Íþróttir

Njarðvík í annað sæti eftir sigur á Þór
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 21. janúar 2022 kl. 09:09

Njarðvík í annað sæti eftir sigur á Þór

Njarðvík sýndi klærnar í seinni hálfleik þegar þeir tóku á móti Þór frá Akureyri í Subway-deild karla í gær og lönduðu flottum sigri sem kom þeim í annað sæti deildarinnar. Í fyrrakvöld tapaði Grindavík fyrir botnliði Breiðabliks í Subway-deild kvenna og munar nú aðeins tveimur stigum á Grindavík og Blikum í neðstu sætum deildarinnar.

Njarðvík - Þór Ak. 97:62

(26:17, 17:21, 27:18, 27:6)

Leikur liðanna var í jafnvægi framan af, Njarðvíkingar leiddu leikinn en náðu ekki að rífa sig almennilega frá norðanmönnum þótt þeir hafi leitt með níu stigum eftir fyrsta leikhluta (26:17). Þórsarar minnkuðu muninn í öðrum leikhluta, náðu forskoti Njarðvíkur niður í fjögur stig en Njarðvík leiddi í hálfleik með fimm stigum (43:38).

Leiðir skildu í þriðja leikhluta og Njarðvíkingar tóku að þjarma að Þórsurum. Njarðvík jók muninn jafnt og þétt og fyrir lokaleikhlutann voru þeir búnir að byggja upp fjórtan stiga forystu (70:56). Í fjórða leikhluta gáfust norðanmenn hreinlega upp og skoruðu ekki nema sex stig. Lokatölur 97:62 og Njarðvík er komið í annað sæti deildarinnar með átján stig. Keflavík er á toppnum með tuttugu stig og Íslandsmeistarar Þórs Þorlákshöfn eru í þriðja sæti með sextán stig. Njarðvík hefur leikið einum leik fleiri en Keflavík og Þór svo Þórsarar geta komist upp að hlið þeirra.

Nicolas Richotti fór fyrir Njarðvík í gær með 23 stig, sex fráköst og var hann með 27 framlagspunkta. Dedrick Basile var með fimmtán stig og fimm stoðsendingar, þá voru Mario Matasovic og Logi Gunnarsson með tólf stig hvor.

Frammistaða Njarðvíkinga: Nicolas Richotti 23/6 fráköst, Dedrick Deon Basile 15/5 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 12, Mario Matasovic 12/8 fráköst, Veigar Páll  Alexandersson 8/4 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 6/5 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 5, Elías Bjarki Pálsson 4, Fotios Lampropoulos 4/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 3/4 fráköst, Jan Baginski 3, Bergvin Einir Stefánsson 2.


Robbi Ryan stóð fyrir sínu með 24 stig, þrettán fráköst og sex stoðsendingar.

Breiðablik - Grindavík 77:71

(26:10, 13:23, 22:23, 16:15)

Grindvíkingar fóru illa af stað og lentu sextán stigum undir í fyrsta leikhluta (26:10). Þær sýndi góðan karakter í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn í sex stig en Breiðablik leiddi áfram, staðan 39:33 í hálfleik.

Meira jafnvægi var á leik liðanna í seinni hálfleik. Grindvíkingar náðu að minnka muninn í tvö stig um miðbik þriðja leikhluta (56:54) og þrjú stig í fjórða leikhluta (70:67) en nær komust þær ekki og Blikar ríghéldu í forystuna til að vinna annan leikinn sinn í vetur.

Nú munar aðeins tveimur stigum á Grindavík og Breiðabliki á botni Subway-deildar kvenna en Grindavík hefur sex stig. Næsti leikur þeirra verður gegn Njarðvík sem er í næstefsta sæti með átján stig.

Frammistaða Grindvíkinga: Robbi Ryan 24/13 fráköst/6 stoðsendingar, Edyta Ewa Falenzcyk 17/7 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir 13, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 9/5 fráköst, Alexandra Eva Sverrisdóttir 3, Arna Sif Elíasdóttir 3, Hekla Eik Nökkvadóttir 2/5 stoðsendingar, Aþena Þórdís Ásgeirsdóttir 0, Sædís Gunnarsdóttir 0, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 0, Anna Margrét Lucic Jónsdóttir 0, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 0.

Tengdar fréttir