Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Fréttir

  • Tvö ný hús rifin fyrir hótel
    Hér er búið að rífa Bakkaveg 17 á Berginu í Keflavík.
  • Tvö ný hús rifin fyrir hótel
    Þessi bygging frá árinu 2000 hefur verið rifin. Mynd úr götusjá já.is.
Föstudagur 14. október 2016 kl. 10:25

Tvö ný hús rifin fyrir hótel

Tvö svokölluð „Kanadahús“ sem risu á Berginu árið 2000 hafa verið rifin. Hótel rís í stað húsanna.

Það vakti athygli þegar Bakkavegur 19 var rifinn fyrir nokkrum misserum. Húsið, um 300 fermetrar á tveimur hæðum, var rifið. Grind þess var varðveitt en annað fór á haugana. Í framhaldinu var síðan ráðist í byggingu hótels á lóðinni.

Í þessari viku var svo Bakkavegur 17 rifinn. Hann var, eins og húsið á nr. 19, stórt og myndarlegt íbúðarhús sem síðustu ár hefur verið rekið sem hótel en byggt hafði verið við húsið fyrir nokkrum árum.

Húsið að Bakkavegi 17 var orðið að tengibyggingu á milli tveggja hótelbygginga og því fengu eigendur leyfi til að rífa húsið og byggja nýja og hentugri tengingu á milli hótelhlutanna.

Þá er fyrirhugað að inngangur að hótelinu verði norðan við húsið þannig að öll umferð verður á bakvið bygginguna sem á að draga úr ónæði af umferð efst á Bakkaveginum.

Nýbygging Hótel Bergs sem risin er á Bakkavegi 19.



Horft til framkvæmdarinnar yfir smábátahöfnina í Gróf. VF-mynd: hilmarbragi

Bakkavegur 17 og 19 áður en framkvæmdir hófust. Báðar þessar byggingar hafa í dag verið rifnar. Mynd úr götusjá já.is.