Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Viðskipti

Nýr viti á Garðskaga
Inma Verdú Sánches, Álvaro Andrés Fernandez, Viktor og Jenný María á El Faro. Ljósmyndir: Andri Þór Unnarsson.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 30. apríl 2022 kl. 06:11

Nýr viti á Garðskaga

El Faro er nýr spænskur veitingastaður á Lighthouse Inn hótelinu við Garðskaga. Ung pör frá Garði og Spáni kynntust á Flateyri og í gönguferð um Hornstrandir varð til hugmynd að nýjum veitingastað í Suðurnesjabæ.

Tveir atvinnulausir flugmenn, ungt par frá Suðurnesjum og ung hjón, kokkar frá Spáni, sem kynntust á Flateyri í heimsfaraldri hafa opnað veitingastað á Garðskaga. Staðurinn heitir El Faro á spænsku eða „Vitinn“ og á að vísa til staðsetningar hans en hann er innan veggja Lighthouse Inn hótelsins við Garðskaga. 

Sama ástríða

Ungu pörin eru þau Jenný María Unnarsdóttir úr Keflavík og Garðmaðurinn Viktor Gíslason og spænsku hjónin heita Álvaro Andrés Fernandez og  Inma Verdú Sánches. Hún er frá Alicante og hann frá Bilbao á Spáni og þau lærðu matreiðslu í Baskalandi.

„Við hittumst um sumarið á Flateyri þar sem við unnum saman á spænskum veitingastað og urðum virkilega góðir vinir eftir ævintýralega gönguferð yfir Hornstrandir. Mjög fljótlega komumst við að því að við deildum sömu ástríðu eins og ævintýrum, náttúrunni og auðvitað matarást,“ segir Jenný þegar hún er spurð út í samstarf þeirra vina. 

Á Flateyri komust þau að því að þau gætu uppfyllt draum þeirra allra sem var að opna eigin veitingastað. Eftir pælingar og spjall við fjölskyldu Viktors sem eru eigendur hótelsins í Garðinum varð sú hugmynd ofan á að fara í byggingaframkvæmdir fyrir veitingastaðinn.

„Við vorum til í að byggja en ekki reka veitingastaðinn. Þau voru til í það og úr varð að við skelltum okkur í framkvæmdir sem hafa staðið yfir síðustu mánuði. Við erum auðvitað mjög ánægð að fá veitingastað á hótelið sem gerir það enn eftirsóknarverðara,“ segir Gísli Heiðarsson, einn eigenda Lighthouse Inn en það var opnað árið 2017. 

Stopp í fluginu

Flugaparið Jenný og Viktor missti atvinnuna í heimsfaraldri en Jenný var rétt rúmlega tvítug þegar hún hóf störf sem flugmaður hjá Ice-landair og Viktor unnusti hennar átti víst starf sem flugmaður hjá félaginu rétt áður en heimsfaraldur skall á.  

„Við vorum búin að sækja um fullt af störfum í kjölfar atvinnumissisins en ekkert gekk. Úr varð að við ákváðum að fara í nám í Lýðheilsuskólann á Flateyri en á veitingastaðnum Vagninum þar í bær  kynntumst við Spánverjunum,“ segir Jenný en hún og Viktor unnusti hennar munu til að byrja með vera á fullu í rekstri staðarins með vinum sínum. 

Ritstjóri Víkurfrétta fékk að smakka á nokkrum réttum El Faro sem eru spænsk-íslenskir. Matreiðslan er spænsk, þ.e. með suðrænu ívafi en hráefnið er íslenskt. Smakkaður var þorskur og hæg eldaðar nautakinnar sem voru ljúffengir réttir en líka fleira gott, m.a. mjög góðir Tapas réttir sem eru vinsælir á Spáni.

 Óhætt er að segja að El Faro (vitinn) eigi alla möguleika á því að „skína“ skært í veitingastaðaflóru Reykjaness. Eftir að ljósin slokknuðu á Veitingahúsinu Vitanum í Sandgerði fyrir ekki svo löngu síðan er El Faro eini veitingastaðurinn í Suðurnesjabæ.

Vinskapur á Flateyri

Saga vinanna frá Suðurnesjum og Spáni er mjög áhugaverð og við vildum fá að vita aðeins meira um hana. Jenný jánkar því og segir okkur söguna hvernig þetta gerðist allt og þetta nýja ævintýri þeirra, að reka saman veitingastað.

„Alvaro kom til Íslands fyrir u.þ.b. tíu árum í fyrsta sinn í heimsókn þar sem frændi hans er búsettur hér á landi. Hann heillaðist af landinu og eftir að hafa kynnst Inmu konunni sinni í einum þekktasta kokkaskóla á Spáni í Baskalandi eins og í sannri ástarsögu þá hafa þau farið víða og starfað saman sem kokkar víðsvegar um heim, t.d. á Tenerife, í Edinborg og Póllandi svo eitthvað sé nefnt. Alvaro langaði alltaf að koma aftur  til Íslands og Inma var mjög spennt að kynnast Íslandi líka svo þau ákváðu að koma hingað í leit að vinnu. Degi eftir komuna til landsins fengu þau vinnu á Snaps í Reykjavík. Fljótlega skall Covid-19 á og þau misstu bæði vinnuna þar.

