TR - bjöllutónleikar
TR - bjöllutónleikar

Íþróttir

Of margir útlendingar í körfunni eða fullkomin staða?
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 13. febrúar 2025 kl. 07:00

Of margir útlendingar í körfunni eða fullkomin staða?

Ísland eina landið sem er ekki með höft á fjölda útlendinga

„Eru gæðin meiri,“ spyr Guðjón Skúlason, fyrrum leikmaður körfuknattleiksliðs Keflavíkur en auk þess lék Gaui eitt tímabil með liði Grindvíkinga á sínum flotta ferli. Umræðan um fjölda erlendra atvinnumanna í körfuknattleik og hugsanlega í liðsíþróttum á Íslandi, hefur verið nokkuð hávær undanfarin ár og sitt sýnist hverjum.
Blaðamaður fór á stúfana og ræddi við fjölmarga aðila í hreyfingunni og var reynt að fá sjónarmið beggja fram, þeirra sem vilja setja einhver bönd á fjöldann eða þeirra sem vilja hafa þetta óheft eins og staðan er í dag. 
Liðin á Suðurnesjum taka heldur betur þátt í dansinum, Keflvíkingar tefldu lengi fram átta erlendum atvinnumönnum fram í karlaliði sínu, hafa bætt tveimur við síðan þá en einn þeirra sem voru komnir, er meiddur. Kvennalið Keflvíkinga er með tvo útlendinga. Njarðvíkingar eru með sex útlendinga í karlaliði sínu, þrjá í kvenna- og Grindvíkingar hafa verið með fjóra í karlaliði sínu og kvennamegin voru þrír útlendingar þar til fyrir stuttu þegar þær bættu við leikmanni sem var sagt upp hjá Njarðvík, tefla því fram fjórum útlendingum.
Það kennir ýmissa grasa í viðmælendahópnum, m.a. afreks körfuknattleiksmaður sem leikur erlendis sem atvinnumaður, þjálfari karlaliðs, þjálfari kvennaliðs, formaður körfuknattleiksdeildar, fyrrnefndur Gaui Skúla, Bandaríkjamaður sem fékk íslenskt ríkisfang, ungur leikmaður sem missti áhugann, svo einhver dæmi séu tekin.
Viðtöl við fleiri viðmælendur munu birtast á næstu dögum.
Ferill Guðjóns hófst með Njarðvíkingum, hér eru Íslandsmeistararnir í mini bolta 1978. Skyldi Gaui vera eini Suðurnesjabúinn sem hefur unnið stóran titil með Keflavík, Njarðvík og Grindavík?

Guðjón var snemma byrjaður að sanka að sér titlum í körfuknattleik.

Guðjón Skúlason var kveikjan að þessari grein. Á leik Keflavíkur gegn Grindavík síðasta haust báru þessi útlendingamál á góma og þegar blaðamaður spurði Gauja hvort gæðin væru ekki meiri með öllum þessum útlendingum, svaraði Gaui á þennan máta:

VF Krossmói
VF Krossmói

„Fyrrum liðsfélagi minn hjá Keflavík, Damon Johnson, kom í heimsókn til Íslands síðasta haust og við fórum á leik hjá Keflavíkurliðinu. Damon fullyrti að liðið okkar eitt árið en þá var hann eini útlendingurinn, hefði unnið liðið í dag. Auðvitað má svo rökræða það fram og til baka og það er alltaf erfitt að bera saman lið frá ólíkum tímum, leikurinn hefur breyst mikið á undanförnum árum. Hugsanlega eru gæðin meiri inn á milli hjá þessum bestu liðum eins og Stjörnunni, Tindastóli og Valsmönnum þegar þeir eru upp á sitt besta, en að mínu mati er þau ekki þess virði. Fórnarkostnaðurinn er alltof hár ef ungir íslenskir leikmenn eiga ekki að geta átt möguleika á að fá tækifæri, hugsanlega ekki einu sinni á æfingum því erlendir leikmenn eru orðnir hátt í tíu. Ef að rökin með því að hafa meiri gæði og okkar ungu leikmenn geti litið upp til og æft með þessum gæðaleikmönnum og lært af þeim, eru þá þau rök ekki flogin út um gluggann ef þessir ungu leikmenn sitja bara á ofninum á meðan útlendingarnir æfa? 

Fyrsti Íslandsmeistaratitill karlaliðs Keflavíkur, árið 1989. Útlendingar voru ekki leyfðir á þessum tímapunkti en komu árið eftir.

