Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Viðskipti

Kinnfiskurinn vinsæll í nýrri fiskbúð
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 4. júlí 2020 kl. 07:22

Kinnfiskurinn vinsæll í nýrri fiskbúð

Fiskbúð Reykjaness opnaði nýverið við Brekkustíg í Njarðvík

Fiskbúð Reykjaness opnaði nýverið í húsnæði við Brekkustíg í Njarðvík. Eigandi búðarinnar er Sigurður Magnússon en hann hefur gengið með hugmyndina í maganum í um tvö ár. Hann hafði unnið við akstur og var á leiðinni austur á land í vondu veðri og efrir hrakfarir og að hafa næstum fokið útaf veginum ákvað hann að hann ætlaði að taka sér eitthvað annað fyrir hendur og fór að vinna að hugmyndinni um opnun fiskbúðar. Hann er reyndar með „fiskbúð í blóðinu“ því móðir hans rak fiskbúð við Hrinbraut í Keflavík fyrir nokkrum árum.

Netverjar hafa lengi kallað eftir fiskbúð og Sigurður hefur því svarað kallinu. Og spurður hvort þeir sem hafa kallað eftir búðinni hafi svo mætt í Fiskbúð Reykjaness, þá svarar Sigurður því játandi. Það er búin að vera góð traffík í búðinni frá fyrsta degi. Sigurður segir aðsóknina góða miðað við að það sé sumartími. Sumarið er alls ekki besti sölutími fiskbúða. Hann er á haustin og fram í mars.

Fiskbúð Reykjaness fær hráefni víða. Hann tekur fisk beint af bátum og kaupir einnig á markaði og frá fiskvinnslustöðvum. Sigurður segir markmiðið að vera alltaf með ferskasta fiskinn og mikið kapp er lagt á að ná í fiskinn sem ferskastan.

Áhersla er lögð á fjölbreytt fiskborð og að vera með rétti sem eru tilbúnir beint á pönnuna eða í ofninn.

Kinnfiskur (þorskkinnar) er að rokseljast þessa dagana en eldri kynslóðin sækir í hann og segir algjört lostæti. Sigurður segir að tilbúnir réttir séu einnig vinsælir, eitthvað sem sé hægt að stinga beint í ofninn. Núna er ýsa í hungangssinnepssósu rosalega vinsæl. Fiskur í Mexíkósósu er einnig vinsæll. Lúða í marineringu er einnig að rokseljast en Sigurður segir að fólk sé í dag mun tilbúnara til að prófa ýmsa fiskrétti.

Það vakti athygli þegar blaðamaður kom í fiskbúðina að það var fullt af fólki að vinna í búðinni. Sigurður segir að Fiskbúð Reykjaness sé sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Móðir hans sé að vinna í búðinni, enda vön fiskbúð eftir að hafa rekið búðina við Hringbraut á sínum tíma. Systir hans er einnig að vinna í búðinni og hennar maður. Þá hafa fleiri úr fjölskyldunni komið að smíðavinnu og undirbúningi að opnun fiskbúðarinnar.

Fiskbúðin er áfram í þróun. Heitur matur er væntanlegur, bæði til að borða á staðnum eða taka með sér. Heiti maturinn verður eingöngu fiskréttir. Fiskur og franskar verða í boði og alla daga verður einnig heitur mömmuplokkfiskur.

Fiskbúð Reykjaness verður opin frá kl. 10-19 alla virka daga. Fiskborðið á að vera fjölbreytt og aldrei það sama næsta dag. Þegar viðrar fyrir grill þá eru útbúin grillspjót og annað sem virkar vel á grillið. Alla daga eru nýir réttir í bland við hefðbundna soðningu. Þá er hægt að fá humar í öllum stærðum og skelfisk.