Málarinn jafnar málin
Ef hægt er að draga ályktanir af fyrstu þremur skiptunum sem Brynjar Hólm Sigurðsson hefur verið í tippleik Víkurfrétta, þá er hann jafnaðarmaður í eðli sínu. Í öllum leikjum hans hefur jafntefli verið niðurstaðan og hann borið sigur úr býtum í einhverjum af þeim úrræðum sem þá er gripið til. Um helgina gerði hann 8-8 jafntefli við Halldór Rúnar Þorkelsson en vann á fimm réttum í leikjum með einu merki, á móti fjórum leikjum hrútsins Rúnars. Rúnari er hér með þakkað fyrir sína þátttöku.
Það kemur í ljós í dag hverjum Brynjar mætir í næstu umferð en hann er væntanlega tilbúinn til að lýsa yfir að það megi kalla hann hund ef hann kemst ekki upp í annað eða hvað þá þriðja sætið í heildarleiknum. Brynjar er kominn með 22 leiki rétta, þarf þrjá leiki til að komast upp fyrir Þórunni Kötlu Tómasdóttur sem er með 24 leiki rétta, og fimm leiki til að komast upp fyrir Jón Ragnar Magnússon sem er með 26 leiki rétta.