Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Veðurguðirnir í fýlu í nóvember
Föstudagur 15. nóvember 2024 kl. 06:03

Veðurguðirnir í fýlu í nóvember

Jæja, það hlaut að koma að því að veðurguðirnir myndu láta til sín taka. Haustið er búið að vera mjög gott og bátar hafa komist nokkuð oft á sjóinn, þar á meðal handfærabátarnir.

Núna það sem af er nóvember  hefur veðráttan verið mjög óblíð og bátar lítið komist á sjóinn, í það minnsta hérna á Suðurnesjum. Það sem af er nóvember hafa aðeins átta bátar komist á sjóinn og hafa þeir samtals landað 142 tonnum í 24 róðrum. Hérna er ég einungis að tala um bátana sem landa í Keflavík, Sandgerði og Grindavík. Reyndar er bara Dúddi Gísla GK í Grindavík, hefur landað þar 8,8 tonnum í tveimur róðrum.

Í Keflavík eru það netabátarnir sem eru að veiða fyrir Hólmgrím og reyndar er bátur sem hann á kominn á veiðar, Halldór Afi GK. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Netabátarnir eru Addi Afi GK sem er með 5,6 tonn í þremur róðrum, Sunna Líf GK 7,7 tonn í þremur og Halldór Afi GK sem er með 8,9 tonn í þremur róðrum.

Margrét GK er á línu í Sandgerði og er komin með um 12 tonn í tveimur róðrum.

Fín veiði er hjá Sigga Bjarna GK og Benna Sæm GK en báðir eru þeir ennþá á veiðum í Faxaflóanum. Siggi Bjarna GK kominn með 43 tonn í fjórum og mest 19,3 tonn. Benni Sæm GK með 44,4 tonn í fjórum og mest 23,7 tonn. Sigurfari GK er á veiðum við Eldey og er kominn með 10 tonn í þremur róðrum. 

Hlutfallslega þá er minnst af þorski í aflanum hjá Sigurfara GK, aðeins 2,2 tonn og aflinn hjá honum er mun blandaðri en hjá Sigga Bjarna GK og Benna Sæm GK. Sem dæmi um hversu mikið blandaður aflinn er hjá Sigurfara GK þá er hann kominn með sautján fisktegundir á sama tíma og Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK eru með níu fisktegundir.

Ég er búinn að vera ansi mikið að skrifa um Huldu Björnsdóttir GK í síðustu pistlum mínum og kem með smá í viðbót en togarinn fór í sinn fyrsta prufutúr og kom til Hafnarfjarðar með 8,4 tonn í einni löndun. Síðan tóku við stillingar á tækjum og tólum um borð í togaranum.

Af öðrum togurunum þá er Sturla GK með 80 tonn í tveimur túrum, landað í Neskaupstað og Hornafirði.

Reyndar er þetta nokkuð athyglisvert með Sturlu GK og Hornafjörð vegna þess að innsiglingin til Hornafjarðar getur oft verið varasöm, sérstaklega út af ósnum en hið mikla fljót, Hornafjarðarfljót rennur í sjó í ós sem jafnframt er innsiglingin inn í höfnina á Hornafirði. Oft myndast sandrif þar í ósnum og djúprist skip eiga erfitt með að komast þar inn í höfnina.

Hulda Björnsdóttir GK er miklu stærri en Sturla GK og ég efast um að togarinn komist þangað inn. Reyndar mun kannski ekki reyna á það því aðeins austar er Djúpivogur og þar er góð innsigling og nægt dýpi, sérstaklega í Gleðivík þar sem dýpi er meira.

Meira um togaranna. Áskell ÞH með 93 tonn og Vörður ÞH með 96 tonn, báðir í einni löndun og báðir að landa í Neskaupstað. Sóley Sigurjóns GK landar á Siglufirði og kom þangað með 143 tonn.

Jóhanna Gísladóttir GK kom með 74 tonn á Djúpavog.

Þessi vika verður nú ekki beint heppileg til sjósóknar því veðurspáin er frekar slæm en alla storma lægir og það mun gefa til sjósóknar á endanum.