Góður gangur í Leirunni
Rekstur Golfklúbbs Suðurnesja gekk vel á árinu og var hagnaður 24 milljónir króna. Ólöf Kristín Sveinsdóttir var endurkjörin formaður.
Golfsumarið var ekki það besta með tilliti til veðurs og því var þátttaka minni í mótum en árið á undan en þá náði hún hæstu hæðum en Covid spilaði talsvert inn í það.
Ný inniaðstaða er að opna í gömlu slökkvistöðinni í Keflavík og þar hafa sjálfboðaliðar einnig spilað stórt hlutverk í að koma aðstöðunni upp. Þar verður nýr golfhermir en einnig verður hægt verður að slá í net af þrem mottum, púttaðstaða ásamt kaffistofu. Aðstaða fyrir félagsmenn í GS mun því batna verulega með opnun þessarar aðstöðu. Á árinu var margvísleg aðstaða í Leiru bætt og 4 nýir golfbílar bættust í þjónustu klúbbsins.
Kylfingar ársins voru valin þau Fjóla Margrét Viðarsdóttir og Logi Sigurðsson en þau stóðu sig mjög vel í mótum þeirra bestu á árinu. Fjóla varð bæði Íslandsmeistari og holumeistari í flokki 14 ára og yngri og Logi vann sinn fyrsta meistaratitil GS.
Á fundinum afhenti Ragnhildur Skúladóttir, fulltrúi frá ÍSÍ, Ólöfu Kristínu Sveinsdóttur viðurkenningu fyrirmyndarfélags ÍSÍ. Golfklúbbur Suðurnesja er þá kominn í hóp íþróttafélaga sem bera þennan gæðastimpil.