Þeim bauðst í framhaldinu tækifæri á að taka við eldhúsinu á Vagninum á Flateyri tímabundið yfir sumarið 2021 sem þau gerðu, þar sem þau heilluðust af Vestfjörðunum fögru og langaði að kanna þá vel. Þau hafa mjög gaman af ferðalögum og útivist og eiga t.d risastóran bíl sem kemst upp á hálendi Íslands og þau geta gist aftur í. Það var reyndar meira unnið en ferðast þetta sumarið þar sem að þau sáu ein síns liðs um eldhúsvaktina á Vagninum og stóðu sig eins og hetjur. Maturinn vakti mikla lukku og þau tóku mest á móti 110 manns í mat eitt kvöldið þrátt fyrir að allt sé eldað frá grunni, t.d. brauð, sósur og kökur.“

Hugmyndin á Hornströndum

Jenný segir að hún og Viktor hafi ákváðið að eyða sumrinu fyrir vestan eftir Lýðskóladvölina og störfuðum þau m.a. á Vagninum þetta sumarið. 

„Þar kynntumst við öðlingunum Alvaro og Inmu. Með hverjum deginum styrktust vináttuböndin og í lok sumars skelltum við okkur saman í nokkurra daga gönguferð með allt á bakinu um náttúruparadísina Hornstrandir. Þar lentum við í nokkrum áskorunum, t.d. það slæmu veðri að sterka útivistartjaldið okkar brotnaði. Við eyddum þessum dögum saman og sáum enn betur hversu vel við unnum saman sem lið. Í ferðinni ræddum við saman um heima og geima og fæddist þá hugmyndin um El Faro. 

Við komumst að því að fyrir utan sameiginleg áhugamál áttum við öll sameiginlegan draum um að opna veitingastað sem bauð upp á eitthvað öðruvísi heldur en vanalegt er hér á landi. Að nýta íslenskt hágæða hráefni og bjóða upp á suðræna matarupplifun, huggulega stemningu og vinalega þjónustu.“ 

Hinn fullkomni staður 

Jenný og Viktori er það hjartfólgið að búa eitthvað til í þeirra heimabæ, Garðinum eða Suðurnesjabæ svo að það var strax hugmyndin að fá kokkana, spænsku vinina, í Garðinn. 

„Hótelið hjá tengdapabba og bræðrum var hinn fullkomni staður fyrir nýjan veitingastað, hlýlegt fjölskyldurekið bjálkahótel með fallegu útsýni. Þá var hafist handa að byggja og hefur El Faro teymið og Light-house Inn teymið unnið hörðum höndum að opnun þessa nýja veitingastaðar síðustu mánuði. Allt frá byggingavinnu, byggingu nýs rýmis í veitingasal og eldhúsi yfir í teikningar og hönnun iðnaðareldhúss og veitingastaðar. Þá höfum við lagt áherslu á að reyna að gera sem mest sjálf.“

Góð ráð frá góðu fólki

„Við fjórir eigendur El Faro erum öll nýgræðingar í rekstri svo við höfum sótt okkur ráð frá góðu fólki, t.d. Gísla tengdapabba og góðu fólki í bransanum sem hefur gert þetta lengi. Til dæmis tóku til hjónin Sigurður Gíslason, landsliðskokkur og Berlind Sigmarsdóttir eigendur GOTT í Vestmannaeyjum afskaplega vel á móti okkur og gáfu okkur fjölmörg góð ráð. Þá hefur Völundur Snær Völundarsson, kokkur, og Þóra Sigurðardóttir kona hans en Völli kenndi okkur á Flateyri og mynduðust vinabönd þar. Öll þessi hjálp hefur verið algjörlega ómetanleg og erum við þeim og öllu því góða fólki í kringum okkur afar þaklát.“ 

Bros eftir góðan mat

El Faro verður til að byrja með opinn frá miðvikudegi til sunnudags kl. 18 til 22 en draumur eigendanna er að geta haft opið alla daga í framtíðinni. Veitingastaðurinn tekur um rúmlega 60 manns í sæti en svo er einnig barsvæði og lounge þar sem hentugt er að henda sér í Tapas og bjór. Einnig verður alvöru kaffi í boði og kaffiveitingar. Þá verður hamingjustund (happy hour) kl. 16-18 þar sem í boði verða líka léttir réttir og um helgar verður spænskur dögurður kl. 12-15. Formleg opnun staðarins verður föstudaginn 29. apríl. 

„Við vonum að gestir okkar fari alltaf heim með góða tilfinningu og bros á vör eftir að hafa fengið góðan mat og drykk hjá okkur á El Faro. Ekki skemmir stórkostlegt umhverfi Garðskaga,“ segir Jenný María.

elfarorestaurant.is

Lighthouse Inn hótelið við Garðskaga. Veitingastaðurinn fremst til vinstri.