Viðskipti

Mathöll í gamla Toppinn
Tölvumynd úr Mathöllinni Völlum.
Föstudagur 19. janúar 2024 kl. 06:00

Mathöll í gamla Toppinn

Mathöllin Völlum mun opna á vormánuðum 2024 á Ásbrú í húsnæði sem á tímum varnarliðsins var veitinga og skemmtistaðurinn „Top of the Rock“.

Að sögn Kjartans Eiríkssonar sem er í forsvari fyrir félaginu ToRo sem stendur að verkefninu er búið er að ganga frá samningum við sex af átta veitingaaðilum og verða þeir tilkynntir á næstunni. Má þar m.a. nefna aðila sem bjóða upp á japanskan, indverskan og ítalskan mat. „Enn eru tveir staðir lausir og því er tækifæri fyrir áhugasama aðila að koma og ræða við okkur. Við höfum mikinn áhuga á að ræða við aðila sem hafa metnaðarfullar hugmyndir að slíkum rekstri, t.d. varðandi vandaða hamborgara, heilsurétti o.fl. Markmið er að gæðalega verði mathöllin á pari við það sem best þekkist hér á landi og taki einnig mið af þeirri þróun sem á sér stað í slíkum rekstri í heiminum,“ segir Kjartan.

SSS
SSS

Húsnæðinu verður skipt upp í þrjá hluta undir mathöll, framleiðslueldhús og annan rekstur. Búið er að hanna endurbætur hússins og framkvæma stóran hluta þeirra.

„Þá er gert ráð fyrir afþreyingarrekstri í öðrum hluta hússins sem styður við og styrkir rekstur mathallarinnar. Hvað þennan þátt varðar þá eru spennandi viðræður í gangi við reynslumikla aðila,“ segir Kjartan en meðeigendur hans í ToRo eru bræðurnir Sverrir og Sævar Sverrissynir.