Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson í Grindavík
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, boðaði komu sína í bækistöðvar björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í dag og var honum tekið með virktum og boðið upp á kaffiveitingar eftir að hafa fræðst betur um eldgosið en aftur var opnað fyrir almenning að gosstöðvunum í dag.
Guðni fór yfir aðal tilgang heimsóknarinnar. „Ég vildi mæta og kasta kveðju á fólkið sem stendur hér í ströngu en björgunarsveitin Þorbjörn og þær björgunasveitir sem hafa komið að þessum málum, hafa staðið sig gríðarlega vel, ásamt lögreglufólki og fólki sem sinnir hjálp í viðlögum. Gosið mallar áfram og búið er að opna fyrir almenning að gera sér ferð og skoða. Langflestir láta í ljós þakklæti fyrir að björgunarsveitarfólk, landverðir og aðrir á vettvangi, stýri málum. Fólk ber auðvitað ábyrgð á sjálfu sér en það er gott að taka við leiðbeiningum og lúta skynsamlegum tilmælum.
Mér finnst líka mjög gott að geta komið hingað og hitt fólkið sem er virkilega með puttann á púlsinum, ég lærði heilmargt af þessari heimsókn. Það er mjög flott kortið sem er búið að gera af svæðinu, þar sést hvar fyrri gosin tvö komu upp og hvert hraunið flæddi. Fróðlegt að heyra spár þessa fólks um hvert hraunið muni fara ef það dregst á langinn, ég er ríkari maður eftir þessa heimsókn.
Við eigum að vera þakklát fyrir hve fjarri mannabyggðum þetta gos er. Ég var í Vestmannaeyjum á dögunum, þar var þess minnst að hálf öld er liðin síðan gaus þar og við minnt á hamfararnir sem fylgja ef gos er ofan í byggð. Við erum þakklát fyrir að þetta gos er fjarri Grindavík, fjarri Vogum og ef fólk sýnir skynsemi og aðgát, getur þetta gos mallað og verið áminning um ægimátt náttúruaflanna en um leið getum við notið þess sem þetta land hefur upp á að bjóða. Erlendir ferðamenn flykkjast til landsins til að sjá þetta náttúruundur en ég brýni fyrir fólki að fara varlega.
Ég er á leiðinni í frí á morgun til Kanada og verð í tvær vikur, ef gosið verður ennþá í gangi þegar ég kem til baka geri ég ráð fyrir að gera mér ferð, annað hvort labbandi eða á hjólinu mínu,“ sagði Guðni Th. að lokum.