Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn

Fréttir

Njarðvíkuræðin að hluta í jörð til að verjast hraunrennsli
Mánudagur 22. janúar 2024 kl. 14:35

Njarðvíkuræðin að hluta í jörð til að verjast hraunrennsli

Framkvæmdir við að grafa hluta af svokallaðri Njarðvíkuræð í jörð ganga vel, en Njarðvíkuræðin er heitavatnslögnin sem liggur frá orkuverinu í Svartsengi til Reykjanesbæjar. Lögnin fæðir stærstan hluta byggðar á Suðurnesjum með heitu vatni. Verkið er liður í vörnum mikilvægra innviða gegn yfirvofandi náttúruvá á Reykjanesi og hófust framkvæmdir skömmu fyrir áramót. Reynslan af hraunrennsli við Grindavík sýnir að neðanjarðarlagnir geta þolað álagið af heitu hrauni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Orku.

Eykur afhendingaröryggi heita vatnsins 

Líkt og gerð varnargarðanna við Grindavík og Svartsengi eru framkvæmdir við Njarðvíkuræðina á vegum Almannavarna. Framkvæmdasvið HS Orku tók verkið að sér undir stjórn Sigmundar Bjarka Egilssonar, verkefnisstjóra, sem segir að verkinu miði vel. Samkvæmt hraunflæðilíkönum af svæðinu eru taldar líkur á að hraun ógni lögninni á hluta leiðarinnar frá Svartsengi og því var mikilvægt að bregðast við og huga að vörnum. 

SSS
SSS

Sigmundur Bjarki segir ýmsar leiðir hafa verið ígrundaðar til að verja þennan mikilvæga innvið og auka afhendingaröryggi heita vatnsins: „Þegar ráðist var í þá aðgerð að setja upp varnargarða umhverfis Svartsengi var ljóst að ef kæmi til hraunrennslis þá færi það hraun yfir hluta heitavatnspípunnar sem liggur að Reykjanesbæ. Fyrst komu upp hugmyndir um að fergja lögnina en eftir nánari skoðun var það ekki talið ráðlegt því sú aðgerð myndi skemma lögnina. Því var ákveðið að leggja nýja lögn í jörð á 1200 metra kafla þar sem mesta hættan er talin á hraunrennsli.“ 

Horft til lagnanna undir hrauni við Grindavík 

Pípurnar eru lagðar á um tveggja metra dýpi en að öðru leyti eru engar sérstakar ráðstafanir gerðar til að verja þær mögulegum hita. En munu pípurnar þá þola að sjóðandi hraun renni á yfirborðinu rétt ofan við þær? Sigmundur Bjarki er bjartsýnn: „Já, við teljum að lögnin muni þola það og því til staðfestinga þá horfum við til þess hvernig vatnslagnir meðfram Grindavíkurvegi virðast hafa haldið í hraunrennslinu við Grindavík þann 14. janúar. Það gefur okkur vonir um að þessar varnaraðgerðir muni reynast vel ef til kastanna kemur.“ 

Búið er að grafa um helminginn af 1200 metra löngum skurðinum og eru pípur komnar niður í um helminginn af honum. Suðuvinna fer fram samhliða greftrinum og jafnframt verður byrjað að plasta samskeyti í vikunni. Einnig er eitthvað af klöpp sem þarf að fleyga. Áætlað er að verkinu verði lokið um mánaðamótin febrúar og mars en allt er gert til þess að flýta framkvæmdum eins og hægt er. 

Ekki sjálfgefið að verktakar geti stokkið til með stuttum fyrirvara 

Ætla má að um fimmtán manns komi að verkinu í það heila en auk mannafla frá HS Orku eru það verktakafyrirtækin Ellert Skúla, Framtak, Jón og Margeir og Freyðing sem sjá um framkvæmdir. Sigmundur Bjarki segir að ráðist hafi verið í verkið með skömmum fyrirvara og menn hafi brugðist hratt og vel við: „Ég vil fyrst og fremst þakka öllum sem hafa komið að þessu verki. Það er ekki sjálfgefið að hlaupa til og taka svona verk að sér sem þarf að vinnast hratt. Einnig ber að þakka öllum byrgjum, sem hafa aðstoðað okkur við að finna til allt efnið sem þarf í svona verk og þar vil ég nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Norðurorku og röra- og lagnafyrirtækið SET.“