Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Íþróttir

Njarðvíkingar höfðu betur í Suðurnesjaslag
Aliyah A'taeya Collier var frábær í sigri Njarðvíkinga, var með 28 stig, tók ellefu fráköst og gaf átta stoðsendingar. VF-mynd úr leik liðanna fyrr á leiktíðinni.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 26. janúar 2022 kl. 21:51

Njarðvíkingar höfðu betur í Suðurnesjaslag

Keflavík tapaði heima

Suðurnesjaliðin þrjú léku öll í Subway-deild kvenna í körfunattleik í kvöld. Nýliðar Grindavíkur og Njarðvíkur öttu kappi í hörkuleik í Grindavík þar sem gestirnir höfðu fjögurra stiga sigur að lokum, 67:71. Keflvíkingar tóku á móti Haukum og biðu lægri hlut fyrir þeim, 80:72.

Grindavík - Njarðvík 67:71

(16:19, 15:13, 12:19, 24:20)

Leikur liðanna var mjög jafn og ekki að sjá að þar færu lið sem eru á sitthvorum enda deildarinnar. Njarðvík í næstefsta sæti en Grindavík í því næstneðsta.

Eftir jafnan fyrsta leikhluta leiddi Njarðvík með þremur stigum(16:19) en Grindvíkingar minnkuðu muninn í eitt stig í hálfleik (31:32).

Toyota stórsýning 25
Toyota stórsýning 25

Grindvíkingar byrjuðu seinni hálfleik betur og náðu tveggja stiga forystu með þristi frá Edyta Ewa Falenzcyk. Natalía Jenný Lukic Jónsdóttir stal síðan boltanum og jók forskotið í fjögur stig, 36:32. Njarðvíkingar náðu góðri rispu í stöðunni 39:35, skoruðu ellefu stig án þess að Grindavík næði að svara og breyttu stöðunni í 39:46. Fyrir síðasta fjórðung hafði Njarðvík náð þægilegu forskoti, eða átta stigum (43:51).

Grindavík keyrði á Njarðvík í síðasta leikhlutanum og náði að komast einu stigi frá þeim (58:59) en lengra komust þær ekki og Njarðvík jók forystuna. Leiknum lauk svo með fjögurra stiga sigri Njarðvíkinga sem eru efstar í deildinni, jafnar Fjölni að stigum.

Frammistaða Grindvíkinga: Edyta Ewa Falenzcyk 19, Robbi Ryan 17/5 fráköst/10 stoðsendingar, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 9/7 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir 7, Anna Margrét Lucic Jónsdóttir 5, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 5/7 fráköst, Arna Sif Elíasdóttir 3, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 2, Sigurbjörg Eiríksdóttir 0, Sædís Gunnarsdóttir 0.

Frammistaða Njarðvíkinga: Aliyah A'taeya Collier 28/11 fráköst/8 stoðsendingar, Diane Diéné Oumou 14/14 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 12/8 fráköst/5 stoðsendingar, Vilborg Jonsdottir 8/4 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Helena  Rafnsdóttir  2, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 2, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Eva María Lúðvíksdóttir 0, Þuríður Birna Björnsdóttir 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.


Agnes María Svansdóttir stendur í ströngu þegar liðin mættust síðasta haust í Blue-höllinni. Agnes fór fyrir liði Keflavíkur með fjórtán stig og sex fráköst.

Keflavík - Haukar 72:80

(18:18, 19:22, 17:14, 18:26)

Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi en það voru Haukar sem byrjuðu betur, þær náðu tíu stiga forystu í fyrsta leikhluta (1:10) en þá fóru Keflvíkingar í gang og höfðu jafnað fyrir lok leikhlutans (18:18). Annar leikhluti sveiflaðist leikurinn fyrst með Keflvíkingum sem náðu að komast átta stigum fram úr Hafnfirðingum um miðjan fjórðunginn (33:25), síðan kom slagsíða á Keflavíkurskútuna og Haukar sneru taflinu sér í vil fyrir hálfleik (37:40).

Aftur náði Keflavík forystu í þriðja leikhluta með því að skora tíu fyrstu stigin í seinni hálfleiknum (47:40). Haukar náðu sér aftur á strik og út leikhlutann voru þær yfirleitt hænuskrefinu á eftir Keflavík. Að lokum fór svo allt var jafnt fyrir síðasta leikhluta (54:54) en þar reyndust gestirnir sterkari og höfðu að lokum átta stiga sigur (72:80).

Frammistaða Keflvíkinga: Agnes María Svansdóttir 14/6 fráköst, Tunde Kilin 12/5 fráköst, Daniela Wallen Morillo 10/11 fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir 10, Eygló Kristín Óskarsdóttir 9/5 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 8, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 4, Anna Lára Vignisdóttir 3, Ólöf Rún Óladóttir 2, Anna Þrúður Auðunsdóttir 0, Ásthildur Eva H. Olsen 0, Gígja Guðjónsdóttir 0.

Tengdar fréttir