ÍRB vann Aldurflokkameistaramótið í sundi með yfirburðum
ÍRB vann Aldursflokkameistaramótið í sundi með nokkrum yfirburðum en mótið var haldið á Akureyri um síðustu helgi. Mótið hefur verið haldið árlega fyrir sundmenn yngri en sautján ára en nú verður gerð breyting á. Þetta er síðasta mótið með þessu fyrirkomulagi en framvegis verður það fyrir fjórtán ára og yngri.
„Að baki svona árangri liggur mikil vinna þeirra sem koma að þjálfuninni, aðstandenda og íþróttamannanna,“ að sögn Steindórs Gunnarssonar, yfirþjálfara en í þjálfarateymi með honum eru þeir Eðvarð Þór Eðvarðsson og Þröstur Bjarnason en mikil ánægja hefur verið með störf þeirra félaga.
Lokastaðan var: ÍRB 976 stig, SH 815 stig og Breiðablik 671 stig. Þetta er í tólfta skipti sem ÍRB vinnur AMÍ en félagið var stofnað árið 2001 þegar sunddeildir Njarðvíkur og Keflavíkur sameinuðust. Að þessu sinni tóku 40 sundmenn þátt í mótinu.
Helstu punktar helgarinnar:
- Árni Þór Pálmason varð stigahæstur í sveinaflokki ellefu til tólf ára
- Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir varð stigahæst í telpnaflokki þrettán til fjórtán ára
- Sunneva Bermann Ásbjörnsdóttir hlaut einnig Ólafsbikarinn fyrir bestan árangur í langsundum.
Um 250 sundmenn eru við æfingar hjá ÍRB og alltaf pláss fyrir fleiri. Steindór segist vera mjög ánægður með starfið í vetur: „Við höfum á að skipa mjög góðum og hæfum þjálfurum sem ná vel til barnanna og sundmenn sem vilja leggja mikið á sig til að ná árangri.“
Nýir möguleikar opnast með tilkomu sundlaugar í Stapaskóla og vonandi bætist í okkar góða hóp sundmanna með aðstöðu sem er í hverfi sem er stöðugt að stækka.
„Með þessu móti er skrítnu tímabili að ljúka sem hefur reynt mikið á þjálfara, foreldra og sundmenn. Oft hefur þurft að byrja upp á nýtt og endurhugsa æfingarnar þegar sundlaugum var lokað, krakkarnir eiga hrós skilið fyrir að hafa haldið sér í formi þegar æfingar duttu niður í sundlauginni, þeir lögðu metnað í að gera æfingarnar heima algjörlega á eigin ábyrgð sem er síðan að skila sér í þessum frábæra árangri á þessum móti,“ sagði Steindór að lokum.
Fjölmargar glæsilegar ljósmyndir Jóns Hilmarssonar frá mótinu er að sjá í myndasafni neðst í fréttinni