Aðsent

Að missa tökin
Aðsend grein frá Sindra Kristni Ólafssyni
Þriðjudagur 29. nóvember 2016 kl. 06:00

Að missa tökin

Sindri heiti ég Ólafsson, bý í Keflavík og æfi fótbolta með Keflavík. Ég byrjaði að æfa körfubolta með Keflavík þegar ég flutti hingað sem sagt 8 ára gamall og byrjaði síðan í fótbolta um það bil tveimur árum seinna. Það var góðvinur minn, hann Guðlaugur Guðberg, sem dró mig á æfingu því ég var svo góður í marki í frímínútunum í Myllubakkaskóla. Jú ég mætti á æfingu og heillaðist um leið af þessari íþrótt og þjálfarinn vildi að ég myndi halda áfram að mæta á æfingar sem ég gerði. Þannig að ég stundaði báðar íþróttirnar af krafti og fannst mjög gaman að þessu öllu.

Seint um veturinn 2009 (5. flokkur eldri) var ég harður á því að hætta að æfa fótbolta og byrja bara að æfa körfubolta vegna þess mér fannst ekki gaman lengur í fótbolta. Mamma sagði að ég réði þessu alveg en ég þyrfti að klára að æfa út mánuðinn þar sem hann karl faðir minn var búinn að borga æfingagjöldin þennan mánuðinn. Ég sagði bara þá það þó að ég hefði engan áhuga á að mæta enda tók ég upp á því að fara ekkert á æfingarnar, fór frekar að gera eitthvað allt annað. Ég man vel eftir því að mamma skammaði mig smá fyrir þetta og við ræddum lengi saman og hún stakk upp á því að tala við Unnar þjálfara um þetta og ég samþykkti það. Á einhvern ótrúlegan hátt náði Unnar að plata mig í að halda áfram í fótbolta en hef ég aldrei þakkað honum almennilega fyrir það. Á þessum tíma var hann bara að biðja einhvern ágætan leikmann halda áfram en í dag á ég honum mikið að þakka, fyrir að hafa haft trú á mér og haldið mér inni í þessari íþrótt sem ég elska og lifi fyrir í dag.

Tímabilið 2015 var furðulegt tímabil. Það kom hollenskur markvörður til okkar sem heitir Richard Arend, gjörsamlega frábær náungi. Ég var 18 ára og var varamarkvörður auðvitað. Það gekk ekkert sérstaklega vel í byrjun tímabils hjá okkur og þjálfarinn okkar var látinn fara og nýir tóku við. Ég fékk sénsinn strax í fyrsta leik hjá nýjum þjálfurum, ótrúlegt en satt unnum við leikinn 3-1 sem var virkilega gaman. Ég hélt áfram að fá að spila og já það gekk nokkuð vel en samt ekkert frábærlega.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Það fór þannig að ég spilaði restina af tímabilinu og gekk mér ágætlega en liðið féll því miður með tilþrifum og 1. deildin beið okkar að ári. Ég var síðan valinn í U-19 ára landsliðið fyrir undankeppni EM og spilaði ég alla 3 leikina í keppninni og spilaði ágætlega. Sem sagt frábært ár fyrir mig í fótboltanum og bara bjartir tímar framundan og nýr þjálfari var ráðinn.

Síðan rann árið 2016 upp og Keflavík fékk til sín markmann frá HK, Beiti Ólafsson, sem er einn besti náungi sem ég hef kynnst og frábær markmaður. Ég spilaði mikið í janúar og allt gekk vel en spilatíminn fór minnkandi þegar leið á árið og ekki leið á löngu áður en Íslandsmótið var byrjað. Ég var markmaður númer tvö hjá Keflavík en á þeirri stundu trúði ég svo heitt innra með mér að ég gæti greitt úr þeirri flækju og unnið þessa samkeppni. Ég reyndi hvað ég gat. Tilboð kom frá öðru liði um að koma og fá að spila alla leiki fyrir það félag og langaði mig að hoppa strax á það og voru mínir nánustu mér fullkomlega sammála að þetta væri gott skref. Ég fylltist spennu og tilhlökkun og vonaðist eftir tækifærinu. Þegar ég frétti að þessu yrði hafnað af Keflavík brotnaði ég gjörsamlega og fór í svo ranga átt í lífinu. Ég varð pirraður úti Keflavík, félagið sem ég elskaði út af lífinu og fannst það hafa brugðist mér.

Ég lét svona lítinn hlut breyta mér til hins verra eg fór að venja mig á slæma hluti, svo sem svefnvenjur og fór að borða illa og sýndi ekki jafn mikinn áhuga og áður. Auðvitað kom það bara í bakið á mér þar sem ég fór að standa mig illa á æfingum, spila illa með 2. flokk og fór að líða mjög illa utan fótboltans. Engin tækifæri komu og allt í blússandi mínus og margir farnir að efast um mig, sjálfstraustið farið og ekkert gekk upp. Ég var að láta fólk út í bæ hafa áhrif á mig vegna þess að þeim fannst að ég ætti að vera í markinu sem var að sjálfsögðu bölvað kjaftæði þar sem ég átti ekki neitt skilið að vera í markinu.

Ég skammast mín stundum fyrir að viðurkenna það en ég grét oft eins og lítið barn á kvöldin og fannst ég vera vonlaus og að ég væri bara ekki lengur með þetta. Eysteinn þjálfari talaði við mig eftir einn leikinn og tjáði mér af hverju ég væri ekki að fá sénsinn. Ég ætla ekkert að fela það en ég gat ekki komið upp einu orði, ég var svo miður mín. Eysteinn á inni hjá mér miklar þakkir fyrir það að hafa hjálpað mér með þetta tímabil.

Loks var tímabilið búið og settist ég þá niður með fjölskyldunni minni og umboðsmanni og við ræddum málin í bak og fyrir um það hvað hefði farið úrskeiðis á þessu tímabili. Jú, allir aðilar voru sammála um að ég þyrfti að laga það hvernig ég færi með mig og þyrfti nauðsynlega að hafa betri rútínu og hugsa betur um mig. Mér var gerð fyllilega grein fyrir því að ef ég ætlaði að halda áfram í þessu sporti þá þyrfti að gefa miklu meira púður í þetta.

Sama hversu illa þér gengur eða vonlaus þér finnst þú vera haltu áfram, sama hversu ömurlega þér gengur á æfingu eða hversu illa þessi vika, mánuður eða ár hefur gengið  drullastu á lappir og haltu áfram. Ef þú ert ekki á réttri braut þá er tímabært að fara á rétta braut og fara að hugsa vel um sig. Ekki hlusta á það sem einhver úti í bæ segir eða bara það sem þig langar til að heyra.

Tilgangur minn með þessum pistli eða sögu er eingöngu til að koma því á framfæri að allt getur snúist á hvolf og þú ert skyndilega komin/n á botninn veist ekkert hvað gerðist en þú þarft að halda áfram og trúa á sjálfan þig og vita hvað þú ert góð/ur og ekki gefast upp á sjálfum þér og muna að grasið er ekki alltaf grænna hinu megin.

Sindri Kristinn Ólafsson
Keflavík