Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Fréttir

Hilmar Pétursson jarðsunginn
Frá útför Hilmars Péturssonar frá Keflavíkurkirkju. VF-mynd: Hilmar Bragi
Mánudagur 15. maí 2023 kl. 22:00

Hilmar Pétursson jarðsunginn

Útför Hilmars Péturssonar, fasteignasala og bæjarfulltrúa í Keflavík, var gerð frá Keflavíkurkirkju mánudaginn 15. maí. Hilmar lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu á Nesvöllum í Reykjanesbæ 2. maí síðastliðinn, 96 ára gamall.
Séra Hjörtur Magni Jóhannsson jarðsöng. Organisti var Gunnar Gunnarsson. Karlaraddir Fríkirkjunnar sungu og Hlöðver Sigurðsson söng einsöng. Umsjón útfarar var í höndum Útfararstofu Suðurnesja. Félagar úr Oddfellowstúkunni Nirði stóðu heiðursvörð og báru kistu Hilmars, en hann var stofnfélagi og síðar yfirmeistari í Oddfellowstúkunni Nirði.

Hilmar fæddist á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd í Skagafirði 1926 og var elstur fimm systkina. Hann sótti sína fyrstu skólagöngu í Skagafirði og fór svo í Héraðsskólann á Laugarvatni, eldri deild, áður en hann sótti nám í Samvinnuskólanum í Reykjavík sem hann lauk árið 1947.

Viðreisn
Viðreisn

Hilmar vann í vegavinnu og á sjó sem ungur maður. Hann flutti til Keflavíkur og varð skrifstofumaður hjá Keflavíkurbæ 1948 og síðar bæjargjaldkeri árið 1953. Hann var skattstjóri í Keflavík í sex ár, 1956 til 1962. Hann stofnaði Fasteignasöluna og rak hana með Bjarna F. Halldórssyni árin 1963 til 1989 en næsta áratuginn á eftir með Ásdísi eiginkonu sinni þar til hann hætti störfum 1999. Hilmar vann lengi samhliða við bókhald og skattframtalsaðstoð og hætti því ekki fyrr en árið 2009.

Hilmar var duglegur félagsmálamaður í Keflavík. Á tuttugu árum í bæjarstjórn Keflavíkur, þar sem hann var oddviti Framsóknarflokksins í sextán ár, var hann formaður bæjarráðs 1974 til 1984. Hann var heiðursfélagi í Málfundafélaginu Faxa, var stofnfélagi og síðar formaður í Lionsklúbbi Keflavíkur og stofnfélagi og síðar yfirmeistari í Oddfellowstúkunni Nirði.

Hilmar og Ásdís Jónsdóttir kona hans eignuðust tvo syni, Jón Bjarna sem lést 2007 og Pétur Kristinn.