Fréttir

HS Orka eykur framleiðslugetu á Reykjanesi um 22 MW
Albert Albertsson tekur fyrstu skóflustunguna. VF-myndir: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 20. desember 2022 kl. 11:39

HS Orka eykur framleiðslugetu á Reykjanesi um 22 MW

HS Orka hefur hafið vinnu við stækkun orkuversins í Svartsengi. Í orkuverinu verður ein framleiðslueining sem mun koma í stað nokkurra eldri véla og búnaðar. Með að nýta gufu sem áður fór í eldri vélar eykst framleiðslugetan og viðhalds- og framleiðslukostnaður lækkar. Þá er gert ráð fyrir því að með stækkuninni verði hægt að ná betri nýtingu úr auðlindinni í Svartsengi í framtíðinni.

Öll tilskilin leyfi hafa fengist fyrir stækkuninni og kom það í hlut Alberts Albertssonar að taka fyrstu skóflustunguna ásamt verktökunum. Albert er hugmyndasmiður Auðlindagarðsins sem hefur það markmið að draga úr sóun og fullnýta allt það sem fellur til við jarðhitavinnslu fyrirtækisins. Þá hefur Albert komið að uppbyggingu allra hluta virkjunarinnar í Svartsengi. Framleiðsluaukningin í Svartsengi er fengin með betri nýtingu á núverandi upptekt úr jarðhitageyminum og því við hæfi að Albert tæki fyrstu skóflustunguna. Eftir stækkun mun framleiðslugeta orkuversins í Svartsengi verða 85 MW.

SSS
SSS

Fjármögnun tryggð

HS Orka hefur tryggt 61,9 milljón dollara fjármögnun frá núverandi lánveitendum til verkefnisins. Þá munu hluthafar HS Orku leggja til viðbótarfjármögnun til að styðja við stækkunina. Fjármögnun verkefnisins undirstrikar það traust sem bæði lánastofnanir og hluthafar hafa á fyrirtækinu og þau verkefni sem það vinnur að til að auka framboð raforku á Íslandi til að mæta þörfum markaðarins.

„Við erum mjög spennt fyrir því að hefja stækkun á virkjuninni í Svartsengi í beinum framhaldi af því að klára stækkun virkjunarinnar á Reykjanesi. Bæði verkefnin ná vel utan um markmið HS Orku um að nýta sem best þær auðlindir sem okkur er treyst fyrir þar sem við erum að auka raforkuframleiðslu inná raforkukerfið án þess að fara inná ný svæði, sem dregur úr áhættu og kostnaði,“ segir Tómas Sigurðsson, forstjóri HS Orku.

Um HS Orku

HS Orka var stofnað 1974 og hefur verið leiðandi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku alla tíð. Nýsköpun hefur alltaf verið hluti af kjarna fyrirtækisins sem sést best á Auðlindagarðinum, þar sem áherslan er á að nýta affalsstrauma frá virkjunum sem auðlind. HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi auk 9,9 MW rennslisvirkjunar í Biskupstungum.