Íþróttir

Íslenskur ríkisborgararéttur fyrir erlenda íþróttamenn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 15. febrúar 2025 kl. 20:00

Íslenskur ríkisborgararéttur fyrir erlenda íþróttamenn

Of margir útlendingar í körfunni eða fullkomin staða? Sjötti hluti.

Fjöldi útlendinga í íslenskum körfuknattleik hafa verið til umfjöllunar í Víkurfréttum og í dag er komið að næsta viðmælanda. 
Nokkrir erlendir leikmenn á Íslandi hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt og sumir þeirra fengu flýtimeðferð með þeim rökum að þeir myndu nýtast íslenska landsliðinu í körfuknattleik. Sem betur fer hafa flestir þessara leikmanna staðið við sitt og leikið talsvert með íslenska landsliðinu en því miður eru dæmi um að viðkomandi leikmaður hafi passað sig á að standa sig örugglega ekki vel í sínu fyrsta (og eina) landsliðsverkefni, til að vera ekki valinn aftur. Einn leikmaður þakkaði varla fyrir sig þegar íslenska vegabréfið var í höfn og ætlaði meira að segja að rukka félagið vegna kostnaðar við gerð vegabréfsins, u.þ.b. sjö þúsund krónur. Þessi leikmaður átti farsælan feril í mun stærri deildum en sú íslenska er og gat þénað mun meiri pening út á íslenska vegabréfið. Líklega er best að vera ekki að nafngreina umræddan leikmann.

Brenton Birmingham er gott dæmi um hversu miklu þetta skilaði því ekki nóg með að Brenton hafi leikið talsvert fyrir íslenska landsliðið, heldur settist hann hér að eftir að hafa kynnst íslenskri konu sem í dag er eiginkona hans og eiga þau þrjú börn saman.

Brenton vill sjá breyttan hugsunarhátt styrktaraðila.

„Það er mjög mikill munur á laununum í íslensku deildinni í dag eða þegar ég kom hingað fyrst. Í þá daga voru flest liðin með svipað mikið fjármagn að spila úr og íslenskir leikmenn voru yfirleitt ekki að elta launatékkann, heldur völdu lið sem hentaði þeim út frá leikstíl eða þeim langaði einfaldlega að spila fyrir viðkomandi félag. Í dag eru bestu félögin þau sem eru með flesta íslenska landsliðsmenn, Valsmenn eru gott dæmi undanfarin ár en þeir hafa verið í miklum meiðslum í vetur, KR var óstöðvandi fyrir nokkrum árum. Stjarnan fékk nokkra mjög öfluga Íslendinga sem voru að spila í Evrópu fyrir þetta tímabil og út af hverju vildu þeir koma og spila á Íslandi, af því að þeir eru að fá meira borgað hér en þar sem þeir voru. Það eru venjulega liðin með besta íslenska kjarnann sem ná bestum árangri því þau eru með öfluga íslenska leikmenn í lykilhlutverkum og geta fyllt í stöðurnar sem vantar, með góðum erlendum leikmönnum.

Njarðvíkingar voru greinilega öruggir með að vinna bikarinn árið 2005.

Ég var um tíma í stjórn hjá Njarðvík og við vorum að reyna fá bestu íslensku leikmennina og töldum okkur vera bjóða góða samninga en komumst ekki nálægt því sem ríkustu liðin voru að bjóða. Þess vegna tel ég vera gott að hin liðin geti styrkt sig með erlendum atvinnumönnum, deildin hefur líklega aldrei verið svona jöfn eins og núna. Það eru tíu lið sem munu berjast um að komast í úrslitakeppnina og öll telja þau sig eiga möguleika á að verða Íslandsmeistari. Ef að liðin gætu ekki teflt fram svo mörgum erlendum atvinnumönnum þá væru ekki eins mörg lið að keppa um þetta, það er augljóst.“ 

Hugsunarvilla?

„Kannski erum við ekki að hugsa hlutina rétt og styrktaraðilarnir ættu kannski að spyrja sig hvert þeir vilji að styrkurinn fari. Ég myndi vilja sjá okkur leggja mun meiri rækt við unglingaþjálfunina. Hvernig ölum við upp betri leikmenn? Með því að leggja meiri metnað í þjálfunina. Ég vildi fara út í unglingaþjálfun fyrir nokkrum árum, vildi vera til aðstoðar en launin sem voru í boði voru svo hlægilega lág að ég gat ekki réttlætt að taka ekki aukavaktir í dagvinnunni. Þarna gat viðkomandi félag fengið fyrrum atvinnumann og íslenskan landsliðsmann, með mikla þekkingu á leiknum en það var ekki til peningur til að borga sómasamleg laun fyrir. Hvernig væri að snúa þessu við, fá virkilega hæfa og góða þjálfara og auka þar með líkurnar á að góðir leikmenn verði búnir til, í stað þess að eyða öllu til að freista þess að vinna titilinn NÚNA? Og umhverfið fyrir unga og efnilega íslenska leikmenn er ekki beint gott, það er ótrúlegt að unglingalandsliðskrakkar þurfi að borga rúma hálfa milljón til að geta keppt fyrir Íslands hönd. Við hljótum að geta gert betur en þetta.

Brenton átti flottan feril með háskólaliði X.

Þú vildir tala við mig af því að ég er Bandaríkjamaður sem fékk íslenskan ríkisborgararétt og fékk hann fyrr en eftir tilskilin sjö ár. Ég var mjög þakklátur fyrir þetta á sínum tíma, ég fékk tækifæri í Frakklandi en ég lenti í erfiðum bakmeiðslum og var því fljótlega kominn aftur til Íslands og ég kunni það vel við mig hér, kynntist konunni minni og eftir að ég jafnaði mig á bakmeiðslunum hentaði mér best að spila með Njarðvík og svo skipti ég yfir til Grindavíkur aftur. Auðvitað eru ekki allir Bandaríkjamenn eða útlendingar sem fá ríkisborgararétt, að fara setjast hér að en ég var það heppinn að kynnast ástinni hér og er mjög ánægður á Íslandi. Ég menntaði mig sem flugumferðarstjóri, hef mjög gaman af því starfi svo ég er búinn að vera heppinn í mínu lífi, hef alltaf unnið við það sem ég hef áhuga á. 

Hvað varðar fjölda útlendinga í deildinni ætla ég ekki að tjá mig um það, félögin einfaldlega stjórna þessu en ég myndi vilja sjá þau leggja meiri rækt við unglingastarfið. Liðin sem ala upp bestu íslensku leikmennina og eru með þá í sínu liði, eru alltaf líklegri til að ná árangri. Þór Þorlákshöfn er gott dæmi, þegar þeir unnu Íslandsmeistaratitilinn árið 2021 var kjölfestan góðir íslenskir leikmenn. Ég sá Styrmi t.d. fá sénsinn þegar hann var u.þ.b. sextán ára gamall, Friðrik Ingi var að þjálfa liðið og Styrmir fékk að gera sín mistök og maður sá strax að þarna færi mjög efnilegur leikmaður. Þórsarar sáu það líka, létu hann spila og það skilaði heldur betur góðum ávexti árið 2021. Þetta er leiðin sem öll lið ættu að fara en á meðan takmarkið er eingöngu að vinna titilinn STRAX, er hætt við því að lítið muni breytast,“ segir Brenton.

Viðtal við Guðjón Skúlason

Viðtal við Jón Ragnar Magnússon

Viðtal við Jón Halldór Eðvaldsson

Viðtal Draupni Dan Baldvinsson

Viðtal við Elvar Má Friðriksson