Samkaup
Samkaup

Íþróttir

Íþróttir fyrir alla – Allir saman!
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 12. mars 2021 kl. 08:20

Íþróttir fyrir alla – Allir saman!

Íþróttafélögin Keflavík og Njarðvík hafa tekið sig saman og bjóða nú sameiginlega upp á námskeið fyrir börn með mismunandi stuðningsþarfir. Víkurfréttir spjölluðu við íþróttastjóra félaganna, þau Hjördísi Baldursdóttur (Keflavík) og Hámund Örn Helgason (Njarðvík), og spurðum út í samstarfið.

Íþróttastjórar – nýjar stöður á vegum Reykjanesbæjar

Stöður íþróttastjóra eru nýjar af nálinni hjá félögunum en Reykjanesbær styrkir þau um eitt stöðugildi hvort til að sinna þessu starfi – en hvert er verksvið íþróttastjóranna?

„Það er voðalega vítt,“ segir Hámundur Örn. „Við reynum að gera eins mikið gagn og við getum, eins og að bæta samstarf við bæinn. Þetta samstarf á milli félagana í þessu verkefni „Íþróttir fyrir börn með mismunandi stuðningsþarfir“ kemur í framhaldi af því góðu samstarfi sem hófst með Allir með!“

„Já, verkefnið Allir með! sem var hleypt af stokkunum síðasta sumar hefur einmitt orðið til þess að tenging milli félaganna og við Reykjanesbæ hefur aukist, sem er bara mjög gott,“ bætir Hjördís við. „Við tókum bæði við þessum störfum í apríl og það hefur svakalega margt gerst á þessu eina ári.“

Æfingar fyrir börn með mismunandi stuðningsþarfir fer vel af stað segja þau Hámundur Örn og Hjördís en skráning á námskeiðin hefur gengið framar vonum.

„Þegar við fórum af stað áttum við von á u.þ.b. tíu krökkum, þau skráðu sig fimmtán í byrjun og tólf mættu á fyrstu æfingu sem fóru öll brosandi heim,“ segir Hámundur Örn. „Við fengum mjög góða þjálfara í þetta, bæði með reynslu af því að vinna með börnum með mismunandi stuðningsþarfir og góða þjálfarareynslu.“

„Yfirskriftin er körfubolti og fótbolti en svo erum við líka með þrautabrautir,“ segir Hjördís. „Við mætum hverjum og einum iðkanda á hans forsendum.“

„Já, ef þau vilja bara vera í fótbolta eða bara vera í körfubolta þá mætum við þeim þar,“ segir Hámundur Örn sem er menntaður íþróttafræðingur og einn þjálfara námskeiðsins. Aðrir þjálfarar eru þau Eygló Alexandersdóttir, þroskaþjálfi og körfuboltaþjálfari hjá UMFN, Bjartur Logi Kristinsson, stuðningsfulltrúi í Ösp, Sólrún Sigvaldadóttir, yfirþjálfari yngri flokka kvenna í knattspyrnu hjá Keflavík og Þröstur Leó Jóhannsson, leikmaður og þjálfari í körfubolta hjá Keflavík.

– Á hvaða aldri eru þessi börn?

„Þau eru sex til þrettán ára,“ svara Hjördís. „Það er viðmiðið en við erum ekki ströng á aldrinum. Þetta er verkefni sem fór af stað frá Special Olympic, styrkt af Norway Grant og barst til okkar frá KSÍ. Þá voru þeir að koma þessu áleiðis frá Íþróttasambandi fatlaðra og við gripum bara boltann í sameiningu og ákváðum að gera þetta saman fyrir börn í Reykjanesbæ – og í raun bara hvaðan sem er. Sem dæmi erum við að fá barn úr Þorlákshöfn.“

– Eru þetta börn sem hafa ekki verið í íþróttum áður?

„Það er allur gangur á því held ég, þau hafa mögulega prófað íþróttir sem eru í boði en ekki passað fyrir þau af einhverjum ástæðum. Þannig að þetta er fyrir alla en markhópurinn er sérstaklega börn með mismunandi stuðningsþarfir,“ segir Hámundur Örn. „Körfubolti og fótbolti henta t.d. ekki öllum, hér mæta mögulega börn sem ráða illa við að vera í stærri hópum. Það er svo mikill fjöldi á almennum æfingum og sumum börnum hentar betur að fá meiri einstaklingsþjálfun og þarna fá þau það. Eins og á fyrstu æfingu var einn sem vildi mest vera í körfu og þá var þjálfari með honum í körfu, að æfa allskonar einstaklingsæfingar.“

Hámundur Örn og Hjördís segja bæði að samstarf félaganna hafi gengið einstaklega vel, íþróttastjórarnir ganga saman í takt.

Mismunandi þörfum mætt

Hjördís segir að tvær mæður hafi verið í sambandi við Reykjanesbæ vegna þess að þeim fannst vanta námskeið fyrir börn með sérþarfir. Þær voru í sambandi við fimleikadeildina um að fá leigðan salinn hjá þeim en fimleikadeildin setti sjálf upp svona æfingar fyrir börn með mismunandi stuðningsþarfir. „Það er ennþá í gangi og er vel sótt. Það er vitundavakning að verða í þessum málum og Reykjanesbær er í raun frumkvöðull á þessu sviði á landsvísu.“

„Þetta er auðvitað unnið í samstarfi við Nes og Íþróttasamband fatlaðra. ÍF vill að stóru íþróttafélögin, eins og í þessu tilfelli Njarðvík og Keflavík, hætti að benda einungis á íþróttafélög fatlaðra þegar það kemur að því að bjóða upp á æfingar fyrir þennan hóp barna,“ bætir Hámundur Örn við. „Við erum sammála þessu og hjá okkur eru æfðar flestar greinar svo það er tiltölulega auðvelt fyrir félögin að bæta þessu við þó það þurfi fleiri þjálfara til að geta mætt börnunum á einstaklingsmiðuðum grundvelli.“

Hjördís bendir á að í verkefni sem þessu eru félögin sterk saman og þetta samstarf geti lagt undirstöðurnar að frekara samstarfi þegar fram líða stundir. „Samstarf okkar Hámundar hefur verið til fyrirmyndar og gengið mjög vel. Svo er þetta líka hagur Reykjanesbæjar – þetta er allra hagur.“

Samstarf íþróttafélaganna í Reykjanesbæ lofar góðu fyrir framhaldið – alla vega skemmtu börnin sér vel á æfingu og allir fóru brosandi heim.


Fjölmargt að gerast í íþrótta- og tómstundamálum bæjarbúa

Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar, segir það hafa verið happaráðningu þegar Hjördís og Hámundur voru ráðin í störf íþróttastjóra Keflavíkur og Njarðvíkur.

„Við höfum verið að styðja mun betur við við Keflavík og Njarðvík, gerðum samstarfssamninga við félögin sem gerði okkur kleift að ráða Hjördísi og Hámund sem íþróttastjóra. Þetta voru algerar happaráðningar og ég hefði aldrei trúað hvað þetta hefur haft mikla þýðingu fyrir samstarf Reykjanesbæjar við félögin.

Forsaga þessa máls er sú að móðir barns sem þarf stuðning leituði til okkar þegar verkefnið Allir með! fór af stað og spurði hvort þetta ætti ekki að vera Allir með?

Nú, við fórum af stað með málið og ég kannaði hvernig væri staðið að þessu hjá kollegum mínum í öðrum sveitarfélögum en það virðist vera afskaplega lítilfjörleg starfsemi í gangi til að koma til móts við börn mér mismunandi stuðningsþarfir.

Starfsemi NES íþróttafélags fatlaðra er öflug en stóru íþróttafélögin hafa ekki verið að sinna þessum hópi og þ.a.l. er ég er mjög ánægður með þetta frumkvæði sem íþróttafélögin Keflavík og Njarðvík hafa sýnt í viðleitni sinni til að sinna þessum hópi – við eigum að sinna þessum hópi og það hefur ekki verið gert nógu vel hingað til. Fimleikadeildin reið á vaðið í fyrra með svona námskeið sem hefur gengið mjög vel.“

Reykjanesbær stendur í fjölmörgum verkefnum sem snúa að íþrótta- og tómstundamálum enda er bærinn Heilsueflandi samfélag. Verið er að skipuleggja ævintýrasmiðjur í sumar fyrir börn með mismundandi stuðningsþarfir í tengslum við vinnuskólann og þá er Skjólið, frístund fyrir börn með greiningar, að veita börnum með sér þarfir mun betri þjónustu en áður.

„Ekki má gleyma að frítt er í sund fyrir börn yngri en átján ára og hefur verið síðan í janúar á síðasta ári, sem spilar mjög vel með Heilsueflandi samfélagi,“ segir Hafþór.

Heilsuefling fyrir alla

„Við erum mjög stolt af því starfi sem þar fer fram í Virkjun; ballskák fyrir eldri borgara, svo eru að koma þangað píluspjöld, þarna er Flugmódelklúbbur, Bridgeklúbbur og ýmis önnur starfsemi. Það væri að æra óstöðugan að telja allt upp það sem fer fram í Virkjun. Við þurfum að standa vörð um þetta mikilvæga starf sem fer fram þar.“

Fjölmörg önnur verkefni eru á teikniborðinu hjá íþrótta- og tómstundafulltrúanum. Verið er að undirbúa lokafrágang á gervigrasvelli við Reykjaneshöllina þar sem verður sett vetrarbraut utan um völlinn og hann flóðlýstur. „Grasið er komið,“ segir Hafþór; „og væntanlega verður hann tilbúinn í maí.

Samþætting skólastarfs við íþrótta- og tómstundastarf mun skipta miklu máli fyrir foreldra en verkefnið miðar m.a. að því að aka börnum í 1.-4. bekk úr frístundaheimilinum í hið kröftuga íþrótta- og tómstundastarf sem boðið er upp á í Reykjanesbæ. segir Hafþór Barði að lokum.

Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar.