Ólík hlutskipti Reykjanesliðanna í Bónusdeild kvenna
Njarðvík með sigur á útivelli, Keflavík tapaði heima
Reykjanesliðin í Bónusdeild kvenna, Keflavík og Njarðvík, voru í eldlínunni í kvöld í Bónusdeild kvenna. Keflavík mætti toppliði Hauka á heimavelli og Njarðvíkurkonur fóru á Hlíðarenda og mættu liði Vals. Hlutskipti liðanna voru ólík, Keflavík þurfti að sætta sig við tap, 96-97 en Njarðvík sótti sigur, 76-78.
Haukar voru með undirtökin allt þar til nokkrar mínútur lifðu leiks en þá munaði tíu stigum. Keflavík tók þá frábæran lokasprett, náði að jafna og áttu svo möguleika á að komast yfir á lokasekúndunum en þriggja stiga skot Önnu Láru Vignisdóttur geigaði og Haukar náðu frákastinu, settu tvö vítaskot og Keflavík átti lokaþristinn en hann dugði ekki til, lokatölur 96-97.
Jasmine Dickey var yfirburða best Keflvíkinga, skoraði 34 stig og tók 9 fráköst.
Að Hlíðarenda var um jafnari leik að ræða, Njarðvík leiddi í hálfleik með fjórum stigum, 41-45 en Valskonur byrjuðu mun betur í seinni hálfleik og minnkuðu muninn í eitt stig fyrir lokafjórðunginn, voru svo komnar yfir en Njarðvík átti frábæran lokasprett og unnu nauman sigur, 76-78.
Fjórir leikmenn Njarðvíkur skiluðu mestu framlagi, Emilie Sofie Hesseldal hæst, með 23 framlagspunkta (10 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar).
Ein umferð er eftir af deildarkeppninni en svo skiptist Bónusdeild kvenna upp í efri og neðri hluta og þá leika liðin fjóra leiki. Eftir það kemur í ljós hvaða átta lið komast í úrslitakeppnina.
