Íþróttir

Glæsilegt Evrópumót í Njarðvík
Það voru engin smá átök í LJónagryfjunni um helgina. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 13. september 2023 kl. 06:20

Glæsilegt Evrópumót í Njarðvík

Massi beðinn um að halda heimsmeistaramót að ári

Massi, kraftlyftingadeild Njarðvíkur, hélt glæsilegt Evrópumót um síðustu helgi þar sem 101 keppendur tóku þátt. Með þjálfurum og öðru fylgdarliði mættu 160 manns á mótið, þeirra á meðal voru forsetar IPF [International Powerlifting Federation] og EPF [European Powerlifting Federation].

Eftir mót var lokahóf haldið á Ránni þar sem verðlaun og viðurkenningar voru veittar. Á hófinu voru Ellert Björn Ómarsson og Guðlaug Olsen frá Massa kölluð upp og þeim afhentar viðurkenningar og miklar þakkir fyrir virkilega vel skipulagt mót en umgjörð og skipulag mótsins þótti á heimsmælikvarða.

Ellert Björn og Guðlaug fengu mikið hrós fyrir skipulag mótsins.

„Þau voru það ánægð með okkur að við vorum beðin um að halda heimsmeistaramót að ári. Það er mikill heiður og í raun risastórt. Til marks um það þá kemur Eurosport til landsins og streymir beint frá mótinu. Þetta er þriðja stórmótið sem við höldum en við erum búin að halda eitt Norðurlandamót og tvö Evrópumeistaramót. Heimsmeistaramót væri því skemmtileg viðbót. Við Ellert erum að hugsa málið,“ sagði Guðlaug í samtali við Víkurfréttir.

Þóra Kristín Hjaltadóttir úr Massa tekur á honum stóra sínum en hún stóð sig vel á mótinu.

Myndasafn Jóhanns Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, frá lokadegi mótsins er að finna neðst á síðunni og viðtal við Ellert Björn Ómarsson, formann Massa, verður í Suðurnesjamagasíni sem fer í loftið á föstudag.

Evrópumeistaramót í kraftlyftingum | 10. september 2023