Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík tapaði í framlengdum leik
Domynikas Milka tryggði Keflavík framlengingu þegar hann setti niður gott þriggja stiga skot.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 22. janúar 2022 kl. 10:24

Keflavík tapaði í framlengdum leik

Keflavík mistókst að ná fjögurra stiga forskoti á toppi Subway-deildar karla í körfuknattleik í gær þegar Keflvíkingum mistókst að landa sigri gegn Stjörnunni í Garðabæ. Eftir ágætis byrjun tók að síga á ógæfuhliðina í seinni hálfleik og Stjörnumenn komust betur inn í leikinn. Keflvíkingar fengu ágætis færi til að klára leikinn í stöðunni 88:85 og þrjár sekúndur eftir á leikklukkunni þegar þeir fengu tvö vítaköst og boltann aftur en hvorugt vítakast Calvin Burks vildi rata rétta leið en þriggja stiga skot Domynikas Milka tryggði Keflavík framlengingu þar sem Stjarnan hafði betur.
Hörður Axel Vilhjálmsson var með besta framlag Keflvíkinga í gær, 25 framlagspunktar þegar hann skoraði fimmtán stig, tók tólf fráköst og átti níu stoðsendingar.

Stjarnan - Keflavík 98:95

(16:27, 23:23, 27:17, 22:21, 10:7)

Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og höfðu ellefu stiga forystu eftir fyrsta leikhluta (16:27). Jafnræði var á með liðunum í öðrum leikhluta og hálfleikstölur 39:50.

Seinni hálfleikur fór illa af stað hjá Keflvíkingum og sprækir Stjörnumenn gerðu ellefu fyrstu stigin í þriðja leikhluta og náðu að jafna leikinn (50:50). Eftir það var leikurinn mjög jafn þótt Keflavík væri yfirleitt skrefinu á undan og munaði einu stigi á liðunum fyrir fjórða leikhluta (66:67).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heimamenn náðu yfirhöndinni í upphafði fjórða leikhluta og náðu mest sjö stiga forskoti (76:69) en Keflavík komst yfir á nýjan leik þegar um fjórar mínútur voru eftir (79:81). Það sem eftir leið leiks hefði sigurinn getað lent hvoru megin sem var, liðin skiptust á forystunni og eins og fyrr segir fengu Keflvíkingar gullið tækifæri til að gera út um leikinn á síðustu sekúndunum þegar dæmt var villa á Stjörnumenn fyrir óíþróttamannslega framkomu í stöðunni 88:85 og Keflvíkingar fengu því tvö vítaskot og boltann aftur. Vítaskot Calvin Burks vildu hins vegar ekki rata rétta leið en Domynikas Milka átti magnaða þriggja stiga körfu sem jafnaði leikinn í 88:88.

Calvin Burks brást bogalistinn á lokasekúndum leiksins en hann var stigahæstur Keflvíkinga með 24 stig og fjögur fráköst.

Stjarnan hafði að lokum betur eftir jafna framlengingu þar sem jafnt var á flestum tölum, lokatölur 98:95.

Keflvíkingar eru sem fyrr efstir í deildinni með tuttugu stig, næstir koma Njarðvíkingar með átján og Þór Þorlákshöfn með sextán en Þór á leik til góða.

Frammistaða Keflvíkinga: Calvin Burks Jr. 24/4 fráköst, Darius Tarvydas 17/5 fráköst/5 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 15/12 fráköst/9 stoðsendingar, Dominykas Milka 13/15 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 11, Ágúst Orrason 7, Þröstur Leó Jóhannsson 5, Valur Orri Valsson 3, Arnór Sveinsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Magnús Pétursson 0, Nikola Orelj 0.

Tengdar fréttir