Viðskipti

Mikilvægt að fyrirtæki taki skýra afstöðu með hinsegin fólki
Gunnar Egill, forstjóri Samkaupa
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 3. ágúst 2022 kl. 11:20

Mikilvægt að fyrirtæki taki skýra afstöðu með hinsegin fólki

Hinsegin dagar hófust í gær, þann 2. ágúst, og standa til 7. ágúst. Samkaup er styrktaraðili daganna en fyrirtækið styrkir hátíðina beint auk þess að halda „off venue“ viðburð í Krambúðinni Laugarlæk og skreyta verslanir sínar með regnbogum. Þess má geta að fyrirtækið rekur yfir 50 verslanir undir vörumerkjum Krambúðarinnar, Kjörbúðarinnar, Nettó og Iceland.
Krambúðin skreytt regnbogafánum í tilefni Hinsegin daga

„Við höfum lagt mikla áherslu á að vera fjölbreyttur vinnustaður og erum m.a. í samstarfi við Samtökin 78 um fræðlsu auk þess sem starfsmenn okkar geta nýtt sér ráðgjöf samtakanna sér að kostnaðarlausu,“ segir Gunnar Egill, forstjóri Samkaupa og bætir við: „Nú þegar hatursorðræða virðist því miður aftur vera farin að láta á sér kræla finnst mér afar mikilvægt að fyrirtæki og vinnustaðir taki skýra afstöðu með hinsegin samfélaginu eins og öðrum minnihlutahópum, ekki aðeins á tyllidögum, eins og á Hinsegin dögum, heldur alla daga. Við hökkum til að skemmta okkur í Gleðigöngunni og alla vikuna.“

Samtarf Samkaupa við Samtökin 78 á sér forsögu en fyrirtækið setti af stað síðasta haust átakið „Jafnrétti fyrir alla – Samkaup alla leið“ með það að markmiði að varpa ljósi á hvar fordómarnir geta legið og skapa fordómalaust umhverfi innan Samkaupa, fyrir alla sem að vinnustaðnum standa. Átakið fól meðal annars í sér samstarf við Samtökin 78, Þroskahjálp og Mirru, rannsókna- og fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk, um fræðslu fyrir starfsfólk fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir viðleitni sína til að auka fjölbreytni.