Félögin stjórni þessu sjálf
Of margir útlendingar í körfunni eða fullkomin staða? Níundi hluti.
Fjöldi útlendinga í íslenskum körfuknattleik hafa verið til umfjöllunar í Víkurfréttum og í dag er komið að næsta viðmælanda.
Bryndís Gunnlaugsdóttir frá Grindavík er í nokkuð stóru hlutverki í þáttunum Grindavík sem voru nýlega sýndir á Stöð 2 Sport. Hún var aðstoðarþjálfari hjá kvennaliði Grindavíkur á síðasta tímabili en tók sér pásu þar sem hún var að fjölga mannkyninu.

„Ég hlæ að því að gæðin séu ekki meiri í dag en um aldamótin, alla vega í kvennakörfunni sem ég þekki betur, þau eru miklu meiri. Ég hef verið með puttana í kvennastarfinu undanfarna áratugi og fullyrði að gæðin séu miklu meiri þar með tilkomu fleiri útlendinga og eins eru stelpur og konur lengur að spila í dag. Þ.e.a.s. íslensku leikmennirnir eru mun betri. Gæðin eru orðin það mikil að mér finnst æskilegt að fjórtán til fimmtán ára stelpur séu almennt ekki að spila í úrvalsdeildinni, hraðinn er orðinn svo mikill og meiri harka. Ég held að það sé betra fyrir unga leikmenn að fá að þroskast í yngri flokkum, leyfum börnum bara að vera börn.
Varðandi útlendinga finnst mér ekki sanngjarnt að við Íslendingar ætlum að hafa takmörk á fjölda Evrópubúa á sama tíma og við viljum að okkar bestu leikmenn geti notið þess að leika í Evrópu sem atvinnumenn. Ég er alls ekki tilbúin að hefta komu Evrópufólks til Íslands, hvort sem það eru Evrópubúar á almennum vinnumarkaði hér á Íslandi eða eru atvinnufólk í körfuknattleik. Félögin verða einfaldlega að fá að stjórna þessu en svo er spurning hvort það þurfi ekki meiri áherslu á öflugt unglingastarf. Ef það ætti að taka upp reglu þá væri það frekar að setja skilyrði um uppalda leikmenn inn á vellinum, þ.e. "home grown" leikmenn. Með "home grown" reglum er ekki horft á ríkisborgararétt heldur eingöngu á hvort leikmaðurinn hafi farið í gegnum yngri flokka starf á Íslandi. Ísland er fjölþjóðlegt samfélag og við þurfum að aðlaga okkur að því og neyða fólk ekki í að taka upp íslenskan ríkisborgararétt eingöngu til að geta spilað körfuknattleik sér til gamans. Ef ég fengi að ráða þessu sjálf þá ættu félögin að gera þetta eins og þau telja henta sér best og ef fólk er ósátt við stefnu síns félags þá er einfaldlega hægt að bjóða sig fram í stjórn og taka þátt í starfinu. En ég væri líka til í að taka upp leyfiskerfi í efstu og 1. deild karla og kvenna. Leyfiskerfið gæti falið í sér að lið í efstu deildum yrðu að vera með fjármálin í lagi, halda úti liði í bæði mfl. karla og mfl.kvenna ásamt því að vera með öflugt yngri flokka starf. Þannig gætum við tryggt að lið geta ekki dælt peningum í erlenda leikmenn til að kaupa sér einskiptis titil á kostnað uppbyggingar. Staða félaga er mjög mismunandi, við vitum hversu erfiðlega liðum út á landi gengur að fá íslenska leikmenn til liðs við sig, þessi lið verða að fá að vera með í baráttunni og ef þetta er eina leiðin fyrir þau, þ.e. að vera með útlendinga í liðinu, þá eiga þau að fá að stjórna því sjálf. Aðalatriðið er bara að félögin hafi efni á því sem þau eru að gera og það bitni ekki á barna- og unglingastarfinu,“ segir Bryndís.
Viðtal við Jón Ragnar Magnússon
Viðtal við Jón Halldór Eðvaldsson
Viðtal Draupni Dan Baldvinsson
Viðtal við Elvar Má Friðriksson
Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson

