Íþróttir

Krafan er titlar - með öllum ráðum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 16. febrúar 2025 kl. 20:00

Krafan er titlar - með öllum ráðum

Of margir útlendingar í körfunni eða fullkomin staða? Áttundi hluti.

Fjöldi útlendinga í íslenskum körfuknattleik hafa verið til umfjöllunar í Víkurfréttum og í dag er komið að næsta viðmælanda. 
Birgir Már Bragason er nýtekinn við sem framkvæmdastjóri Keflavíkur íþróttafélags en þar áður hafði hann farið allan hringinn nánast með körfuknattleiksdeild Keflavíkur, allt frá því að vera lukkudýrið yfir í að vera formaður deildarinnar. Hjá Keflvíkingum er þetta ósköp einfalt.

„Karfan í Keflavík einfaldlega þekkir ekki neitt annað en að keppt sé um titla og þær leiðir eru farnar að því takmarki, sem í boði eru. Ef að við þurfum að fylla liðið okkar af útlendingum til að vera samkeppnishæfir, þá einfaldlega gerum við það. Ég sé ekki muninn á því að keyptir séu fjórir íslenskir landsliðsmenn eða fjórir útlendingar, við búum jú á landi sem styðst við EES-samninginn og það þýðir að það er frjálst flæði vinnuafls. Á meðan KKÍ er ekki með neinar reglur um þessa hluti þá einfaldlega gerum við þetta svona til að hámarka líkur okkar á að vinna titla. 

Ég man auðvitað þann tíma þegar við fórum í Laugardalshöllina í bikarúrslit og vorum með Jonathan Bow sem okkar eina útlending, allir aðrir Keflvíkingar. Ég held að stemningin og stuðið á þeim leik hafi ekki verið neitt meira en í fyrra þegar við mættum fylktu liði í höllina. Á enda dagsins snýst þetta bara um árangur, það vilja allir vera með þegar vorið rennur upp með úrslitakeppninni og þá snýst þetta bara um að vera með samkeppnishæft lið.

Að sjálfsögðu myndi ég sem Keflvíkingur fram í fingurgóma, vilja sjá fleiri Keflvíkinga í karlaliðinu en sem betur fer hefur alltaf verið mjög góð uppspretta kvennamegin og þeir sem stýra málum í körfunni þurfa hugsanlega að spyrja sig út af hverju enginn keflvískur karlleikmaður hefur skilað sér í A-landsliðið í ansi langan tíma. Á sama tíma erum við með nokkra Keflvíkinga erlendis núna í verkefni með A-landsliðinu. Reyndar eru núna þrír bráðefnilegir keflvískir strákar í úrtakshópi U-18 landsliðsins en hver ástæðan fyrir að ekki fleiri hafa skilað sér undanfarin ár, er góð spurning. Voru kröfurnar á þjálfara stráka megin minni því keflvískar stelpur hafa alltaf skilað sér í bunkum upp unglingastarfið? Gæti verið að karfan missi bestu íþróttastrákana yfir í knattspyrnu? Oft ræður för hjá krökkum hvernig gengið er í meistaraflokki, knattspyrnan hefur ekki verið að raka inn titlum karlamegin svo varla er það skýringin. Kannski sjá strákar fyrir sér meiri möguleika á atvinnumennsku ef þeir velja fótbolta. Á sama tíma skila fleiri stelpur sér yfir í körfuna, þar hefur jú verið góður árangur í áraraðir á meðan kvennalið Keflavíkur í knattspyrnu hefur gengið upp og ofan. Það er endalaust hægt að velta þessu öllu fyrir sér en hver ástæðan er fyrir að Keflvíkingar hafa ekki skilað sér upp í meistaraflokk karla í körfunni og virkilega látið að sér kveða, treysti ég mér ekki til að segja til um. Það eina sem forvígisfólk körfunnar og þeirra sem stýra unglingastarfinu geta gert, bara reyna gera ennþá betur. Í því felst að vera með þjálfunina á eins háu „level“ og hugsast getur. Það er kannski eitt sem ég vil koma inn á, ég myndi vilja sjá unglingastarfið og meistaraflokksstarfið tala meira og betur saman en gert er í dag. Í mínum huga ætti formaður unglingaráðs að vera í stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur svo viðkomandi geti látið rödd unglingastarfsins óma við háborðið. Formenn meistaraflokks karla og kvenna ættu að geta fengið frá fyrstu hendi hvernig starfið gangi og hvort ungir og efnilegir leikmenn séu á leiðinni. Unglingastarfið myndi hugsanlega vilja sýna metnað með því að halda metnaðarfullar æfingabúðir þar sem þekktir þjálfarar væru fengnir til að kenna börnum og unglingum. Þetta gæti hugsanlega kostað en ætti ekki stjórnin að geta litið á það sem góða fjárfestingu til framtíðar og með því slíku samstarfi myndu líkur aukast á að búnir séu til leikmenn sem myndu skila sér upp í meistaraflokkana? Ég skil alveg að stuðningsmenn vilji líka sjá sitt heimafólk í leikjum meistaraflokkanna, ef svona samstarf unglingaráðs og stjórnar körfuknattleiksdeildar yrði tekið upp, er það bjargföst trú mín að líkurnar myndu aukast til muna á að góðir leikmenn skili sér upp úr unglingastarfinu. Það hlýtur að vera markmið unglingaráðs og er væntanlega ósk meistaraflokkanna, svokallað „win, win“ hefur líklega aldrei átt betur við.

Biggi var geysilega efnilegur leikmaður á sínum yngri árum.

Við erum búnir að ræða þessi útlendingamál núna í dágóðan tíma og höfum báðir farið tvo hringi, erum eins og áttaviltir í maraþonhlaupi! Það eru svo margar hliðar á þessu og hægt að sjá kosti og galla með öllum leiðum. Með því að takmarka fjölda útlendinga, erum við dæma landsbyggðarliðin úr leik, með því að gera hitt eða þetta þá erum við að stíga á tærnar á þessum aðila, það er ekki hægt að finna eina lausn sem hentar öllum. Það versta sem við gerum er að hræra í regluverkinu á tveggja ára fresti og ég set spurningamerki við að félögin taki þessa ákvörðun, KKÍ á bara að taka þessa ákvörðun, sambandið hlýtur að geta dregið að borðinu málsmetandi fólk sem metur hvað er best fyrir heildarhagsmuni körfuknattleiks á Íslandi. Á enda dagsins á þetta líklega að snúast um það,“ segir Birgir Már.

Viðtal við Guðjón Skúlason

Viðtal við Jón Ragnar Magnússon

Viðtal við Jón Halldór Eðvaldsson

Viðtal Draupni Dan Baldvinsson

Viðtal við Elvar Má Friðriksson

Viðtal við Brenton Birmingham

Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson

Biggi missir ekki af mörgum leikjum.

Fyrsta hlutverk Bigga í störfum fyrir keflvíska íþróttahreyfingu, að leika lukkudýrið Kela.