Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Aðsent

Þrjár flugur með einum vagni
Föstudagur 5. mars 2021 kl. 11:17

Þrjár flugur með einum vagni

Í síðustu viku bárust fregnir. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur til skoðunar að styðja við rekstur flugrútunnar og ferðir hennar milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Tvö fyrirtæki reka flugrútu sem stendur, Kynnisferðir og AirportDirect, en eins og gefur að skilja gengur reksturinn brösuglega í faraldrinum. Ríkisstjórnin hefur þegar stutt við rekstur fyrirtækjanna nokkuð myndarlega á síðustu misserum, Kynnisferðir hafa t.a.m. fengið rúmlega 200 milljónir króna úr ríkissjóði til að segja upp starfsfólkinu sínu, og nú vill ríkisstjórnin bæta um betur.

Mig langar að færa umræðuna strax upp úr þessum hjólförum. Það er nefnilega til betri leið.

Eins og Suðurnesjamenn vita þá liggja samgöngur milli flugvallarins og höfuðborgarsvæðisins ekki alveg niðri, þó að tilteknir einkaaðilar tengdir fjármálaráðherra sjái sér ekki fært að halda úti flugrútu. Leið 55 gengur nefnilega enn á vegum Strætó milli BSÍ og Keflavíkurvallar, með viðkomu í Reykjanesbæ, oft á dag. En þar má sannarlega gera betur!

Hagkvæmara og jákvæðara

Stjórnvöldum væri miklu nær að styðja myndarlega við þessa almannaþjónustu fremur en að setja enn fleiri milljónir í einkafyrirtæki. Með því væri til að mynda hægt að fjölga ferðum á leið 55 og í leiðinni væri hægt að aka henni alveg upp að flugstöðinni. Ekki aðeins yrði það hagkvæmara, heldur myndi það efla mikilvæga þjónustu sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið umhverfis flugvöllinn á þann hátt sem frekari fjáraustur í Kynnisferðir gerir ekki.

Fjárfesting í strætó hefur það fram yfir fjárstuðning við flugrútuna að hún eflir almenningssamgöngur fyrir íbúa Suðurnesja – sérstaklega þann stóra hóp sem sækir vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðinu. Fólk á að geta búið þar sem það vill og mikilvægur liður í því eru tryggar og reglulegar almenningssamgöngur. Núna er kjörið tækifæri fyrir ríkisstjórnina að styðja þá þróun og því hlýtur að þurfa að skoða málið af fullri alvöru.

Prófsteinn á stóru orðin

Ég er þó ekkert sérstaklega vongóður um það, sé litið til þess hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram við Suðurnesin til þessa. Núna er hins vegar rétta tækifærið. Við getum slegið þrjár flugur í einu höggi – með einum vagni. Með því að liðka fyrir strætósamgöngum frá flugstöðinni getum við stutt við endurreisn ferðaþjónustunnar, náð fram grænum markmiðum okkar og eflt Suðurnesin – en til þess þarf ríkisstjórnin að koma sér upp úr hjólförunum.

Viðspyrna efnahags og samfélags eftir Covid-faraldurinn þarf að byggja á grænum og réttlátum lausnum. Samgöngur við Keflavíkurflugvöll eru fjarri því stærsti þátturinn í uppbyggingunni sem framundan er, en þær eru ákveðinn prófsteinn á það hvort ríkisstjórninni sé alvara þegar hún boðar græna uppbyggingu. Verður sá valkostur tekinn að niðurgreiða rútuferðir sem nýtast fáum, eða með því að styrkja almenningssamgöngur sem gagnast öllum – og sérstaklega nágrönnum flugvallarins?

Andrés Ingi Jónsson,
þingmaður Pírata.