Íþróttir

Ljónynjurnar einum sigri frá Íslandsmeistaratitli
Aliyah Collier var frábær og gerði hvorki fleiri né færri en 38 stig í kvöld auk þess að taka 20 fráköst og með þrjú varin skot. Alger yfirburðarmanneskja á vellinum með 44 framlagspunkta. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 25. apríl 2022 kl. 21:17

Ljónynjurnar einum sigri frá Íslandsmeistaratitli

Þriðji leikur Njarðvíkur og Hauka í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik fór fram á Ásvöllum í kvöld. Njarðvíkingar gerðu í annað sinn góða ferð í fjörðinn og unnu sannfærandi níu stiga sigur, 69:78. Liðin mætast aftur á fimmtudag og þá í Ljónagryfjunni en þá geta Ljónynjurnar landað Íslandsmeistaratitlinum á heimavelli.

Haukar - Njarðvík 69:78

(19:18, 16:22, 15:21, 19:17)

Fyrsti leikhluti var algerlega stál í stál og framan af öðrum leikhluta ríkti algert jafnræði á með liðunum en þá komust Haukar í fimm stiga forystu (31:26). Þá hrukku Njarðvíkingar í gang og sneru dæminu við, komust yfir og leiddu með fimm stigum í hálfleik (35:40).

Í fyrri hluta þriðja leikhluta hélt Njarðvík forystu en Haukar minnkuðu muninn og komust einu stigi yfir (50:49), það hleypti illu blóði í Ljónynjurnar sem lokuðu vörninni, skoruðu tólf stig í röð og leiddu leikinn með ellefu stigum fyrir síðasta leikhluta (50:61). Haukar gerðu harða atlögu að Njarðvíkingum í fjórða leikhluta, náðu tvívegis að minnka muninn í þrjú stig en gestirnir voru ekki á þeim buxunum að missa niður unninn leik og Njarðvík bætti öðrum sigri í sarpinn. Njarðvíkingar eru því í kjörstöðu til að landa Íslandsmeistaratitlinum á fimmtudag í fjórða leik liðanna en tíu ár eru síðan fyrsti og eini Íslandsmeistaratitill þeirra í efstu deild kvenna vannst.

Ætli Vilborg Jónsdóttir, fyrirliði Njarðvíkinga, lyfti Íslandsmeistarabikarnum í Ljónagryfjunni á fimmtudag.

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 38/20 fráköst/3 varin skot, Lavína Joao Gomes De Silva 17/7 fráköst, Vilborg Jonsdottir 8/4 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 6, Helena  Rafnsdóttir  4, Diane Diéné Oumou 3/5 fráköst, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 2, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Þuríður Birna Björnsdóttir Debes 0, Jóhanna Lilja Pálsdóttir 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.

Tengdar fréttir