt mjög vel og þeirra atkvæðamestur er Valdimar GK sem hefur verið með línuna sína á Selvogsbankanum, við Stafnes og á Eldeyjarsvæðinu. Valdimar GK er kominn með 392 tonn í fjórum róðrum og mest 105 tonn í einni löndun. Hluta af þessum afla hefur verið landað í Sandgerði og myndin sem fylgir með þessum pistli er af Valdimar GK koma til Sandgerðis með 84 tonn í bátnum. 

Rétt á eftir honum kom Hópsnes GK en hann var með línuna rétt utan við Sandgerði og var í það mikilli mokveiði að hann þurfti að tvílanda þann daginn.