Ef ég hugsa aftur í tímann þegar ég var ungur leikmaður á leiðinni upp stigann, ef ég hefði séð fram á níu útlendinga fyrir framan mig, er ég ekki viss um hvernig mín mál hefðu þróast. Þegar ég var að koma upp í meistaraflokk þá voru ekki einu sinni útlendingar leyfðir en svo var hægt að hafa einn erlendan leikmann. Flest liðin tóku Kana og þeir lituðu svo sannarlega íslenskan körfuknattleik litríkari litum og margir hugsa til þessa tíma með ákveðinni nostalgíu. Þarna vorum við Keflvíkingarnir með Damon Johnson t.d., á móti Njarðvíkingum með Brenton Birmingham, eða nokkrum árum fyrr þegar Jonathan Bow var með okkur og Ronday Robinson með Njarðvík. Ég er ekki að segja að ég myndi vilja leyfa einn útlending í dag, það væri klárt brot á EES-samningnum en það hlýtur að vera einhver millivegur til, sem hentar öllum en þó misvel, eftir því hvar liðin eru staðsett á landinu.

Guðjón spilaði 122 leiki fyrir A-landslið Íslands.

Enginn í karlalandsliðið í langan tíma

Staðan er óvenju slæm hjá mínum ástkæra klúbbi, voru komnir með níunda eða tíunda útlendinginn, ég var búinn að missa töluna, en svo var tveimur sagt upp. Ef að þetta væri svona hjá öllum liðum í deildinni, að það sé alltaf bara bætt við erlendum leikmönnum ef gengið er ekki sem skyldi, hvernig á þetta þá að geta endað öðruvísi en með ósköpum? Keflavík hefur ekki skilað landsliðsmanni í karlalandsliðið í ansi mörg ár, það gengur miklu betur með kvennastarfið og það er frábært en við hljótum að þurfa spyrja okkur hvernig stendur á því að enginn strákur skilar sér upp í röð hinna bestu. Gæti verið að þeim hugnist ekki þessi mikli fjöldi erlendra atvinnumanna? 

Við þurfum að fara í allsherjar naflaskoðun með þessi mál. Ef að Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, hefur áhyggjur af þessari þróun, er það þá ekki eitthvað sem við ættum að hugleiða? Hvað er best fyrir íslenskan körfuknattleik? Ef svarið við þeirri spurningu er að sem flestir erlendir atvinnumenn séu inni á vellinum, þá get ég alveg eins farið á leik í NBA deildinni. Við hljótum að þurfa meta þetta út frá hag íslenska landsliðsins, þessi þróun er ekki góð ef við hugsum tíu ár fram í tímann með óbreyttu fyrirkomulagi, það leyfi ég mér að fullyrða. Ég skil rök landsbyggðarliðanna, það er erfitt fyrir þau lið að keppa ef þau geta ekki haft svo marga útlendinga og kannski væri hægt að hafa aðra reglu fyrir þau lið, ég myndi styðja það. Ef ekki, þá finnst mér ekki hægt að fórna framtíð íslensks körfubolta, bara svo þau geti keppt á meðal þeirra bestu. Hitt er svo annað mál hvernig á því standi að ungir leikmenn vilji ekki fara út á land, standa á eigin fótum og þroska sig, og fá fleiri tækifæri á að spila. Þór frá Akureyri ætti t.d. að eiga auðvelt með að laða unga leikmenn til sín, það er háskóli þar svo ungir leikmenn gætu menntað sig í leiðinni. Ég hvet alla unga leikmenn til að prófa svona lagað, þau myndu bæði bæta sig sem leikmenn og ekki síst, þroska sig sem manneskjur.

Þessa útlendingamál eru einfaldlega flókin og erfið, við þurfum virkilega að vanda okkur þegar kemur að ákvörðun um þessi mál. Það eru formannaskipti framundan hjá KKÍ og verður fróðlegt að sjá hvort nýjar áherslur komi fram. Ef við Íslendingar teljum að við getum haldið áfram á þessari braut með engin höft og öll lið fyllist af útlendingum, og miklu stærri þjóðir í kringum okkur eru þó með einhverjar reglur, þá erum við á villigötum tel ég. Ef ég fengi að ráða þá myndi ég vilja sjá liðin þurfa að vera með að lágmarki, átta uppalda leikmenn í sínum tólf manna hópi. Ef að Svíar t.d. hafa vit á því að hafa þann fjölda, því skyldum við ekki gera það líka,“ spyr Gaui.

Guðjón átti svo sannarlega sinn þátt í fyrsta stóra titli Grindvíkinga í íþróttum, bikarmeistaratitlinum árið 1995. Gaui skoraði 26 stig í flottum sigri á Njarðvíkingum.
Í dag er það öðruvísi bolti sem á hug og hjarta Gauja, hér er hann í golfi með fyrrum leikmanni Keflavíkur, Jóni Norðdal Hafsteinssyni.