Njarðvíkingar höfðu betur í Suðurnesjaslag
Keflavík tapaði heima
Suðurnesjaliðin þrjú léku öll í Subway-deild kvenna í körfunattleik í kvöld. Nýliðar Grindavíkur og Njarðvíkur öttu kappi í hörkuleik í Grindavík þar sem gestirnir höfðu fjögurra stiga sigur að lokum, 67:71. Keflvíkingar tóku á móti Haukum og biðu lægri hlut fyrir þeim, 80:72.
Grindavík - Njarðvík 67:71
(16:19, 15:13, 12:19, 24:20)
Leikur liðanna var mjög jafn og ekki að sjá að þar færu lið sem eru á sitthvorum enda deildarinnar. Njarðvík í næstefsta sæti en Grindavík í því næstneðsta.
Eftir jafnan fyrsta leikhluta leiddi Njarðvík með þremur stigum(16:19) en Grindvíkingar minnkuðu muninn í eitt stig í hálfleik (31:32).
Grindvíkingar byrjuðu seinni hálfleik betur og náðu tveggja stiga forystu með þristi frá Edyta Ewa Falenzcyk. Natalía Jenný Lukic Jónsdóttir stal síðan boltanum og jók forskotið í fjögur stig, 36:32. Njarðvíkingar náðu góðri rispu í stöðunni 39:35, skoruðu ellefu stig án þess að Grindavík næði að svara og breyttu stöðunni í 39:46. Fyrir síðasta fjórðung hafði Njarðvík náð þægilegu forskoti, eða átta stigum (43:51).
Grindavík keyrði á Njarðvík í síðasta leikhlutanum og náði að komast einu stigi frá þeim (58:59) en lengra komust þær ekki og Njarðvík jók forystuna. Leiknum lauk svo með fjögurra stiga sigri Njarðvíkinga sem eru efstar í deildinni, jafnar Fjölni að stigum.
Frammistaða Grindvíkinga: Edyta Ewa Falenzcyk 19, Robbi Ryan 17/5 fráköst/10 stoðsendingar, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 9/7 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir 7, Anna Margrét Lucic Jónsdóttir 5, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 5/7 fráköst, Arna Sif Elíasdóttir 3, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 2, Sigurbjörg Eiríksdóttir 0, Sædís Gunnarsdóttir 0.
Frammistaða Njarðvíkinga: Aliyah A'taeya Collier 28/11 fráköst/8 stoðsendingar, Diane Diéné Oumou 14/14 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 12/8 fráköst/5 stoðsendingar, Vilborg Jonsdottir 8/4 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Helena Rafnsdóttir 2, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 2, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Eva María Lúðvíksdóttir 0, Þuríður Birna Björnsdóttir 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.
Keflavík - Haukar 72:80
(18:18, 19:22, 17:14, 18:26)
Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi en það voru Haukar sem byrjuðu betur, þær náðu tíu stiga forystu í fyrsta leikhluta (1:10) en þá fóru Keflvíkingar í gang og höfðu jafnað fyrir lok leikhlutans (18:18). Annar leikhluti sveiflaðist leikurinn fyrst með Keflvíkingum sem náðu að komast átta stigum fram úr Hafnfirðingum um miðjan fjórðunginn (33:25), síðan kom slagsíða á Keflavíkurskútuna og Haukar sneru taflinu sér í vil fyrir hálfleik (37:40).
Aftur náði Keflavík forystu í þriðja leikhluta með því að skora tíu fyrstu stigin í seinni hálfleiknum (47:40). Haukar náðu sér aftur á strik og út leikhlutann voru þær yfirleitt hænuskrefinu á eftir Keflavík. Að lokum fór svo allt var jafnt fyrir síðasta leikhluta (54:54) en þar reyndust gestirnir sterkari og höfðu að lokum átta stiga sigur (72:80).
Frammistaða Keflvíkinga: Agnes María Svansdóttir 14/6 fráköst, Tunde Kilin 12/5 fráköst, Daniela Wallen Morillo 10/11 fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir 10, Eygló Kristín Óskarsdóttir 9/5 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 8, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 4, Anna Lára Vignisdóttir 3, Ólöf Rún Óladóttir 2, Anna Þrúður Auðunsdóttir 0, Ásthildur Eva H. Olsen 0, Gígja Guðjónsdóttir 0.